Karl­maður á Suður­landi skráði sig í sögu­bækurnar sem lík­lega einn heppnasti Ís­lendingur síðari tíma þegar hann reyndist vera einn með allar tölurnar réttar í Lottóinu, í annað skipti á rúmum þremur árum.

Í til­kynningu frá Ís­lenskri get­spá segir að í þetta skipti hafi hann unnið rúmar tíu milljónir á miða sem hann keypti á netinu. Að sögn mannsins hefur hann valið sömu tölur í nokkurn tíma eftir að hafa fengið þær í sjálf­vali á sínum tíma. Hann segist hafa fyllst sér­stakri til­finningu þegar þær völdust í sjálf­vali, sem hefur sannar­lega skilað honum.

„Við sjáumst svo aftur eftir þrjú ár“, sagði sá heppni og brosti þegar hann kvaddi höfuð­stöðvar Ís­lenskrar get­spár eftir að hafa fengið vinninginn stað­festan í vikunni.