Sýningin Allt sem sýnist – raun­veru­leiki á striga 1970-2020 stendur yfir á Kjarvals­stöðum. Þar eru sýnd verk sem fást við raun­veru­leikann eða ein­hverja mynd hans. Á­tján lista­menn eiga þar verk. Yngsti lista­maðurinn á sýningunni er Helena Margrét Jóns­dóttir (1996) og Þuríður Sigurðar­dóttir (1949) er elst þeirra kvenna sem eiga verk á sýningunni.

Helena út­skrifaðist úr Lista­há­skólanum í fyrra. Út­skriftar­sýning Lista­há­skólans var haldin fyrir ári og í sama sal og verk Helenu eru nú til sýnis. Hún segir það á­kaf­lega mikinn heiður að eiga verk á sýningunni og vera í svo frá­bærum hópi lista­manna.

Á­hugi hennar á mynd­list vaknaði snemma: „Það er allt mömmu að þakka eins og flest. Hún setti mig á nám­skeið fyrir sex ára börn í Mynd­listar­skólanum í Reykja­vík og allan grunn­skólann og mennta­skólann var ég þar á nám­skeiðum. Ég fór síðan á sjón­listar­braut í Mynd­listar­skólanum og þaðan fór ég í bachelor­n­ám við Konung­lega Lista­há­skólann í Haag. Ég tók eitt og hálft ár þar til að læra betur ýmis tækni­leg at­riði. Hollendingar eru þekktir fyrir mikla málara­list en í skólanum áttaði ég mig á því að það ríkti ekki mikil hrifning gagn­vart því að mála í raun­sæis­stíl, það var fremur verið að losa sig við þá hefð. Þannig að ég fékk að skipta og kláraði gráðuna í Lista­há­skólanum.“

Þyrsti í að vita meira


Þuríður, sem er lands­þekkt söng­kona, segist alltaf hafa málað. „Eina námið sem mig langaði í var mynd­listar­nám en það var ekki í boði af ýmsum á­stæðum, svo ég byrjaði að syngja. Ég málaði í frí­stundum en þegar ég átti strákana mína þá hætti ég. Ég gleymdi mér svo mikið við að mála að ég hefði orðið óhæf móðir hefði ég haldið því á­fram,“ segir hún og hlær. „Þegar þeir fóru að vaxa úr grasi fór mynd­listin aftur að kalla á. Ég vissi að mér yrðu á mis­tök þegar ég var að teikna og mála en vissi ekki hvernig ég ætti að leið­rétta þau. Mig þyrsti í að vita meira um málara­listina og langaði til að kafa dýpra. Ég sagði við manninn minn: Ég held að ég verði geð­illt gamal­menni ef ég læt ekki reyna á þetta. Ég fór í Mynd­lista- og hand­íða­skólann og út­skrifaðist úr mynd­listar­deild Lista­há­skólans 2001.“

Hún segist alltaf hafa verið höll undir raun­sæið. „Þegar ég var í skólanum þá var mál­verkið ekki hátt skrifað, inn­setningar, gjörningar og vídeólist þóttu mun merki­legri. Út­skriftar­verk­efnið mitt voru mál­verk í raun­sæis­stíl um hluti sem höfðu þjónað hlut­verki sínu og misst gildi sitt. Ég þurfti að berjast fyrir þessu verk­efni en var svo heppin að Birgir Andrés­son kenndi mér einn kúrs og tók slaginn með mér.“

And­stæður í sköpun

Helena málar olíu á striga. „Ég vinn verkin fyrst í photos­hop en þar er byggt á sömu lag­skiptingum og olíu­verk. Það er auð­velt og fljót­legt að búa til mynd í for­ritinu en að flytja hana með olíu á striga sem er miklu hægara ferli. Ég hef mjög gaman af þessum and­stæðum í sköpuninni.“

Mynd­efnið er hvers­dagurinn. „Það er mikið af mér í myndunum og ég set líka í þær litla muni, til dæmis papriku­stjörnur og verð­launa­gripi. Þetta eru raun­sæ verk í bland við staf­rænt ab­strakt.“
Verk hennar á sýningunni eru fimm. „Þau fjalla um það að reyna að gera vel við sig en þvælast um leið fyrir sjálfum sér og þurfa svo að greiða úr flækjunni sem maður skapaði sjálfur,“ segir Helena.

Pólitísk verk

Olíu­mál­verk Þuríðar á sýningunni eru á tveimur veggjum. Annars vegar eru þar fimm­tán verk frá út­skriftar­sýningunni fyrir ní­tján árum sem sýna hluti sem til­heyra heimilinu og hins vegar þrjú ný verk, máluð á þessu ári. Nýju verkin sýna skrið­jökla og má segja að verkin séu beint fram­hald af bráðnandi jöklum sem hún sýndi á síðasta ári. Jöklar og ís­jakar hafa verið henni hug­leiknir að undan­förnu og það sem er að gerast í um­hverfinu vegna lofts­lags­breytinga.

„Fljót­lega eftir að ég út­skrifaðist fór ég að mála gróður og þá oftast í nær­mynd. Segja má að með skrið­jöklunum á sýningunni fari ég út fyrir þann ramma. Ég held ég geti sagt að öll mín verk séu máluð af náttúru- og um­hverfis­sinna og það er tölu­verð pólitík í þeim þótt ég hafi ekki haft hátt um það. Bráðnun jökla er ógn­væn­leg og þau um­hverfis­á­hrif sem við stöndum frammi fyrir. Þó er í einni myndinni hvönn fyrir framan skrið­jökulinn og það má kannski eygja von í því,“ segir Þuríður.