Bandaríski söngvarinn og leikarinn Meat Loaf er látinn, 74 ára að aldri. Þetta staðfesti umboðsmaður hans, Michael Greene, í samtali við bandaríska fjölmiðla.
Meat Loaf er mörgum að góðu kunnur en fyrsta plata hans, Bat Out of Hell, seldist í bílförmum þegar hún kom út árið 1977 og er ein mest selda plata bandarísks tónlistarmanns frá upphafi.
Í frétt Guardian kemur fram að Meat Loaf, eða Marvin Lee Aday, hafi látist í gær og var eiginkona hans, Deborah, við hlið hans. Dánarorsök hefur ekki verið gefin út en í frétt Deadline kemur fram að dætur hans, Pearl og Amanda, hafi náð að kveðja hann áður en hann lést.
Meat Loaf lék einnig í sjónvarpsþáttum og kvikmyndum, til dæmis The Rocky Horror Picture Show árið 1971, Wayne‘s World og Fight Club svo fáeinar myndir séu nefndar.