Leiðbeiningarnar voru birtar í tengslum við Læknadaga, ráðstefnu Læknafélags Íslands, þar sem meðal annars var fjallað sérstaklega um offitu og sykursýki 2. Höfundar leiðbeininganna eru Erla Gerður Sveinsdóttir læknir, Helga Sævarsdóttir hjúkrunarfræðingur og Hildur Thors læknir. Hér má sjá helstu niðurstöður:

Offita er flókinn sjúkdómur sem hefur marga fylgisjúkdóma, bæði líkamlega, andlega og félagslega. Orsakir offitu er flókið samspil umhverfis og erfða.

Heilbrigðisstarfsfólk ætti að vera vakandi fyrir heilsufarsáhrifum offitu og bjóða einstaklingum meðferð, stuðning og eftirfylgd samkvæmt klínískum leiðbeiningum. Mælt er með að meðferðin sé þverfagleg og að á öllum heilsugæslustöðvum sé starfrækt heilsueflandi teymi sem meðal annars kemur að meðferð offitu. Miðað er við að í slíku teymi sé læknir, hjúkrunarfræðingur, hreyfistjóri, sálfræðingur og næringarfræðingur.

Veita þarf heildstæða meðferð við offitu og huga að mismunandi meðferðarleiðum. Ávallt þarf að huga að heilbrigðum lífsstíl og lífsgæðum auk þess að vinna sérstaklega með líkamlega og andlega sjúkdóma sem til staðar eru. Því til viðbótar kemur til greina að nota lyfjameðferð eða skurðaðgerðir þar sem það á við.

Meðferð við offitu er alltaf ævilangt ferli. Hér eru nefnd nokkur atriði sem auka líkur á árangursríkri meðferð.

1. Mikilvægt er að heilbrigðisstarfsfólk sýni gott fordæmi og forðist að ýta undir fordóma vegna offitu og sýni virðingu í samskiptum. Hægt er að draga úr fordómum með því að nota viðeigandi málfar og samtalstækni ásamt því að bjóða aðstöðu og aðbúnað sem hæfir einstaklingum með offitu, svo sem armlausa stóla, viðeigandi vigtar og blóðþrýstingsmanséttur.

2. Áhugahvetjandi samtal er líklegt til að skapa traust við meðferðaraðila, efla áhuga og trú einstaklingsins á eigin getu til að fylgja meðferð.

3. Aukin þekking á sjúkdómnum og skilningur á meðferðinni er mikilvægur þáttur til að auka hvata til breytinga, auka lífsgæði og getu einstaklings til að fylgja meðferðinni til langtíma.

4. Skoða þarf andlega vanlíðan, merki um átröskun, svefntruflun, streitu, áföll, kvíða og þunglyndi og veita viðeigandi meðferð.

5. Hjá einstaklingum með offitu og heilbrigð efnaskipti þarf að huga að lífsstíl sem viðhaldið getur heilbrigðum efnaskiptum eins lengi og kostur er.

6. Leggja ætti áherslu á bætta líkamssamsetningu, það er að viðhalda vöðvamassa en minnka fituvef með bættum lífsstíl, aukinni hreyfingu við hæfi og minni kyrrsetu.

7. Meðhöndla þarf fylgisjúkdóma offitu með viðeigandi meðferð.

8. Huga ætti að lyfjameðferð og/eða efnaskiptaaðgerðum ef lífsstílsbreytingar og atferlismeðferð hefur ekki gefið viðunandi árangur.

9. Meðferð við offitu telst árangursrík ef einstaklingur hefur tileinkað sér heilbrigðar lífsvenjur til langs tíma, bætt líkamssamsetningu, er með heilbrigð efnaskipti eða náðst hefur að meðhöndla efnaskiptasjúkdóma, líkamsþyngd helst stöðug eða hefur minnkað um 5 til 10 prósent frá upphafi meðferðar, líkamsímynd, sjálfsvirðing og sjálfstraust einstaklings hefur batnað og lífsgæði hafa aukist ásamt því að einstaklingur hefur öðlast getu og áhuga til að viðhalda bættum lífsstíl til langtíma.

Ef meðferð skilar ekki árangri samkvæmt meðferðarmarkmiðum þarf að vísa í úrræði þar sem þverfaglegt teymi sérhæft í meðferð einstaklinga með offitu sem í september 2019 er að finna í Heilsuborg, Kristnesi, NLFÍ og á Reykjalundi.

Heimild: Embætti landlæknis, landlaeknir.is