„Ég er fæddur stuðbolti og hef gaman af augnablikinu, því að lifa í núinu, að hafa það skemmtilegt og brosa. Þá ganga hlutirnir líka miklu betur.“

Þetta segir Páll Sævar Guðjónsson sem tók við keflinu af Sigga Hlö á laugardagseftirmiðdögum Bylgjunnar með þætti sínum Hamingjustund þjóðarinnar.

Páll er fæddur og uppalinn í Vesturbænum, grjótharður KR-ingur og mikill íþróttafíkill, að eigin sögn, ekki síst þegar kemur að boltaíþróttum og pílukasti.

„Ég var í körfubolta sem strákur en fæddist með klumbufót og þurfti að hætta á fermingarárinu þegar líkamlegir burðir mínir dugðu ekki lengur til. Ég gat nýtt mér hæðina fram að kynþroskaskeiðinu en þá fóru menn að vaxa í kringum mig og ég varð undir því ég hafði ekki kraftinn í vinstri fætinum. Það var auðvitað sárt því ég þótti góður í körfunni og á meira að segja Íslandsmeistaratitil með Heimi Guðjónssyni, fótboltaþjálfara í Val og Þormóði Egilssyni, gömlu kempunni úr KR,“ segir Páll, sem lét ekki deigan síga heldur fór að vinna sem sjálfboðaliði í KR.

„Það vatt upp á sig og varð til þess að ég varð kynnir á KR-vellinum og þaðan var ég boðaður á Laugardalsvöll þar sem ég hef verið vallarþulur síðan um aldamótin 2000. Þaðan kemur viðurnefnið Röddin, því þótt ekki kveiki allir á því hver maðurinn er í útliti þekkja fótboltaaðdáendur rödd mína vel,“ upplýsir Páll, sem verið hefur vallarþulur á öllum opinberum landsleikjum karla- og kvennalandsliðs Íslands á vegum KSÍ, sem og í bikarúrslitum karla og kvenna, þar til fyrir tveimur árum að Hulda Geirsdóttir útvarpskona var fengin sem vallarþulur á leikjum kvennalandsliðsins.

„Á Laugardalsvelli les ég upp liðin, segi hverjir skora og frá skiptingum og kem með tilkynningar til áhorfenda. Starfið er ofboðslega skemmtilegt og gefandi. Ég hef kynnst mörgu góðu fólki og verið mitt í hringiðunni, sérstaklega í kringum landsliðin og það er gaman að vera í kringum þetta fólk. Í kringum það er jákvæð orka og þetta eru miklar fyrirmyndir sem gefa mikið af sér,“ segir Páll, glaður með sitt hlutskipti.

Allir glaðir á laugardögum

Þótt Páll Sævar sé að gera gott mót í Hamingjustund þjóðarinnar nú er hann langt í frá nýr af nálinni í útvarpsbransanum.

„Ég smitaðist af útvarpsbakteríunni þegar ég sat fyrir hönd Fjölbrautaskólans í Ármúla (FÁ) í útvarpsráði Útrásar, útvarpsstöðvar framhaldsskólanna árið 1986. Þaðan lá leiðin á FM 95,7 þegar sú stöð fór í loftið í FÁ með Richard Scobie, Sigga Gröndal, Felix Bergssyni og fleiri góðum. Ári seinna tók ég pásu frá FM 95,7 en byrjaði aftur þegar stöðin var komin á Smiðjuveg með Jóni Axeli, Gulla Helga og Önnu Björk Birgisdóttur. Þaðan fór ég stutt á Bylgjuna en tók svo frí frá útvarpsbröltinu í mörg ár þar til Ívar Guðmundsson á Bylgjunni bað mig um að vera með þátt á Gullbylgjunni, og þegar Siggi Hlö ákvað að hætta með Veistu hver ég var? síðsumars spurði Ívar hvort ég væri til í að taka laugardagseftirmiðdagana í september, bara til að prófa. Ég sló til og viðbrögðin voru svo góð að ég var ráðinn í verkefnið til frambúðar,“ segir Páll kátur.

Hann segir sumpart áskorun að feta í fótspor Sigga Hlö en það leyni sér ekki að landsmenn séu kátir með Hamingjustundina.

„Þjóðin kemur mér mjög vel fyrir sjónir. Á þessum tíma laugardags er mikil stemning í fólki sem er að koma sér fyrir með fjölskyldu og vinum, heima eða á leið í veislur, og þá eru einfaldlega allir glaðir. Það er geggjað gaman að taka þátt í þeirri stemningu. Tónninn í fólkinu sem hringir inn smitar af gleði og þetta sannkölluð hamingjustund,“ segir Páll, hressleikinn uppmálaður.

Sjálfur var hann dyggur hlustandi Sigga Hlö á laugardögum en þeir þekkjast vel.

„Já, og ég sendi Sigga oft skilaboð og bað um óskalög, hvort sem ég var í heitum potti, bústað eða á ferðalagi. Ég veit ekki hvort hann hefur enn hlustað á Hamingjustundina, það er svo mikið að gera hjá honum í ferðabransanum, en hann gerir það eflaust einn daginn.“

Páll Sævar varð enn lífsglaðari eftir að hann greindist með krabbamein sem hann læknaðist af, enda segir hann ekki sjálfgefið að draga andann og standa í lappirnar á morgnana. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Sat við hlið átrúnaðargoðsins

Það sem kemur Páli Sævari í gott skap er skemmtilegt fólk, góð stemning og ekki síst góð tónlist.

„Ég var unglingur á eitís-tímabilinu og mikill Duran Duran-maður. Eldri bræður mínir hlustuðu mikið á tónlist. Einn er átján árum eldri og annar var sextán árum eldri, en hann lést 36 ára. Þeir kenndu mér að hlusta á Rolling Stones, Bítlana og Neil Young, en Gylfi sem er fjórum árum eldri lét mig hlusta á Clash, Bob Marley og fleiri góða. Ég fékk því mikið og gott tónlistaruppeldi og er alæta á tónlist, en sérlega áhugasamur um eitís-tónlist. Margir félagar mínir hafa miklar skoðanir á þessu og benda mér á lög sem hafa legið í gleymskunnar dá og ég hef þegar spilað í þættinum við góðar viðtökur,“ segir Páll sem undirbýr þáttinn ekki fyrr en um hádegisbil á laugardögum.

„Þá er ég kominn niður á stöð, fæ mér að borða með Braga Guðmundssyni sem er með þáttinn á undan mér og við spáum og spekúlerum. Svo læt ég augnablikið koma til mín, vel lögin og ballið byrjar. Ég er maður augnabliksins og vil því ekki undirbúa þáttinn langt fram í tímann.“

Í Hamingjustund þjóðarinnar eru spiluð lög frá árabilinu 1975 til 2000.

„Mín uppáhaldslög frá þessu tímabili eru Illusion með Imagination og Don‘t look any further með Dennis Edwards. Svo auðvitað allt með Duran Duran. Þegar þeir spiluðu í Egilshöll 2005 fékk ég að sitja blaðamannafund með hljómsveitinni og sat við borðsendann við hlið Johns Taylor, átrúnaðargoðsins míns. Það var mögnuð upplifun. Ég horfði eftir endilöngu borðinu og þarna voru þeir allir snillingarnir. Ég var eins og krakki í dótabúð og stjörnustjarfur,“ rifjar Páll upp, sællar minningar.

Hamingjan liggur í heilsunni

Páll Sævar greindist með krabbamein í ristli árið 2012 en útskrifaðist hreinn af því 2017.

„Krabbameinið breytti lífsviðhorfi mínu allverulega. Ég varð enn lífsglaðari á eftir og naut augnabliksins enn meir því það er ekki sjálfgefið að draga andann og standa í lappirnar á morgnana. Því segi ég að góð heilsa sé hamingja. Hamingjan í mínum huga felst í því að allt sé í lagi, í góðri fjölskyldu og vinum, góðri heilsu og almennri vellíðan. Hún felst ekki í auðæfum né dauðum hlutum heldur fyrst og fremst væntumþykju, góðri vináttu og fjölskyldunni. Þar liggur hamingjan,“ segir Páll sem vill láta gott af sér leiða í Hamingjustundunum.

„Ég ber virðingu fyrir öllum og nýt þess að vera í mannlegum samskiptum. Því er ég hvetjandi og jákvæður að eðlisfari og vil vera góður og glaður í hjarta.“

Spurður hvort hann stefni að því að slá út fjórtán ára úthald Sigga Hlö á laugardagsvaktinni, skellir Páll upp úr: „Ég held að það sé ógjörningur en maður skyldi aldrei segja aldrei. Núna er ég 52 ára og ef ég tek ári meira en Siggi verð ég kominn slétt á eftirlaunaaldurinn, 67 ára. Þangað til nýt ég augnabliksins og skemmti mér: þá er svo gaman að vera til.“