Jóladraumur leggur áherslu á ný frumsamin jólalög. Hinn valinkunni lagahöfundur Guðmundur Jónsson segist hafa fyrir áeggjan vinar síns, Kristjáns Hreinssonar, byrjað að semja lög við texta þess síðarnefnda. Þannig varð lagasmiðjan til. „Jóhann Sigurðarson, stórleikari og söngvari, slóst í för með okkur,“ segir Guðmundur. Textarnir eru byggðir á A Christmas Carol eftir Dickens.

Í fyrra komu út fyrstu tvö lögin sem bæði eru söngdúettar. Lítil kerti í myrkum heimi með þeim Jóhanni og Sölku Sól Eyfeld og lagið Hamingjan festir rætur syngur Jóhann með Margréti Eir.

Enduruppgötvar gleði jólanna

Í Söng samviskunnar fær stjarna Jóhanns að skína skært. Lagið er hátíðlegur ópus sem rís og hnígur. Textinn segir frá sjálfselskum manni er snýr frá villu síns vegar og enduruppgötvar gleði jólanna. Jóhann ljær laginu snilldarlega vigt.

Birgir Þórisson spilar undir á píanó og orgel, Friðrik Sturluson er á bassa, Eysteinn Eysteinsson á trommur og Guðmundur Jónsson spilar á gítar og hljómborð og syngur bakraddir.

Söngur samviskunnar er fyrsta lag þriggja sem koma út fyrir jólin. Væntanleg eru: Jólin þau koma senn og Heilög jól sem Íris Lind Verudóttir syngur af einstakri list.

Söngur samviskunnar er á Spotify.