Hrafnaþing er heiti á röð fræðsluerinda um margvíslegt starf Náttúrufræðistofnunar Íslands sem fer að jafnaði fram yfir vetrarmánuðina. Í dag verður flutt kynning um Borkjarnasafnið á Breiðdalsvík – safn sem ekki margir þekkja til en sinnir mikilvægu hlutverki innan vísindasamfélagsins.

„Þetta er verkefni sem ég kom inn í fyrir tæplega tveimur árum síðan og er búið að vera í hægri uppbyggingu í langan tíma,“ segir María Helga Guðmundsdóttir, jarðfræðingur og umsjónarmaður safnsins. „Ég var ráðin inn á tímapunkti þar sem hafði skapast svigrúm til að setja meiri kraft í það og ég ætla að greina aðeins frá starfsemi safnsins og fjalla aðeins um hvað stendur til á næstu árum.“

María Helga segir mjög skiljanlegt að fólk þekki ekki til safnsins.

„Borkjarnasafnið er vísindasafn, eitt af mörgum vísindalegum sýnasöfnum sem Náttúrufræðistofnun heldur utan um,“ útskýrir hún og vísar til þess að kollegar hennar haldi úti söfnum yfir plöntur, sveppi, fugla, steingervinga og allt mögulegt. „Borkjarnarnir eru sýni sem falla til við ýmiss konar jarðboranir og þótt það sé kannski búið að framkvæma þær rannsóknir sem stóð til þegar var borað fyrir þessu þá eru margar spurningar sem borkjarninn getur enn svarað fyrir vísindamenn.“

María Helga líkir safninu þannig við eins konar bókasafn fyrir vísindamenn.

„Rétt eins og maður hendir ekki bók þótt einhver hafi lesið hana einu sinni, þá hendirðu ekki borkjarna þótt einhver sé búinn að skoða hann einu sinni,“ segir hún. „Við höldum upp á þessa borkjarna þegar þeir eru færðir okkur og reynum að skapa aðstöðu þar sem fólk getur annað hvort komið og skoðað kjarnana hjá okkur, gert á þeim mælingar og þar fram eftir götunum, eða tekið sýni og greint með ýmsum aðferðum.“

Fimmtíu kílómetrar af kjörnum

Lagerinn á safninu er ekki beint lítill.

„Við erum með vel á ellefta þúsund kassa og í hverjum kassa eru allt að átta metrar af kjarna,“ segir María Helga. „Ég hef slegið á að þetta séu kannski fimmtíu kílómetrar af kjörnum sem við erum með ef við myndum stilla sívalningunum upp frá enda til enda.“

Sem jarðfræðingur þekkir María Helga mikilvægi kjarnanna vel af eigin reynslu.

„Við erum alltaf að reyna að ráða í það hvað er ofan í jörðinni undir fótum okkar út frá því hvað við sjáum á yfirborðinu,“ segir hún. „Það er víða hægt að gera sér ágætlega grein fyrir því sem um er að ræða en það skiptir alltaf máli að fá sem beinastar upplýsingar, hvort sem það er með mælingum eða hreinlega með svona borunum.“

Sem dæmi um hvernig kjarnarnir nýtast okkur í daglegu lífi bendir María Helga á byggingu mannvirkja.

„Hér á Austurlandi er okkur mikið umhugað um jarðgöng og þau er ekki hægt að skipuleggja almennilega nema þú vitir hvers konar berg þú ert að fara í gegnum, hvar þú þarft að þétta það, hvar þú þarft að styrkja það og svo mætti lengi telja.“

Eftirlætiskjarninn

Ef það er hægt að spyrja einhvern út í það hvort viðkomandi eigi sér uppáhaldsborkjarna þá hlýtur það að vera María Helga.

„Það er erfitt að gera upp á milli barnanna sinna,“ segir hún og hlær. „Sá kjarni sem mér hefur fundist merkilegast að komast í snertingu við er borkjarninn frá Surtsey 1979. Þá var borað í miðju eyjarinnar, niður á 180 metra dýpri, ekki nema tólf árum eftir goslok.“

Það eru ekki margir borkjarnar í heiminum þess eðlis að vera boraðir beint niður í nýgosið eldfjall, hvað þá svona sérstakt gos eins og Surtseyjargosið sem kemur upp neðansjávar.

„Það er mikil móbergsmyndun sem er hægt að rekja í kjarnanum,“ segir hún. „Ég var með Surtseyjardellu sem barn svo það er einstakt að geta farið í vinnuna og horft á Surtsey frá því áður en ég fæddist.“

Hrafnaþing er haldið í húsakynnum Náttúrufræðistofnunar Íslands, Urriðaholtsstræti 6-8 í Garðabæ, og fer erindi Maríu Helgu fram klukkan 15.15 í dag. Því er jafnframt streymt á YouTube-rás stofnunarinnar. n