Urður Ýrr Brynjólfsdóttir
urduryrr@frettabladid.is
Sunnudagur 6. júní 2021
20.00 GMT

„Maður er alltaf að reyna búa til ein­hver púslu­spil og sum fjara út. At­hyglis­brestur? Nei, nei, nei, ekkert svo­leiðis.“ Þegar ég spjallaði við Axel Val Davíðs­son Diego var hann ný­búinn að fá styrk fyrir sirkus­verk­efni sem hann kallar Gagn­legt Gegl. Gegl er ís­lenskun á orðinu jugg­le og verk­efnið snýst um að kenna ein­stak­lingum með hreyfi- og þroskaraskanir á sirkus­á­höld. Á venju­legum degi sæti hann fyrir í teikni­tímum í Fjöl­brauta­skólanum í Breið­holti en hann var í fríi þennan daginn og laus í spjall. Hann gat þó ekki staldrað lengi við þar sem hann ætlaði að gefa saman vini sína seinna um kvöldið. Ekki þó í laga­legum skilningi, enda hefur hann ekki réttindi til þess.

Axel vinnur mest við sirkus­listir af ýmsum toga. „Þegar ég reyni að brjóta niður út á hvað sirkus gengur þá fæ ég út að maður sé að berjast á móti þyngdar­aflinu og reyna halda jafn­vægi, bara í mis­munandi myndum. Og helst brosa og reyna vera sætur á meðan. Berjast á móti þyngdar­aflinu og gera eitt­hvað kúl.“ Hann var með fyrstu þátt­tak­endunum í Sirkus Ís­lands og er stofn­með­limur í sirkus­lista­fé­laginu Hring­leikur. Hann ferðast núna um landið með Farandsirkusnum auk þess að vinna í öðrum sirkus­sýningum. Hann fram­leiddi sýninga­röðina Con­ey Iceland á­samt sverð­gleypinum Eric Broom­fi­eld, „Jel­ly­Boy the Clown“, frá Con­ey Is­land í Banda­ríkjunum og málar auk þess myndir af fólki með typpinu undir sviðs­nafninu Per­ró. Þar fyrir utan er hann að vinna að strand­hreinsunar­verk­efni. Það má segja að hann sé reglu­legur „alt mulig mand“.

Axel2.jpg


„Á typpinu frammi fyrir skrítnum að­stæðum“


„Ég held að Skinn­semi sé örugg­lega upp­á­halds­sýningin mín en hún hefur samt verið í yfir tuttugu mis­munandi myndum og aldrei eins. Vit­leysan og snilldin sem hefur komið þar fram er alveg príma.“ Per­ró varð til í Skinn­semi en Unnur María Mán­ey Berg­sveins­dóttir, einnig þekkt sem Húlla­dúllan, var einnig með honum á sviði og málaði myndir með brjóstunum. „Per­ró hefur verið lang­lífasta djókið mitt hingað til. Kemur mér enn á ó­vart að fólk biðji um hann. Ef fólk spyr þá er Per­ró alltaf til. Í gæsanir, steggjanir, af­mæli, fyrir­tækja­skemmtanir, alls­konar!“

„Með því skrítnara sem ég fór í var í kóvídinu, tvö pör sem ætluðu að gifta sig en máttu ekki halda veislu svo þau leigðu sér hótel­her­bergi og fengu til sín skemmti­at­riði. Það var svo­lítið fyndið að vera einn af fimm og vera að mála alla hina. Það var alveg mjög kósí hjá þeim. Stundum sem maður stendur á typpinu frammi fyrir skrítnum að­stæðum.“


Hefur þú ein­hvern tímann lent í ein­hverju mjög furðu­legu sem Per­ró?

„Hvað ætti maður að flokka sem furðu­legt? Það er kannski í grunninn pínu skrítið fyrir suma að mæta í ein­hver hús í Kópa­vogi og fara úr fötunum. Skrítnast fyrir mig eru örugg­lega steggjanir þar sem verið er að gera grín að steggnum. Þá er maður orðinn eitt­hvað tól í öðrum til­gangi. Tók mig nokkur skipti að læra brjóta þá veggi, að leyfa þessum karlakúltúr ekki komast upp með að vera svona.“

Axel segir flesta taka vel í Per­ró. „Yfir­leitt býst fólk við því að myndirnar séu bara Óla Prik klessur en það kemur þeim á ó­vart að þær séu frekar flottar. Sumar er maður ekki jafn á­nægður með en það er ekkert hægt að laga. Það eru fleiri myndir af fólki með sam­vaxnar auga­brúnir þarna úti en eru í al­vörunni.“Af­sannaði það að brennt barn forðist eldinn


Sam­talið okkar snerist að miklu leyti um eld. Axel hefur lengi verið á­huga­maður um eld, allt frá barns­aldri.

Hve­nær heldur þú að þú hafir byrjað…

„… að brenna mig? Fyrsta skiptið sem ég man vel eftir því að hafa brennt mig út af fífla­skap hef ég verið svona 7-8 ára að skjóta eld­spýtum. Ég man ekki hvernig mér tókst að klúðra því en hún skaust beint í mig.“

„Undan­farið hef ég verið að leika mér með gufurnar sem myndast við brunann til þess gera svona kúl dót. Maður getur til að mynda gert eitt sem kallast kerti, þar sem maður heldur loga­tungum upp úr munninum á sér.“ Það er hægt að sjá hann Axel gera þetta bragð og önnur í tón­listar­mynd­bandinu við Óráð eftir Ama­ba­dama. „Það er merki­legt hvað maður getur gert við eld. Svona eldgufur og eðlis­fræðin bak við það, geggjað. Núna er eldur bara orðinn enn þá meiri partur af lífinu.“

Tveir eldhugar


Axel kynntist kærustunni sinni, Sage Sover­eign, árið 2017 þegar hún kom til Ís­lands frá Banda­ríkjunum að taka þátt í Con­ey Iceland. Hún er líka eld­lista­maður. „Við erum mjög ólík í eldinum. Hún gerir meira svona norna- eða seið­konu­galdra á meðan að ég er meira fastur að leika trúðinn og gera kúl dót. Ég legg kannski meiri á­herslu á tækni en hún er samt bæði tækni­leg og leik­ræn. Ég er verða meira leik­rænn og er að læra af henni meiri svona seið­karla­mennsku.“

„Það er svo svo góð tenging að kynnast mann­eskju þegar við erum að kveikja í hvort öðru á sviði. Kannski í að­stæðunum mjög erfitt að ekki falla fyrir mann­eskju svona.“

Heldur þú að það séu svipaðar týpur sem leiki sér með eld?

„Já, það virðist vera. Svona vissar týpur sem eru ekki of stressaðar með lífið. Þetta er alveg heimsku­legt og ekkert það besta sem þú getur gert fyrir líkamann. En þetta er bara svo kúl!“

Axel3.jpg

„Þessi öfund­sýki, ég hef aldrei skilið hana“


Axel segist ekki hafa verið að leita að ástinni þegar hann hitti Sage. „Er það ekki alltaf svoleiðis? Það gerist þegar maður er síst að leita. Allt í einu kemur ástin traðkandi á naglabretti ofan á þér.“

Faraldurinn hefur valdið þeim vandræðum þar sem ferðalög á milli Íslands og Bandaríkjanna eru núna mun dýrari eða jafnvel óleyfileg. En þó það sé svekkjandi þá gengur þeim vel að halda tengslum. Þau eru bæði fjölkær, sem kallast á ensku að vera polyamorous, og eru reglulega að hitta annað fólk. „Það er svo skemmtileg tenging að deila sögum um að „flörta“ við fólk og segja hvort öðru frá deitum, mér finnst það yndislegt. Vita að hún sé að fá ást þó að maður geti ekki verið að gefa hana. Fyrir suma er það geggjað skrítið en mér finnst það svo indælt. Þessi öfundsýki, ég hef aldrei skilið hana, skrítin tilfinning. Hef ekki mikið fundið fyrir henni.“


Heldurðu að þú hafir alltaf verið fjöl­kær?


„Ég held það. Ég entist mjög illa í sam­böndum framan af. Annað hvort varð ég of lítið af­brýði­samur eða átti of mikið af vin­konum. Já, ætli það ekki, maður hafi í grunninn verið pínu fjöl­kær í gegnum lífið. Núna er allt í einu komið hug­tak fyrir það, maður er ekki bara lé­legur kærasti.“

Axel4.jpg


Bjóst ekki við því að fagna svona mörgum af­mælis­dögum


Hvernig hefðir þú sem krakki haldið að þú myndir líta út núna? Hefðir þú verið hissa?


„Já, ætli það ekki. Bjóst aldrei við að lifa svona lengi. Sem þung­lynt barn sem sá ekki margar leiðir út úr þessu þá bjóst maður aldrei við að fagna svona mörgum af­mælis­dögum. Mér finnst mjög skemmti­legt að mér hafi snúist hugur.“

Ef að þú værir ekki sirkus­lista­maður, hvað værir þú þá að gera?


„Kannski hefði ég verið í þrí­víddar­hönnun, ef ég hefði haldið á­fram að vera for­ritari. Þá hefði ég átt pening í dag. En það er bara miklu skemmti­legra að gera hluti í höndunum og berjast við þyngdar­aflið. Ég byrjaði fyrst að djöggla því ég var oft að gera þrí­víddar­myndir í tölvunni og gat ekki verið í henni á meðan hún var að fram­kalla þær. Þannig ég kenndi mér að djöggla á meðan ég beið.“

Hvernig lítur fram­tíðin út?


„Akkúrat núna veit ég ekki hvað ég eigi að segja um fram­tíðina. Það er mögu­leiki að við Sage förum að gifta okkur og flytja á bú norður á Strandir og vera með sveppa­rækt og um­hverfis­vænt jóga­setur. En akkúrat núna er verið að bíta á svo mörgum önglum að maður er að reyna landa sem flestu og sjá hvað stendur. En hvar sé ég mig eftir fimm ár? Ætli ég væri ekki til í að vera á svipuðum stað bara. Veit ekki hverju ég myndi vilja breyta. Kannski fá íbúð, komast af leigu­markaðnum. Hvar sem það verður. Hvort sem er hér í bænum eða á bónda­bæ norður á Ströndum.“

Athugasemdir