Margrét Ríkharðsdóttir matreiðslumeistari og einn af eigendunum veitingastaðarins Duck & Rose setti saman vikumatseðilinn að þessu sinni sem allir sælkerar eiga eftir að elska.
Vikumatseðillinn er hinn girnilegasti þar sem Margrét er búin að setja saman úrval af sínum uppáhalds réttum. Aðspurð segir hún að stundum passa vel fyrir hana að fara út að borða eða taka mat heim þegar miklar annir eru til létta sér lífið.
„Þetta væri svona fullkomin vika í mínum huga ef ég næði kvöldunum heima en yfirleitt skipulegg ég ekki mikið fram í tímann varðandi matarmál en þetta eru svona réttir sem verða oft fyrir valinu. Matinn vel ég yfirleitt eftir því hvernig ég er stemmd hvað líkaminn kallar á og svo auðvitað hver er að fara að borða með mér. Þegar ég elda finnst mér skemmtilegast að njóta matarins í góðum félagsskap með vinum eða fjölskyldu,“ segir Margrét eftir að hafa hugsað vikumatseðilinn.
„Flest hádegi fæ ég mér fisk dagsins sem ég útbý ásamt öðrum kokkum á Duck and Rose svo ég borða fisk mjög reglulega en ég elska þó að fá góða steik. Vinnan mín snýst svo um að elda góðan mat handa öðrum og er ekkert skemmtilegra en að sjá viðskiptavini njóta matarins sem maður gerir.“
Miklar annir eru búnar að vera í vinnunni hjá Margréti þar sem þau hafa verið að þróa og setja saman jólaseðil enda styttist óðum í aðventuna.
„Framundan er aðventan og við erum með virkilega skemmtilegan jólaseðil í ár sem byrjaði 17. nóvember síðastliðinn. Við verðum með marga smárétti í ár sem mér finnst fullkomið til að deila með góðum félögum. Spenntust er ég fyrir Caviar & Blinis en þar erum við með AKI blue selection styrju kavíar, sýrðan rjóma, rauðlauk og blinis ég veit að ég mun fá mér nokkra þannig og kampavín í góðum hóp.“
Margrét er mikill sælkeri og er ofur spennt þegar hún segir frá réttunum sem þau eru búin að setja saman. „Ég er einnig viss um að rósagrafni laxinn með rúgbrauðs crumble, dillkremi, gúrku, fennel og eplasalati eigi eftir að vekja lukku en laxinn geri ég hér á Duck&Rose. Nokkrir heppnir hafa svo fengið að smakka heitreyktu andarbringuna á laufabrauði með hindberjavinaigrette, geitarosti og valhnetucrumble, hún er í miklu uppáhaldi hjá mér og öllum sem hafa smakkað,“ segir Margrét spennt.
Hér má sjá brot af þessum litríku og fallegu jólaréttum sem Margrét og hennar fólk eru búin að töfra fram.
„Það verður allavega margt ljúffengt og gott á seðlinum í ár og ég hlakka mikið til að taka á móti öllum á aðventunni,“ segir Margrét að lokum.
Hér má sjá vikumatseðilinn hennar Margrétar sem hana dreymir um að hafa.
Mánudagur – Steiktur eða ofnbakaður fiskur í raspi
„Fiskur í raspi er fullkominn til þess að byrja vikuna og það er alltaf svo næs að fara í fiskbúðina á Sundlaugavegi og byrja vikuna þar. Ég kaupi á sama tíma rækjur og hörpuskel sem ég nota í pastað á miðvikudaginn. Fiskinn, kartöflurnar, sítrónu, lauk, tómata og smjör fæ ég allt í fiskbúðinni og líka gott rúgbrauð ef maður vill slíkt með.

Siggi er líka góður í að finna rétt magn af fiski svo að maður hafi akkúrat nóg.“
Kartöflurnar fara í pott og sjóða. Ég elda fiskinn svo í ofni í eldföstu móti
Sker 1-2 lauka og set í botninn á forminu og 2-3 matskeiðar af smjöri fiskinn ofan á það og örlítið af smjöri yfir líka og salt og pipar. Eldað í 15-20 mínútur í miðjum ofni við 200°C hita og á blæstri.
Sker niður 1 öskju af kirsuberjatómötum set í skál með ¼ smátt skornum rauðlauk og 1 hvítlauksgeira krydda með salt og pipar og set 1-2 matskeiðar af góðri ólífuolíu og smá sítrónusafa. Svo bara njóta þessa, fiskur, kartöflur, laukur, tómatsalat, rúgbrauð og mögulega smá remúlaði til að toppa máltíðina.“
Þriðjudagur – Gómsætt taco með andaconfit

„Taco tuesday þessi taco uppskrift heillaði enda mikill aðdáandi anda og granatepla.“
https://www.frettabladid.is/lifid/gomsaett-taco-med-andaconfit-sem-saelkerarnir-elska/
Miðvikudagur – Sítrónupasta með skelfisk

„Mitt allra uppáhalds sítrónupasta sem hefur verið mest seldi rétturinn á Duck&Rose síðustu mánuði.“
Sítrónupasta með skelfisk
Fyrir 4
4 msk. Smjör
1 msk. hveiti
3 hvítlauksgeirar smátt skornir
½ bolli hvítvín
2 ½ msk. sítrónusafi
1 msk. sítrónubörkur frá Mabrúka
2 msk. sítrónublanda frá Mabrúka
2 bollar rjómi
Salt og pipar frá Mabrúka eftir smekk
1 pakki Tagliatelle ferskt
500 g tígrisrækjur eða eftir smekk
500 g hörpuskel eða eftir smekk
Rifinn börkur af ferskri sítrónu
Basil
Sítrónusósa
Smjör er brætt í potti þegar það er byrjað að krauma. Bætið hveitinu saman við, hvítlauknum og kryddinu. Hrærið vel svo úr verði smjörbolla. Þegar hún er komin saman bætið þá hvítvíni og sítrónusafa saman við og sítrónu berki og hrærið vel. Setjið loks rjómann saman við kryddið til með salti og pipar og látið hitna upp að suðu. Slökkvið undir sósu.
Pasta og skelfiskur
Því næst er ferskt pasta soðið samkvæmt leiðbeiningum. Skelfiskur steiktur á heitri pönnu og fiskurinn kryddaður með sítrónublöndu og salti. Þegar pasta er soðið er vatninu hellt af gott er að setja 2-3 matskeiðum af pasta vatni í sósuna. Pastað og fiskurinn sett út í sósuna og hitað örlítið saman. Skreytið með ferskri basilíku og rífið ferskan sítrónubörk yfir.
Fimmtudagur – Sushi eða kjúklingavængir
„Þá gríp ég mér oft take away til dæmis sushi frá Gaia eða kjúklingavængi frá Brewdog það er í miklu uppáhaldi.“

Föstudagur – Pitsa prociutto
„Föstudagspitsa, ég elska prociutto pitsuna á Duck & Rose og geri því slíka og fæ mér gott rauðvínsglas með. Ég mæli innilega með pitsadeiginu frá Brikk til þess að auðvelda sér lífið.“
Prociutto pitsa
1 skál/pakki pitsabotn
Pitsasósa að eigin vali
Klettasalat eftir smekk
1 burrata ostur
Prociutto skinka eftir smekk
Salt og pipar eftir smekk
Ólífuolía eftir smekk
Fersk basilíka eftir smekk.

Laugardagur – Ribeye steik með chimichurri
Nauta ribeye með chimichurri
2 stk. 200 g nauta ribeye
Leyfi steikunum að standa a borðinu í 2-3 tíma áður en ég elda þær. Og nudda þær með smá olíu. Geri chimichurri að minnsta kosti 2 klukkutímum áður eða daginn áður og geymi þá í kæli.
Chimichurri
1/2 bolli ólífuolía
2 msk. rauðvínsedik
1 búnt smátt skorin steinselja
1 búnt smátt skorið fáfnisgras eða oreganó (eða bæði þá 50/50)
3-4 hvítlauksgeirar smátt skornir eða marðir
1/2 rauðlaukur smátt skorinn
1 ferskur chilli smátt skorinn
1 tsk. þurrkaðar chilli flögur
Salt og pipar eftir smekk
Grilla steikurnar á háum hita og krydda með salti og pipar ég vill mína steik medium rare og elda hana upp í um það bil 50 gráður og leyfi svo að hvíla undir stykki í um það bil 5 mínútur. Með steikinni hef ég klettasalat með ólífuolíu, sítrónusafa og fullt af rifnum feykir. Það er auðvitað geggjað að hafa grillaðan aspas með eða steikta portobello sveppi með smjöri og hvítlauk.

Sunnudagur - Marengsterta með hvítsúkkulaðimús að hætti Möggu

„Á sunnudögum tek ég mér yfirleitt frídag og fer á góðan veitingastað í bröns eða kvöldmat með góðum vinum. En mér finnst alltaf gaman að baka og set hér góða uppskrift af marengstertu með hvísúkkulaðimús hindberjum og granateplum.“
Marengsterta með hvítsúkkulaðimús
Marengs
3 dl sykur
4 eggjahvítur
Setjið sykur og eggjahvítur saman i skál og stífþeytið á hárri stillingu. Þegar hægt er að snúa skálinni á hvolf án þess að hellist úr henni er marengsinn klár. Gott er ad móta hring á bökunarpappír, setja lag af marengs þar á, nota svo matskeiðar og setja restina af blöndunni ofan á kantinn allan hringinn og mynda svona hreiður. Einnig er hagt a gera tvo botna. Bakið á blæstri við 140°C í 60 mínútur. Gott er að opna ofninn þegar kakan er tilbúin og leyfa henni a standa í ofninum þar til hún kólnar.
Hvítsúkkulaðimús
200 g hvítt súkkuladi
2 egg
4 dl rjómi
Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði og þeytið eggin. Þegar súkkulaðið hefur bráðnað takið það af vatnsbaði og blandið eggjunum saman við hrærið þar til blandan kemur saman. Létt þeytið rjómann og blandið svo varlega saman við súkkulaðiblönduna með sleikju. Setjið síðan marengsinn á köku disk. Fyllið með hvítsúkkulaðimúsinni, skreytið með hindberjum, granateplum og myntu.