Lífið

Með heiftarlegt ofnæmi fyrir kulda

Ríflega tvítug kona frá Alberta í Kanada er með svæsið ofnæmi fyrir kulda. Fyrsta kastið fékk hún þegar hún var 14 ára, að moka snjó.

Arianna Kent steypist hratt út í útbrotum, ef hún kemst í tæri við kulda á hvers kyns formi.

Fólk trúir því stundum ekki að þetta sé raunverulegt ofnæmi,“ segir hin 21 árs gamla Arianna Kent, frá Alberta í Kanada. Hún er með ofnæmi fyrir kulda.

BBC ræðir við konuna. Þar segir að ofnæmið sé afar sjaldgæft en það hefur mikil áhrif á líf hennar. Hún fær mikil ofnæmisviðbrögð ef hún verður fyrir vindi, lendir í rigningu, snjókomu eða jafnvel frá klakavatni. Hún fær mikil útbrot við þessar aðstæður. 

Þegar mjög kalt er í veðri fer hún stundum í bráðaofnæmislost, sem er lífshættulegt ástand sem getur getur hindrað öndun. Það er þess vegna óheppilegt fyrir konuna að búa í Alberta, þar sem frostið getur farið niður í 40 gráður.

„Ég þarf að klæða mig í mörg lög af fötum og búa mig vel undir allar hitabreytingar,“ hefur BBC eftir konunni. Hún segist þurfa að hita sig rólega upp, þegar hitastigið breytist skyndilega. Að öðrum kosti fái hún ofnæmisviðbrögð þegar henni kólnar lítillega aftur.

Útbrotin fær hún um allan líkamann og það á örskömmum tíma. Hún fór nærri vikulega á spítala þegar hún var yngri en í seinni tíð, eftir að henni tókst að búa sig betur undir hitabreytingar, hefur heimsóknum á spítala fækkað niður í um það bil eina á mánuði.

„Ég finn það í hálsinum ef ég fæ mér kaldan drykk. Hann þrengist og spennist upp. Það sama gerist ef ég fæ mér ís,“ segir hún. Ástandið gerði fyrst vart við sig þegar hún var 14 ára. Hún var úti að moka snjó þegar hún skyndilega gat ekki andað.

Fyrst um sinn héldu læknar að um fæðuofnæmi væri að ræða en tveimur árum síðar var hún greind með kuldaofnæmi. Arianna glímir enn við að henni er ekki trúað. „Það er hræðilegt að vita til þess að ég get verið í bráðri hættu ef ég er á svæði þar sem læknisþjónusta er ekki fyrir hendi,“ segir hún.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Lífið

Gilli­an Ander­son í hlut­verk Thatcher í The Crown

Lífið

Aldur lands­liðs­leik­manna ræddur á Twitter

Lífið

Landinn bregst við leiknum: „Er Björg­vin Páll vél­menni“

Auglýsing

Nýjast

Jón Viðar dásamar Ófærð: „Hvað vill fólk meira?“

Fá hjón verja jafn miklum tíma saman

Hildur Yeoman í Hong Kong

„Ég er mikið kvikindi“

Fékk stað­gengil í nýjustu seríu Game of Thrones

Grænkerar í sjálfkeyrandi bílum

Auglýsing