Mentor-appinu var strax tekið fagnandi og kemur sér einstaklega vel nú í samkomubanninu þegar svo margir þurfa að sinna heimanámi í meiri mæli og halda vel utan um heimavinnu og samskipti við kennara og skóla, segir Elfa Hermannsdóttir, framkvæmdastjóri InfoMentor.

Foreldrar og forráðamenn íslenskra skólabarna þekkja vel vefsíðuna Mentor.is sem er sniðin að þörfum nemenda og aðstandenda svo að allir geti nálgast upplýsingar frá skólanum á skýran og einfaldan hátt.

„Það er auðvelt að sækja Mentor-appið í App Store eða Google Play og allir geta nýtt sér appið með því að skrá sig inn á Mentor með eigin kennitölu á svæðum nemenda eða aðstandenda, sem eru að einhverju leyti ólík. Þar geta aðstandendur til dæmis sent öðrum aðstandendum tölvupóst, skráð inn leyfi og veikindi, og nemendur skráð inn sjálfsmat á sínu eigin svæði,“ útskýrir Elfa.

Nýtt myndaapp á leiðinni

Með Mentor-appinu hafa nýlega bæst við fleiri möguleikar fyrir notendur.

„Við sendum nýverið út handbók fyrir aðstandendur og jafnframt handbók fyrir nemendur. Á næstunni kemur svo út nýtt myndaapp og ástundunarapp fyrir kennara og þá geta kennarar skráð ástundun í gegnum síma eða spjaldtölvu,“ upplýsir Elfa.

Til að setja upp appið í farsíma þarf notandi að vera með notendanafn og lykilorð við höndina, skrá sig inn á Mentor og fylgja leiðbeiningum á skjá.

„Mentor-appið er mikið þarfaþing og auðveldar allt aðgengi að upplýsingum. Hver og einn notandi getur stillt hvort hann vilji fá tilkynningar þegar nýjar skráningar koma inn eða hvort hann vilji fá yfirlit skráninga í lok dags, og til að skoða skráninguna þarf eingöngu að smella á hana og er þá viðkomandi kominn inn á sitt svæði í Mentor,“ útskýrir Elfa.

Í Mentor-appinu blasa við aðgengilegir reitir í mismunandi litum.

„Hver og einn litur inniheldur ákveðnar upplýsingar og má strax sjá yfirlit um hve mikið er þar á bak við og hvort eitthvað nýtt hafi bæst við frá því síðast þegar notandi skráði sig inn. Fjöldi mislitu reitanna getur verið mismunandi eftir skólum en framan við nafn nemendans er tilkynningabjalla og með því að smella á hana birtist yfirlit yfir nýjar færslur,“ upplýsir Elfa.

Sannkölluð hjálparhella

Það er einfalt að búa til flýtileið í símanum að InfoMentor. Með flýtileiðinni þarf aðeins að smella á táknið og slá inn PIN-númer til að komast inn. Nemendur og aðstandendur geta virkjað PIN-númer sem þeir nota til að skrá sig inn í stað þess að vera með notendanafn og lykilorð.

„Í Mentor-appinu er auðvelt að nálgast vikuáætlun yfir heimavinnu, upplýsingar og skilaboð frá kennurum og hægt er að fletta fram í tímann til að skoða áætlanir fyrir komandi vikur og velja daga í stundaskrá nemenda til að sjá hvernig kennslu verður háttað á ákveðnum dögum,“ upplýsir Elfa.

Á tengiliðalista Mentor er hægt að velja á milli bekkjarlista, sem innihalda nöfn nemenda, og starfsmannalista skólans.

„Hægt er að senda tölvupóst á báða þessa lista, hvort heldur hóp eða einstaklinga. Aðstandendur geta svo stýrt sýnileika sínum á listanum í gegnum stillinga-persónuvernd á Minn Mentor, en ef aðstandandi er með lokað á birtingu berst honum ekki tölvupóstur innan kerfisins. Til að senda póst þarf að haka við allan hópinn eða nöfn einstaklinga sem eiga að fá póst, til dæmis þegar bjóða þarf í afmæli eða minna á bekkjarskemmtun,“ útskýrir Elfa.

Kennarar geta lagt rafræn próf fyrir nemendur í gegnum InfoMentor og hægt er að skoða námslotur nemenda sem geta verið fyrir mislöng tímabil en innihalda allt sem við kemur kennslu í viðkomandi fagi.

„Undir flipanum Fréttir birtast almennar fréttir frá skólanum en einnig fréttir sem eiga eingöngu við bekkinn. Þá sjást verkefni sem nemendur eiga að vinna í skólanum eða leysa heima undir flipanum Verkefni. Þar er gagnlegt að hafa góða yfirsýn yfir hversu mörg verkefni bíða nemandans og þegar búið er að leysa verkefnið er einfaldlega hakað við og merkt að því sé lokið,“ segir Elfa um lítið brot af handhægum upplýsingum í Mentor-appinu, en þar má einnig finna Námsmat fyrir viðmið, námsmarkmið og verkefni, og Námsmöppu sem geymir ýmis gögn sem tilheyra nemandanum, svo sem myndir, sýnishorn af verkum hans eða vitnisburðarskírteini.

„Mentor-appið nýtist bæði nemendum og forráðamönnum þeirra vel og allir geta fylgst með framvindu námsins, mætingu, viðburðum og því sem er ætlast til af nemendum í skólastarfinu með einu klikki í símanum,“ segir Elfa.

Sjá nánar á mentor.is.