Gabríela Jóna Ólafsdóttir vakti athygli á dögunum fyrir ótrúlega einlægni í sannkallaðri eldræðu sem hún hélt í útskrift Háskólans í Reykjavík. Í ræðunni hélt hún tölu um það hvernig það er að feta menntaveginn, hvað góður stuðningur er mikilvægur og að það sé gott að gera mistök, því þannig lærir maður. Gabríela geislar af hlýju og staðfestu og hefur myndbandinu verið dreift víða, enda ræðan einstaklega falleg og einlæg. Gabríela er útskrifuð sem tölvunarfræðingur, en hóf upphaflega nám í verkfræði.

„Ég fór í verkfræði af því ég held að ég hafi ekki þorað beint í tölvunarfræði. Í mínum huga var verkfræðin aðgengilegri og mér fannst ég hafa það sem þurfti í það nám. Ég hafði getuna en skorti áhugann. Mér fannst aftur á móti tölvunarfræðin spennandi en svo óþekkt stærð að ég efaðist um að ég hefði það sem þyrfti. Ég sat í eðlisfræðitíma þegar ég áttaði mig á því að ég væri ekki á réttri leið, því þó að efnið væri gagnlegt í vissum skilningi þá gat ég ekki hugsað mér að starfa við neitt tengt því í framtíðinni,“ segir Gabríela.

Það er mikilvægt að hafa trú á sjálfum sér, sýna umburðarlyndi gagnvart eigin klúðri og láta ekki umhverfið eða aðra um að meta hvers virði maður er.

Hún segir mikilvægt að fólk átti sig á því að það er ekkert til að skammast sín fyrir að skipta um skoðun eða breyta um stefnu.

„En það má heldur ekki skammast sín fyrir að standa með fyrri ákvörðunum, ef það er það sem maður vill, þó maður hafi klúðrað öllu í fyrstu atrennu. Stundum er maður bara ekki tilbúinn. Það er mikilvægt að hafa trú á sjálfum sér, sýna umburðarlyndi gagnvart eigin klúðri og láta ekki umhverfið eða aðra um að meta hvers virði maður er. Maður þarf að taka ábyrgð á sjálfum sér, elska sig samt og gera betur næst,“ segir hún.

„Ég hafði getuna en skorti áhugann. Mér fannst aftur á móti tölvunarfræðin spennandi en svo óþekkt stærð að ég efaðist um að ég hefði það sem þyrfti.“
Fréttablaðið/Stefán Karlsson

Tölvunarfræðin heillaði

Gabríela hefur alltaf verið mikill unnandi vísindaskáldskapar og segir það eflaust hafa ýtt undir þá rómantík sem hún kenndi við tölvunarfræði.

„Ég tók eftir því að allt sem mér fannst spennandi snerti tölvunarfræði á einhvern hátt, hvort sem það var eitthvað sem ég rakst á í náminu, í fréttum eða á samfélagsmiðlum. Einnig voru þeir einstaklingar sem ég leit mest upp til og fannst vera að gera mest spennandi hlutina gæjar eins og Steve Jobs, Bill Gates eða Elon Musk.“

Í ræðu sinni í útskriftinni lagði Gabríela mikla áherslu á að vera þakklát þeim sem standi manni næst þegar tekist er á við krefjandi nám.

„Það er óendanlega mikilvægt að vera þakklátur, hvort sem það er í garð foreldra, vina eða samnemenda. Það eru forréttindi að fá að taka þátt í þessu lífi. Ég upplifi mig rosalega lánsama. Enginn maður er eyland og ég kláraði þetta nám ekki ein, ástvinir mínir og starfsmenn HR, þetta frábæra umhverfi sem ég finn mig í, eru alveg jafn mikilvæg og skólabækurnar. Maður er bara svo heppinn með fjölskyldu og vini að ég gat ekki annað en þakkað þeim fyrir,“ segir Gabríela og bætir við að það sé ekki sjálfgefið að einhver standi við bakið á manni og hvetji mann til dáða.

„Þess vegna þykir mér mikilvægt að beina athygli að því að ég gerði þetta ekki ein og hefði ekki getað þetta ein. Enginn fetar menntaveginn einn síns liðs og við þurfum öll á okkar klappstýrum að halda,“ segir hún og hlær.

Það er óendanlega mikilvægt að vera þakklátur, hvort sem það er í garð foreldra, vina eða samnemenda. Það eru forréttindi að fá að taka þátt í þessu lífi.

Gabríela er þakklát sínum nánustu, vinum, vandamönnum og starfsmönnum HR fyrir að hafa verið til staðar fyrir hana í gegnum námið.
Fréttablaðið/Stefán Karlsson

Ómetanleg tækifæri

Í ræðunni lagði Gabríela einnig áherslu á mikilvægi þess að leyfa sér að mistakast, því að af því megi alltaf draga lærdóm.

„Maður lærir rosalega lítið af því að gera allt rétt. Þá þarf maður ekki að breyta neinu eða endurskoða ákvarðanir sínar og það er ekkert sem maður þarf að bæta. Án þess að gera mistök verður engin framþróun. Ef maður tekur sjálfan sig ekki of hátíðlega og er tilbúinn til að horfast í augu við það sem betur hefði mátt fara, liggja ómetanleg tækifæri í að læra af þeim mistökum sem maður hefur gert. Í dag er ég þakklát fyrir að vera ekki hrædd við að mistakast, það tekur bara svo ótrúlega mikinn ótta úr lífinu.“

Gabríela segir mikilvægt að láta námið ekki koma í staðinn fyrir lærdóminn.
Fréttablaðið/Stefán Karlsson

Gabríela segist sjálf ekki hafa mikið pælt í því hvort hún hafi fengið hæstu einkunn, né var hún stressuð yfir því að gera ekki allt rétt.

„Ég er einfaldlega búin að gera svo mörg mistök í lífinu að ég er alveg sátt við það að það er alltaf möguleiki á því að mér mistakist. Nám er ekki eingöngu til þess að sýna fram á að maður geti fengið góða einkunn, nám þjónar þeim tilgangi að nemendur öðlist skilning. Svo lengi sem maður lærir og nær inntakinu þá er bara fullkomið að gera helling af mistökum og ekki fá alltaf bestu einkunnirnar. Ekki láta námið koma í staðinn fyrir lærdóminn,“ segir hún.

Oft eru foreldrar með ákveðnar hugmyndir um menntun barna sinna. Gabríela segir mikilvægt að kenna börnum að sama hversu hart þau leggi að sér þá muni alltaf gerast mistök.

Það að mistakast er óhjákvæmilegt og jákvætt, það er tækifæri til þess að vaxa. Að gera mistök er ekki vísbending um það að maður sé ekki að reyna sitt besta, heldur sönnun þess að maður reyndi og að næst sé maður vitrari og betur í stakk búinn til að takast á við næstu þraut.

Gabríela tilheyrir tveimur hópum sem spila hlutverkaspilið reglulega. Annar hópurinn hittist tvisvar í mánuði.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

Áreiðanlegur veruleikaflótti

Í ræðunni tók Gabríela sérstaklega fram hve þakklát hún væri fyrir hlutverkaspilið Dungeons and Dragons. Hún segir það hafa átt stóran þátt í því að koma henni í gegnum krefjandi nám og tíma.

„Allir þurfa að kúpla sig út inni á milli og spunaspil eins og Dungeons and Dragons gerir einstaklingum kleift að gera það á mjög markvissan hátt. Spilið hefur sýnt fram á að bætt samskipti og sjálfsálit hjá einstaklingum ýtir undir skapandi og lausnamiðaða hugsun. Fyrir mér var D&D áreiðanlegur veruleikaflótti. Raunheimar geta oft reynst yfirþyrmandi og námsefni oft og tíðum þurrt og þá er, eins og ég nefndi í ræðunni, Dungeons og Dragons skilvirkt mótefni lærdómsþrots. Ég tel að allir hefðu gott af því að fara í stutt frí frá raunveruleikanum og skemmta sér aðeins. Ég mæli að minnsta kosti eindregið með því,“ segir hún og brosir.

Gabríela var um átta ára aldurinn þegar hún heyrði móðurbróður sinn, Hannes, tala um Dungeons and Dragons.

„Ég fékk samt ekki að spila með honum fyrr en ég var orðin tvítug,“ segir hún og hlær. „En næstum því átta árum seinna erum við enn þá að spila með sama hópi einu sinni í mánuði.“

Þau Bergljót María Sigurðardóttir, Bjartur Steingrímsson, Ólafur Björn Tómasson, Una Hildardóttir og Valbjörn Snær Lilliendahl tilheyra öll öðrum spilahópnum sem Gabríela er í.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

Framtíðin er björt hjá Gabríelu sem ætlar að halda áfram að gera mistök og læra af þeim ásamt því að sinna því sem vekur hjá henni áhuga og furðu.

„Ég ætla bara að halda áfram að vera óhrædd við að afla mér reynslu og gera það sem vekur hjá mér áhuga og furðu. Ég er ekki með nein niðurnjörfuð langtíma áform en ég er bjartsýn. Ég er að vinna með ný sprotafyrirtæki núna og býst því sterklega við því að ég muni bara að halda áfram að gera mistök og læra af þeim. Vonandi nýtast gömlu mistökin þó sem mest og sprotarnir sem ég er að vinna með núna njóti þess og hljóti afburða velgengni,“ segir hún og hlær.

Ég ætla bara að halda áfram að vera óhrædd við að afla mér reynslu og gera það sem vekur hjá mér áhuga og furðu.