Stuttskífan MOA074 frá tónlistarmanninum Gunnari Jónssyni Collider kom út í síðustu viku. Á sama tíma kom stuttskífan út á sjö tommu vínylútgáfu hjá Móatúni 7, sem seldist strax upp.

En hver er eiginlega Gunnar Jónsson?

„Guð! Þetta er spurning lífs míns. Hver er ég eiginlega? Ég er nokkuð viss um að ég heiti Gunnar Jónsson og sé fæddur og uppalinn í Breiðholtinu. Ég er eiginlega alveg 100% á því að ég eigi kærustu sem ég bý með í miðbæ Reykjavíkur en ef þið hin sjáið hana ekki þá vil ég fá að vita af því hið snarasta. Og síðan geri ég tónlist og pródúsera og skrifa og alls konar gaman,“ segir hann.

Gunnar segist alltaf hafa verið hugfanginn af tónlist.

„Fyrsta alvöru minningin mín er ég tólf ára gamall að hlusta á gítarsóló sem mér þótti sérlega vel heppnað. Það sem kom á undan er hálfgerð móða. Ég var í tónskóla Eddu Borg sem barn og lærði á blokkflautu og seinna klarínett. Síðan kynntist ég gítarnum og tónlist Nirvana og spilaði með rokkhljómsveitum öll mín unglingsár,“ segir Gunnar sem var mjög ungur þegar þegar var farinn að spila niðri í bæ.

„Ég var til dæmis reglulega að rokka á gamla Grand Rokk þegar ég var fjórtán ára gamall og upp úr. Veit ekki hvort þannig væri leyfilegt í dag, en ég kynntist alls kyns áhugaverðu fólki og er mjög þakklátur fyrir það.“

Síðar segist hann hafa uppgötvað raftónlist og stúdíóið.

„Hef raunar aldrei getað slitið mig frá tónlist, þó mig langi stundum til þess. Ég held að lífið væri auðveldara sem endurskoðandi, eða einhver geggjaður þjónustufulltrúi í Arion banka.“

Dansað í huganum

MOA074 er þriggja laga stuttskífa og kemur út hjá Móatúni 7, líkt og áður kom segir.

„Móatún 7 er áhugaverðasta nýja útgáfufyrirtækið á Íslandi. Árni Grétar, betur þekktur sem Futuregrapher, er að sinna þessu af mikilli alúð og gefur út sjö tommu vínylplötur og sendir út um allan heim. Hann er að gefa út rjómann af íslenskri og erlendri raftónlist og hefur þegar gefið út alls konar „legend“ í þessum heimi, eins og til dæmis Plaid. Mér fannst ég þurfa að taka þátt í svona töffheitum og sendi honum nokkur lög,“ segir Gunnar.

Hann segir þetta vera blöndu af jungle, IDM og breakbeat tónlist.

„Sem hefur mögulega enga þýðingu fyrir lesendur Fréttablaðsins,“ segir hann og hlær. „En þetta er sem sagt nokkuð tilraunakennd en þó dansvæn músík. Mögulega á hún best heima á sveittum klúbbi klukkan hálf fimm um nóttu og allir eru haus- og hömlulausir. En í ljósi aðstæðna þá vonast ég til þess að fólk dansi við þetta heima í stofu. Sturlist í stofunni, þú skilur. Ég fantasera raunar um að fólk sleppi sér á stofugólfinu og túlki sínar tilfinningar, og ef hreyfigetan er eitthvað takmörkuð þá má alltaf dansa í huganum. Það getur verið voða hollt líka.“

Hvernig hafa viðtökurnar verið?

„Á bilinu „hlutlausar“ til „mjög jákvæðar“. Ég finn fyrir miklum stuðningi frá fólki sem elskar raftónlist og velviljuðu skilningsleysi frá fólki sem gerir það ekki. Mér hafa allavega ekki borist neinar hótanir enn. Maður getur ekki beðið um meira,“ svarar hann.

Upplagið af vínylnum var mjög takmarkað.

„Hann seldist bókstaflega upp á örfáum klukkustundum. Ég skellti mér í sund og það allt var uppselt þegar ég kom til baka. Ég get verið lengi í sundi en þetta var með ólíkindum. En fólk getur enn keypt útgáfuna á rafrænu formi í gegnum heimasíðu Móatúns 7,“ segir hann.

Kötturinn stórhrifinn

Hann segist búinn að fara í að minnsta kosti þrjá hringi með allar sínar tilfinningar í heimfaraldrinum.

„Eins og við öll eflaust. Ég held að þetta sé tækifæri til að sjá hvað skiptir mann mestu máli í lífinu og að því leytinu til hefur þetta haft góð áhrif á mína sköpun. Það er hins vegar slæmt þegar manni fer að líða eins og það sé engin framtíð fyrir yngri kynslóðir, það dregur úr. Allir þurfa einhverja gulrót. En á móti kemur þá hefur fólk neyðst til að líta inn á við, sem er hollt og valdeflandi til lengri tíma, ímynda ég mér.“

Lítið hefur verið um tónleikahald síðasta árið eins og gefur að skilja.

„Ég og Teitur Magnússon náðum einum tónleikum í Mengi kvöldið fyrir fyrstu alvarlegu samkomutakmarkanirnar fyrir um það bil ári. Annars ekkert. Ég hef reyndar haldið fjölmarga tónleika fyrir köttinn minn á árinu, sem er stórhrifinn. En kettir borga mjög illa. Sem betur fer hef ég fastar tekjur annars staðar frá, annars hefði þetta verið mjög erfitt. Ég skora raunar á yfirvöld að koma til móts við listamenn, eða að minnsta kosti bóka þá alla á næstu árshátíð og spreða eins og þetta sé braggi í Nauthólsvík,“ segir hann.

Von á breiðskífu

Stendur til að fylgja stuttskífunni eftir með tónleikum?

„Ég neyðist til að gera eitthvað, ekki satt? Stóra spurningin er hvort ég kunni enn þá að vera meðal fólks. Ég hitti óvænt sex manneskjur sem ég þekki í sundi um daginn og þurfti að leggja mig eftir álagið sem því fylgdi. Þvílík mannleg samskipti!“

Gunnar vinnur nú að breiðskífu í fullri lengd, sem kemur út síðar á árinu.

„Síðan er ég búinn að nota einveruna í að kynna mér feril leikstjórans Akira Kurosawa og langar helst að halda því aðeins áfram. Mér finnst það hálf-fyndið: Kurosawa er löngu dáinn en hann er þó búinn að bjarga faraldrinum fyrir mér. Máttur listarinnar er mikill,“ segir Gunnar.

Hægt er að versla rafrænt eintak af MOA074 á moatun7.bandcamp.com.