Helga hefur mikinn áhuga á tísku, ljósmyndun, förðun, mat og menningu. „Ég hef lengi haft brennandi áhuga á tískuheiminum í heild sinni. Ég man eftir því að hafa fylgst með mömmu minni, sem þá vann í Alþingi, hafa sig til á morgnana með stjörnur í augunum, enda var hún alger „girl-boss“ og mikil tískufyrirmynd mín. Túberað og permað hárið var fest með heilmiklu lakki, indjánapúðrið svokallaða dustað yfir allt andlitið, axlapúðar í yfirstærð og gylltar YSL-snyrtivöruumbúðir standa upp úr í minningunni,“ rifjar Helga upp og bætir við að hún hafi snemma heillast af glamúrnum í kringum tískubransann.

Helga Kristjáns segist hafa komist í ítalska Vogue á fermingaraldri og eftir það varð ekki aftur snúið. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

„Þegar ég var í kringum fermingaraldurinn komst ég í ítalska Vogue í bókabúð niðri í bæ og þá varð ekki aftur snúið. Listrænar myndirnar og litadýrðin gjörsamlega heilluðu mig upp úr skónum. Svo þegar ég komst í bresku og bandarísku tímaritin varð ég hrifin af vel völdum orðunum og hvernig þau mynduðu nánast ljóð og það fyllti mig miklum innblæstri. Ég gekk um með litla vasastílabók þar sem ég skrifaði ensk orð sem mig langaði til að nota og fletti þeim upp í orðabók. Ég vissi að leið mín myndi liggja að þeim ferli sem ég hef skapað mér í dag og dreymdi ung að árum um að fá að ritstýra tískutímariti,“ segir Helga, sem er í draumastarfinu. „Ég ritstýri HÉR ER, sem er tísku- og lífsstílsvefur Smáralindar. Markmiðið er að veita lesendum innblástur, hugmyndir og ráð um allt sem tengist fegurð, hönnun og lífsstíl. Í um áratug var ég blaðamaður hjá Vikunni og Nýju lífi og förðunarritstjóri hjá íslenska Glamour og Nýju lífi. Vinir mínir segja stundum að ég sé eins og gangandi alfræðiorðabók þegar kemur að tískubransanum.“

Hálsmen sem móðir Helgu gaf henni og er í miklu uppáhaldi.

Látlaus fatastíll

Helga fylgist að sjálfsögðu vel með nýjustu tískustraumum. „Ég geri varla annað allan daginn, alla daga, bæði starfsins vegna og af áhuga. Ég skoða mikið vefinn whowhatwear.com, Harper's Bazaar og Porter Magazine. Eins vefverslanir á borð við Mytheresa.com og Netaporter.“

Þá hefur Helga vakið mikla athygli fyrir förðunarmyndbönd en á Instagram og Facebook Sensai hafa þau fengið rúmlega fjörutíu þúsund áhorf. „Íslenskar konur virðast almennt ánægðar með förðunarráðleggingarnar. Ég held að konur yfir 35 hafi svolítið gleymst á Youtube og ekki mikið í boði af förðunarmyndböndum á íslensku fyrir konur með þroskaða húð,“ segir Helga sem stefnir að því að vera með tvö myndbönd á mánuði.

Úrið sem Helga „stal“ af eiginmanninum er einn af eftirlætishlutunum.

En hvernig myndir þú lýsa þínum fatastíl og hefur hann breyst í gegnum tíðina? „Fatastíllinn minn er frekar látlaus og hefur þróast heilmikið í gegnum árin. Ég nálgast fertugt óðfluga og finnst loksins eins og ég sé með minn eigin stíl á hreinu. Góðar gallabuxur, skyrta í seventís-stíl og blazer með axlapúðum er það sem ég aðhyllist einna helst. Uppáhaldslitirnir eru kamellitur, grár og lillafjólublár. Til spari vel ég oftast kjól sem undirstrikar mittið og kvenlegar línur.“

Hundurinn át uppáhaldskjólinn og eyðilagði hann

Notar þú fylgihluti og skart? „Ég er lítið fyrir að skipta um fylgihluti dagsdaglega. Ég er alltaf með giftingarhringinn, demantsfléttuhring frá Orrafinn og gullhring sem maðurinn minn gaf mér og stundum trúlofunarhring móður minnar. Ég held líka mikið upp á Sif Jakobs-eyrnalokkana mína, úr sem ég stal af manninum mínum og skeljahálsmen sem mamma gaf mér í afmælisgjöf en hún fékk það í lítilli búð á Skólavörðustíg sem heitir Skúmaskot. Mér þykir svo vænt um það því bæði elska ég skeljar og Skólavörðustíg, enda bjó ég á tveimur stöðum á þeirri götu sem krakki. Svo get ég ekki án Tom Ford-gleraugnanna minna verið, ég sé ekkert án þeirra og þau eru líka minn uppáhaldsfylgihlutur.“

Hver smáhlutur er útpældur hjá Helgu.

Bestu fatakaupin? „Bundinn kjóll úr & Other Stories úr 100% silki, sem maðurinn minn valdi fyrir mig í borgarferð til Berlínar. Hann virkar við öll tilefni. Ég hef notað hann á árshátíð, á ströndina, í borgarferð, uppi í Eiffel-turni, ólétt af börnunum mínum og í vinnuna. Því var mikil sorg þegar Stormur, hundurinn okkar, át hann þegar hann var hvolpur. Ég varð að panta mér annað eintak á vefsíðu þeirra og hann var kominn daginn eftir, ég er ekki að ýkja. & Other Stories er ein af allra mestu uppáhaldsbúðunum mínum en ég mun passa upp á að halda kjólnum frá Stormi í framtíðinni,“ segir Helga brosandi.

Helga passar vel upp á fatastílinn en segist vera fyrir einfaldan klæðnað.

Þegar hún er spurð hver séu verstu fatakaupin þarf hún ekki að hugsa sig lengi um. „Þegar ég var ekki búin að uppgötva þægilega skó keypti ég oft trendí skó í ódýrari verslunum sem gáfu mér hælsæri og höfuðverk.“

Hvað gerir þú við föt sem þú ert hætt að nota? „Mamma fer fyrst í gegnum það sem ég ætla að gefa og svo fer restin í Rauða krossinn. Ég hef ekki enn gerst svo fræg að selja af mér fötin. Og mér finnst mjög gott að gefa.“