Þegar kemur að mataræðið þá trúir Íris Ann Sigurðardóttir því að ALLT sé gott í hófi. „Ég elska kolvetni og er alfarið á móti megrunum. Ástæða þess að ég elska að vera í veitingabransanum er að matur kemur fólki saman, að elda, njóta og skapa minningar í kringum matarborðið er það sem mér finnst lífið að mestu snúast um.“

Þegar kemur að því að huga að mataræði og lýsa hinum hefðbundum degi hvað varðar næringu finnst Írisi skipta máli að velja það sem eykur vellíðan og tileinka sér að fasta.

Finnst þér skipta miklu máli hvað þú borðar þegar kemur að því að huga að orku og úthaldi?

„Ég las fyrir nokkrum árum að það gæti hjálpa fólki eins og mér með „athygliskost“ eins og ég kýs að kalla það að tileinka sér að fasta. Það gefur líffærunum ákveðna hvíld og hjálpar við einbeitingu. Ég hef gert þetta síðustu árin en ekki strangt, ég borða þegar ég er svöng en reyni að forðast að borða eftir kvöldmat og svo sleppi ég oftast morgunmat og fæ mér næringarríkan hádegisverð í kringum hádegið.´´

Salat og súrdeigsbrauð. Frábært hádegisverður fyrir fólk á hlaupum.

Íris segir að þessi fasta sé alls ekki heilög heldur bara viðmið. „Þetta er alls ekki fyrir alla en virðist henta mér vel. Mér finnst ég svo alltaf fá aukna orku við að stunda stuttar hreyfingar á hverjum degi.“

Ekki miklar kröfur til sjálfrar sín

Aðspurð segist Íris ekki breyta mataræðinu í upphafi árs. „Mér finnst að maður eigi að byrja árið í ró og kærleik gagnvart sjálfum sér. Gott og vel að hafa markmið fyrir árið en kannski ekki raunsætt að gera of miklar kröfur til sjálfs síns á dimmasta mánuði ársins. Ég reyni yfir höfuð að tileinka mér ágætlega hollan lífsstíl þannig það er ekki mikil breyting í byrjun árs hjá mér.Það helsta sem ég reyni að breyta í byrjun árs er að vera sannari sjálfum mér og gefa sjálfri mér þann tíma sem ég þarf til að huga að andlegri og líkamlegri heilsu.“

Hvernig lítur hefðbundinn dagur út hjá þér þegar kemur að því að raða saman matseðli fyrir daginn?

„Ég byrja alla daga á hafra cappuccino, fæ mér svo næringaríkan hádegisverð, oftar en ekki á Coocoo’s Nest. Einstaka sinnum tek ég sparifund á La Primavera, fátt er betra en pasta í hádegisverð með einu rauðvínsglasi.“

Íris er þakklát fyrir eldamennsku eiginmannsins og samverustundirnar við matarborðið. „Svo er ég svo vel gift að þegar maðurinn minn er ekki á kokkavakt þá eldar hann fyrir okkur fjölskylduna kvöldverð. Reglulega koma vinir og fjölskylda í mat. Ég elska ekkert meira en að hafa heimalinga í mat með börnunum sínum og við njótum öll saman.

Ég verð að viðurkenna að ég elda sjaldnast hádegisverð fyrir sjálfan mig enda heppinn að eiga Coocoo’s Nest að. Þar er næringarríkur matur gerður frá grunni. Ég elska að fá mér súpu og samloku með súrdeigsbrauði. Svo er ég líka hrifin af matarmiklum salötum með rótargrænmeti, bygg og sítrónu-olíu. Það er auðvelt að skera mikið af grænmeti og ofnbaka og sjóða bygg, það endist líka vel út vikuna og hægt að nota í meðlæti með kvöldverðinum.

Með því að huga vel að andlegri líðan þá ósjálfrátt ræður maður betur við heilbrigðan matarlífsstíl, það helst í hendur og ætti að vera fyrsta skrefið. Ef ég fæ mér köku einn daginn þá geri ég það samviskulaust og fæ mér líklegast þá ekki daginn eftir, snýst um ákveðið jafnvægi.

Ég hef þá trú um að maður fitni við tilhugsunina eina og sér um að fara í megrun, ef maður bannar sér eitthvað þá langar manni bara ennþá meira í það. Mantra mín er allt er gott í hófi.“