Gagnrýnandi Berlingske Tidende í Danmörku segir Dimmu Ragnars Jónassonar vera framúrskarandi og gefur henni fjórar stjörnur. Hann segir meðal annars: „En ekki reikna með blóðugum gný og brestum frá íslenskum eldfjöllum. Og gleymið öllu um flóð sem lemst áfram með höggbylgjum. Því að þannig er Dimma ekki. Bókin er hægelduð með bragðhöggi í lokin og með góðu eftirbragði sem endist lengi.

Þannig að maður á að gera sjálfum sér greiða og tyggja hægt, drekka vín með og njóta þess að lesa. Því að Dimma er þrátt fyrir sínar 323 síður búin áður en maður veit af og undirritaður gleypti hana því miður í sig á methraða.“

Og gagnrýnandinn heldur áfram: „Bragðið af andhetjunni Huldu Hermannsdóttur er stórkostlegt en það er kannski aðeins of sterkt miðað við glæpafléttuna sjálfa þar sem rannsókn aðalpersónunnar og afhjúpun morðingjans er afgreidd aðeins of hratt.

Það breytir samt ekki hinum jákvæðu áhrifum sem eru virði fjögurra stórra stjarna. Og það dregur hvorki úr eftirvæntingunni eftir næsta bindi í þríleiknum um Huldu Hermannsdóttur né framtíð Ragnars Jónassonar sem, þökk sé Dimmu, ætti nú að vera ennþá bjartari en hún greinilega var.“