Banda­ríkja­menn héldu feðra­daginn há­tíð­legan í gær og leik­konan Maya Hawke, sem þekktust er fyrir hlut­verk sitt sem Robin í þáttunum Stranger Things, gerði góð­lát­legt grín að föður sínum, leikaranum góð­kunna Et­han Hawke, á Insta­gram í til­efni dagsins.

Maya birti „meme“ í Insta­gram story þar sem föður hennar er óskað inni­lega til hamingju með feðra­daginn fyrir það að hafa látið son sinn skipta um sæti við sig á körfu­bolta­leik til að geta setið við hliðina á popp­stjörnunni Ri­hönnu.

Fyrir ofan myndina skrifaði Maya ein­fald­lega: „Gleði­legan feðra­dag pabbi“.

Myndin sem Maya Hawke birti á Instagram.
Skjáskot/Instagram

Viðurkenndi að hafa skipt um sæti

Sjö ár eru síðan Et­han Hawke tók son sinn Le­von með sér á NBA All-Star leik árið 2015. Leikarinn viður­kenndi fús­lega að hafa látið Le­von skipta um sæti við sig til að geta rætt við Ri­hönnu og skrifaði á Insta­gram árið 2019:

„Já, ég og sonur minn munum vel eftir þessu FRÁ­BÆRA kvöldi. Hans út­gáfa er að­eins ólík minni.“