„Ég komst í raun að því að þegar ég varð atvinnusöngvari að ég hef í raun enga ánægju af því að syngja fyrir fólk,“ segir Matthías sem nýlega varð faðir en hann segir að föðurhlutverkið hafi breytt því hvernig hann forgangsraðar lífi sínu.

„Þegar maður eignast barn þá fer maður að forgangsraða og maður verður bara að gera það sem mann langar til að gera,“ segir hann en Matthías starfar núna sem textasmiður hjá auglýsingaskrifstofunni Brandenburg,

„Að vera fjölskyldufaðir í níu til fimm vinnu er núna mitt æðsta markmið. Auðvitað eru samt skrifin aldrei langt undan. Ég er til dæmis með kvikmyndahandrit í maganum og aðra leikhúsþýðingu líka,“ segir Matthías sem segir það hafa verið óvænt að hann skildi enda sem forsprakki vinsællar hljómsveitar.

„Í raun var það aldrei ætlunin að verða söngvari. En Hatari vissulega var mögnuð hugmynd og það er ekki þar með sagt að hljómsveitin sé hætt,“ segir Matthías sem segir að meðlimir sveitarinnar hafi sýnt ákvörðun hans mikinn skilning og að aðdáendur Hatara þurfi því ekki að örvænta þar sem hún komi líklegast til með að starfa áfram.

„Þetta er rússíbani sem er búinn að taka mig um heima og geyma sem mig óraði ekki fyrir að hægt væri að fara.“

Meðlimir hljómsveitarinnar Hatara hafa hingað til verið Matthías Tryggvi Haraldsson, Klemens Hannigan og Einar Stefánsson.
Fréttablaðið/SigtryggurAri

Gjörningurinn öðlaðist eigið líf

Hatari er fyrir löngu orðið landsþekkt nafn sem börn og fullorðnir kannast við. Þá sérstaklega eftir að hljómsveitin tók þátt fyrir hönd Íslands í Eurovision sem færði sveitinni frægð fyrir utan landsteinana.

Hljómsveitin sem bæði væri hægt að flokka sem hefðbundna hljómsveit en einnig sem listrænan gjörning varð fljótt þekkt fyrir lifandi sviðsframkomu og flotta búninga. Matthías segir að hugmyndin um hljómsveitina hafi snemma öðlast sitt eigið líf.

„Þetta var listrænn gjörningur sem eiginlega lifði sjálfstæðu lífi og fór hraðar en nokkur okkar gat ímyndað sér eða haft stjórn yfir. Þetta bara atvikaðist og öðlaðist sjálfstætt líf. Þetta virðist bara hafa verið á réttum stað á réttum tíma,“ segir hann.

Hatari vakti mikla athylgi með boðskap sínum í Eurovision er hópurinn sýndi trefil með fána Palestínu til þess að mótmæla hersetu Ísrael á Gaza ströndinni.

Margslungin áhrif

Upphaf hljómsveitarinnar má rekja til Matthíasar og Klemens Hannigan sem einnig syngur með hljómsveitinni.

„Það var í raun Klemens sem varð til þess að við fórum að gera eitthvað yfir höfuð. Hann eiginlega hálfpartinn skipaði mér að öskra eitthvað í hljóðnemann daginn sem við fengum leið á því að spila tölvuleikinn "Civilization" heima hjá honum,“ segir Matthías en hann sjálfur hafi verið iðinn við að skrifa ljóð á þessum tíma sem mörg hver rötuðu sem textar í lög hljómsveitarinnar.

„Ég var skrifa mikið af ljóðum á þessum tíma og það voru ung ljóðskáld með mér í hóp sem voru mér mikill innblástur. En svo var hljómsveitin Laibach alltaf á bak við eyrað á okkur,“ segir Matthías en sú hljómsveit hefur haft víðtæk áhrif á margskonar hljómsveitir sem aðhyllast hina svokölluðu „industrial“ tónlistarstefnu og hafði hljómsveitin til dæmis mikil áhrif á hljómsveitina HAM á sínum tíma.

Hljómsveitin er hún koma fram í Eurovison árið 2019.
Fréttablaðið/GuyPrives

Vildu blekkja áhorfendur

Annað sem stýrði sköpun Hatara var markmið þeirra að blekkja og bregðast væntingum áhorfenda sinna en það hafi verið tilraun til þess að láta ekki festa hljómsveitina niður sem eitthvað ákveðið og bauð upp á mikið listrænt frelsi.

„Við miðuðum alltaf leynt og ljóst að því að bregðast væntingum áhorfandans. Þegar við vorum orðnir stimplaðir sem einhverskonar fylgitungl þungamálmssenunnar á Íslandi þá fórum við bara og klipptum af okkur síða hárið,“ segir Matthías og vissulega hafi hljómsveitin einnig sinnt þessu hlutverki þegar hún tók þátt í Eurovision á sínum tíma.

„Væntingar áhorfandans á Eurovision eru svo vissulega eins og þær eru og við erum kannski ekki eins og flís við rass þar,“ segir hann.

Klemens og Matthías í sínu fínasta pússi. Ætli Hataragalli Matta muni enda á Hard Rock Café?

Hlýtt teppi síðkapítalismans

Matthías hefur starfað við fjöldamörg störf í gegnum tíðina, bæði sem leikskáld, dramatúrgur og textahöfundur en hann sótti einnig nýverið um starf sem dagskrárstjóri Rásar 1

„Þetta er stöð sem ég hef miklar mætur á og þykir mjög vænt um,“ segir Matthías en hann hefur áður gert þætti þar sem nefnast „Allir deyja“ þar sem ólíkt fólk lýsir sambandi sínu við dauðann. Þá kynntist Matthías Ríkisútvarpinu fyrst sem fréttamaður.

Aðspurður hvort auðvelt sé að svala sköpunarþorstanum í hefðbundinni vinnu segir hann það vissulega vera snúið en að það sé hægt að finna innblástur víða.

„Sköpunarþorstinn fer ekki neitt og maður er að gramsa á kvöldin eftir að stelpan er sofnuð og maður er að taka sér frí á föstudögum uppi í vinnu og maður er að finna smugur þar sem maður getur til að vinna í handritum og þýðingum og öðru. Leikskáldið og handritshöfundurinn deyr ekki svo glatt," segir Matthías sem finnur einnig innblástur í núverandi vinnu sinni. „Það er líka skapandi að skrifa auglýsingar fyrir fyrirtæki út í bæ. Það er skemmtilegra en margur kann að halda og þá sérstaklega í eins góðum félagsskap og ég er í hjá Brandenburg,“ segir hann.

Aðspurður um það hvort forsprakki hinnar and-kapítalísku sveitar Hatara sé nú endanlega fallinn fyrir hugmyndafræði frjálshyggju og markaðsafla segir hann svo vera.

„Ég held nú inn í hið hlýja og mjúka teppi síðkapítalismans,“ segir Matthías sem hlakkar til að upplifa þægindin sem honum fylgja. „Ég þrái núna ekkert annað en öryggi, stöðugleika og umframtekjur til að geta farið í frí. En þetta eru allt saman hugmyndir sem voru mér mjög framandi fyrir minna en ári síðan. Lífstaktur minn hefur í raun tekið algjöra U-beygju og mér finnst ekki passa í þennan nýja takt að fara í einhverjar vikur til útlanda að rokka og róla. Þótt að það hafi verið mikil lífsreynsla að gera það á sínum tíma.