„Já, við Sól erum með 100 prósent þráðhyggju. Úrgangstextíll er algjörlega þess virði að nýta í nýsköpun og ég trúi að það sé upp að vissu marki framtíðin,“ segir Berglind Ósk Hlynsdóttir, eða fatahönnuðurinn Bosk, sem frumsýnir í dag fatalínuna Þráðhyggju úr endurnýttum, þæfðum viskastykkjum í garðskála Listasafns Einars Jónssonar. Sýningin er hluti af HönnunarMars.

Bosk vinnur verkefnið Þráðhyggju með fatahönnuðinum Sól Hansdóttur.

„Við Sól erum vinkonur til margra ára og höfum unnið aðeins saman í gegnum tíðina, beint og óbeint, en þetta er fyrsta samstarf okkar af þessari stærðargráðu. Við fengum styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna sumarið 2021, til að prófa okkur áfram með nýjar leiðir til að endurnýta textíl og útkoman endaði í þremur góðum leiðum. Í haust hlutum við svo styrk frá Hönnunarsjóði til að þróa fatalínu úr textílnum og ákváðum þá að velja þæfðu bómullina, en þar þæfum við heil viskustykki og grisjóttan textíl saman,“ upplýsir Bosk.

Glæsilegur jakki úr mismunandi mynstruðum stykkjum.

Á sýningunni gefa þær stöllur áhugaverða innsýn í endurvinnsluferli á textíl og er sjón að sjá flíkurnar sem þær hafa unnið úr þæfðum viskastykkjum.

„Viskastykkin eru oft mjög falleg og okkur finnst köflótta mynstrið, sem þau skarta oft, mjög klæðileg og á ákveðinn hátt nostalgísk. Viðbrögðin hafa verið góð og kemur fólki oft á óvart hversu hlýjar flíkurnar eru. Hönnunin er innblásin af íslenskum prjónauppskriftum og lögð er áhersla á að mynstur viskustykkjanna njóti sín, en textíllinn er unninn úr staðbundnum auðlindum.“

Bómull viskastykkja er þæfð saman.

Textílbeinagrind til sýnis

Í rannsóknarverkinu Þráðhyggju er einblínt á að lengja líftíma úrgangstextíls með endurnýtingu og þróun aðferða sem byggðar eru á þekktu íslensku handverki og klassískum aðferðum.

„Með verkefninu er vonast eftir því að leggja grunn að hringrásarhagkerfi fyrir úrgangstextíl á Íslandi sem miðar að því að fullnýta textíl sem fargað hefur verið frá hrávöru, þar sem hann er tættur niður í þræði eða trefjar, og endurunninn í nýja afurð,“ útskýrir Berglind og þar kemur skýring á skemmtilegu nafninu Þráðhyggju, sem er alls ekki það sama og þráhyggja.

Eitursvalar buxur úr viskastykkjum.

Markmið Þráðhyggju er að minnka sóun, útflutning og umhverfisáhrif textíls. Verkefnið var unnið í samstarfi við Listaháskóla Íslands og Textílmiðstöð Íslands og var aðstaða miðstöðvarinnar könnuð til verðmætasköpunar á úrgangstextíl. Rauði krossinn á Íslandi útvegaði verkefninu textíl úr fatasöfnun Rauða krossins og var allur afgangs textíll af flíkunum sem notaðar voru í verkefnið varðveittur og nýttur í uppsetningu þar sem fagurfræði „textílbeinagrinda“ gefur innsýn í ferli og heildarumfang verkefnisins.

„Sýningin verður opnuð í dag og stendur til sunnudags, þegar ferilsmyndband verkefnisins verður sýnt í lokahófinu. Það verður boðið upp á að máta flíkur og sérpanta fyrir áhugasama. Eins og á öllum góðum samfundum verða léttar veitingar í boði og til sýnis handbók Þráðhyggju sem verður mögulega hægt að festa kaup á,“ greinir Berglind frá, og þess má geta að frítt er inn á safnið. ■

Mynstur viskastykkja eru margvísleg en Bosk og Sól þykja köflótta, kunnuglega mynstrið bæði klæðilegt og nostalgískt. MYNDIR/AÐSENDAR