Eldgosamyndir írska ljósmyndarans Cat Gundry Beck síðan í fyrra rötuðu á forsíðu The New York Times, The Guardian og CNN, ásamt fleiri stórum miðlum. Myndirnar gerbreyttu ferli ljósmyndarans, sem sérhæfir sig öllu jöfnu í tísku og auglýsingaljósmyndun og öfluðu henni tækifæra hjá stórum útgáfum á borð við breska Vogue.

„Þetta var glatað,“ segir hún og hlær aðspurð hvernig tilfinningin hafi verið þegar hún fékk fyrstu fregnir af nýju gosi í Meradölum. „Þetta hefur verið undirliggjandi ótti hjá mér, að vera erlendis þegar eldgos hefst.“

Cat, eins og hún er jafnan kölluð, ræddi við Fréttablaðið í mars um hvernig eldgosið í Geldingadölum bylti ferlinum og gaf henni gjafir sem héldu áfram að gefa.

„Ég veit ekki hvernig ég hefði brugðist við ef ég hefði misst af þessu í fyrra. En ég hef alltaf haft þetta á bakvið eyrað þegar ég bóka ferðir frá Íslandi.“

Oftast rólegur tími á Íslandi

Hún segist ekki hafa haft slíkar áhyggjur þegar hún bókaði mánaðarlanga ferð til heimalandsins Írlands yfir sumarið, en lítið hafi bent til gosóróa þegar hún fór. „Þetta er yfirleitt mjög rólegur tími hjá mér á Íslandi af því að allir eru í sumarfríi. Þetta fer svo allt aftur í gang í september þegar tökurnar fyrir jólavertíðina fara af stað.“

Cat segist hafa ætlað að nota fríið í að byggja upp viðskiptasambönd á Írlandi. Hún bókaði flug heim til Íslands þann 18. ágúst en taldi ólíklegt að hún myndi nota það.

„Það kostaði aðeins 34 evrum meira að bóka báðar leiðir svo að ég sló bara til. Ég var orðin handviss um að nota ekki flugið en svo breyttist bara allt.“

Fékk símtal um hánótt

Íslenskur vinur Cat er sonur tveggja jarðfræðinga og starfar sem leiðsögumaður. „Hann kenndi mér flest allt sem ég veit um Ísland og er mjög vel að sér um jarðfræði og sagnfræði. Ég bað hann einhvern tímann um að hringja í mig ef eitthvað gerðist, hvenær sem það væri.“

Vinurinn stóð við sitt og hringdi í Cat um hánótt aðfaranótt 3. ágúst. „Ég svaraði: Er eitthvað byrjað? En þá var það bara eldur í mosa. Þá fór ég bara aftur að sofa. Daginn eftir var ég að borða hádegismat á skrifstofunni hérna á Írlandi og þá fékk ég skilaboð frá vini mínum sem sagði að eldgos væri hafið. Það braut algjörlega í mér hjartað.“

Cat segist hafa verið svo miður sín að hún hafi þurft pásu frá samfélagsmiðlum. „Þetta var stærsta FÓMÓ lífs míns. Ég var í spjallþræði með stórum hópi ljósmyndara á Íslandi og ég þurfti bara að logga mig út, þau voru að skipuleggja ferð með klukkustundar fyrirvara.“

Flugsætin orðin ofurdýr

Cat segist hafa getað bókað flug um helgina en verðið sé komið upp úr öllu valdi og sömuleiðis hafi hún skuldbundið sig í verkefni á Írlandi sem hún eigi erfitt með að aflýsa. „Þetta er erfið staða og ég get ekki bókað neitt fram í tímann þegar þetta er svona. Ég get bara óskað þess að það sé enn þá gos þegar ég kem heim til Íslands.“

Cat segist hafa verið á stefnumóti að kvöldi gosdags en hún hafi verið gersamlega miður sín. „Hann var samt mjög almennilegur þegar ég sagði honum frá þessu,“ segir hún og hlær. Hún segist upplifa aftengingu við samlanda sína þegar komi að gosinu. „Fólkið hér skilur ekki hvaða þýðingu þetta hefur, Íslendingar eru þeir einu sem skilja mig.“

Cat segist ætla að fá sér húðflúr með eldfjallinu. „Það verður svona táknrænt fyrir mig, en núna er ég smávegis reið við eldfjallið. Mér líður eins og unglingi hérna, eins og enginn skilji mig,“ segir hún glettin. „En Ísland minnir alltaf á sig og núna skil ég enn betur hversu djúp Íslandstengingin mín er.“