Netverjar skjóta föstum skotum á þáttastjórnandann Jimmy Kimmel og kvikmyndaleikstjórann Michael Bay eftir að gamalt viðtal við Megan Fox í spjallþættinum Jimmy Kimmel Live fór á flug um samfélagsmiðla.

Þar lýsir Fox upplifun sinni af tökustað við Bad Boys 2 sem Bay leikstýrði. Leikkonan lék síðar aðalhlutverk í kvikmyndinni Transformers sem skaut henni upp á stjörnuhiminn en var aðeins 15 ára gömul þegar hún lék aukahlutverk í Bad Boys 2 þar sem hún var látinn dansa undir rennandi vatni í nærfötunum einum.

Látin dansa á nærfötum 15 ára

Bæði Bay og Kimmel hafa verið harðlega gagnrýndir fyrir að hlutgera Fox og gera lítið úr upplifun hennar. Hér fyrir neðan sést viðtalið þar sem Fox spjallar við Kimmel um atriðið umdeilda.

„Þau voru að taka upp klúbb-senu og ég var fengin til að leika í henni. Ég var klædd í bikiní með þjóðfánanum og var með rauðan kúrekahatt og í pinnahælum. Hann samþykkti þann búning. Þau sögðu við hann að ég væri bara 15 ára gömul svo ég mætti ekki sitja við barinn og ég mátti ekki sjást með áfengan drykk við hönd. Svo hann fann upp á lausn með því að láta mig dansa undir fossi. Rennandi blaut. Ég var 15 ára. Ég var í tíunda bekk,“ sagði Fox.

#CancelKimmel fer á flug

Vakin er athygli á því að Kimmel hafi síðar í sama viðtali teiknað skopmynd af þeim að sofa saman.

„Hér er mynd af okkur saman,“ sagði Kimmel og dró fram myndina. „Eins og þú sérð þá ert þú með tunguna úti og ég er með tunguna úti. Líkamshárin mín eru í fullri reisn.“

Netverjar fara stórum orðum um Kimmel og Bay og hafa þeir meðal annars verið kallaðir barnaníðingar. Myllumerkið #CancelKimmel fór eins og eldur um sinu á Twitter í gær og var það á topplistanum yfir „trending“ mál þann dag.

Segist aldrei hafa verið beitt ofbeldi

Fox birti færslu á Instagram til að svara fyrir umræðuna á samfélagsmiðlum. Hún sagðist þakklát fyrir stuðninginn en ítrekaði að hún hafi verið 18 og 19 ára þegar hún fór í áheyrnaprufu og lék í Transformers. Hún minntist ekki á Bad Boys 2 en sagði að henni hafi aldrei liðið eins og einhver væri að áreita hana kynferðislega.

„Ég var aldrei beitt ofbeldi eða áreitt kynferðislega,“ skrifar Megan á Instagram.

„Ég er þakklát fyrir ykkur sem eruð nógu hugrökk til að koma fram og ég er þakklát fyrir ykkur sem veitið stuðning, gleðjið og huggið þá sem hafa orðið fyrir ofbeldi og lifa í eitruðu umhverfi.“

View this post on Instagram

May we all continue waking up❤️

A post shared by Megan Fox (@meganfox) on