Vinkona Viktors, Safa Jemai frá Túnis, stofnaði nýverið fyrirtækið Mabrúka og byrjaði að flytja inn heimagerð krydd frá heimalandi sínu sem móðir hennar gerir. Viktor heillaðist strax af kryddheimi Túnis og leikur sér þessa dagana að því að matreiða kræsingar úr íslensku hráefni kryddaðar með kryddunum frá Mabrúka.
Viktor starfar sem matreiðslumaður hjá Kjötkompaníi og hefur verið þar í sex ár samhliða öðrum vinnum og pásum.
„Ég fór að læra kokkinn hjá Fiskfélaginu, en endaði á að hætta við menntunina og fara að huga að andlegri heilsu og prófa aðra hluti. Ég tók að mér alls kyns sjálfboðavinnu sem ég gat gefið af mér í, ferðaðist víðs vegar um heiminn, hjólaði meðal annars frá Osló til Rómar. Ég gerði marga hluti sem hjálpuðu mér að byggja upp persónuna sem ég er í dag. Seint á árinu 2021 ákvað ég að brýna hnífana upp á nýtt og fara aftur að vinna hjá Kjötkompaníi,“ segir Viktor.

Ástríðan til staðar frá barnsaldri
„Ástríða mín í matargerð hefur blundað í mér frá barnsaldri. Pabbi er lærður matreiðslumaður og hefur unnið við það nánast allt sitt líf. Sem krakki var ég alltaf að stússast í eldhúsinu með pabba, síðan tóku unglingsárin við og áhuginn fjaraði út en ég tel að matarástríðan hafi legið í undirmeðvitundinni allan tímann.
Árið 2015-16 sótti ég um sem bílstjóri hjá Kjötkompaníi og fundu kokkarnir strax fyrir mikilli ástríðu hjá mér fyrir matreiðslunni. Einnig fengu þeir smjörþefinn af því hve forvitinn ég var um matinn sem við vorum að framleiða.
Seinna sendu þeir mig af stað inn í heim matreiðslunnar þar sem ég gat gjörsamlega gleymt mér. Kunnáttan var mjög snögg að koma enda ástríðan fyrir matargerð búin að krauma lengi í undirmeðvitund minni.“

Ákafi Söfu ýtti við mér
Aðspurður segir Viktor að kynni hans af Söfu hafi í raun komið frá henni. „Ég fékk símtal frá Söfu einn daginn þar sem hún segir við mig að hún hafi fengið númerið mitt frá vinkonu sinni sem var systir stráks sem ég vann fyrir og vildi kynna fyrir mér heimagerðu kryddin frá Túnis. Ákafinn og brennandi ástríða hennar fyrir því að koma kryddunum á framfæri fékk mig klárlega til að kynna mér þessi krydd.
Við hittumst mjög fljótt í kjölfarið á þessu símtali og ég hafði ekki hugmynd um að hún hafði bara búið hér í þrjú ár, talandi þessa fyrirmyndar íslensku, í mörgum störfum og búin að gera ótrúleg hugbúnaðarverkefni og vildi bæta við kryddfyrirtæki.
Þegar maður fær tækifæri til að kynnast svona einstakri manneskju hoppar maður strax á vagninn. Eftir fyrsta fund okkar höfum við verið að vinna saman að því að koma þessum kryddum á markaðinn hér á Íslandi.“

Djúpt bragð
Hvað er það sem þér finnst gera kryddin frá Mabrúka framúrskarandi?
„Það er klárlega hversu djúpt bragð þau gefa manni. Öll vinnan og ástríðan sem er lögð í framleiðsluna kemur fram í bragðinu. Þar sem ég elska lamb þá er uppáhaldsblanda mín Fyrir lambið frá Mabrúka klárlega vinsælust hjá mér núna. Hún inniheldur zaatar sem er einnig nýtt uppáhalds hjá mér.“
Viktor segist njóta sín í matreiðslunni. „Mér hefur alltaf þótt gaman að gera nýja hluti, eitthvað sem ég hef aldrei gert áður. Er mikið að hægelda hráefni núna, til að mynda nautarifjur sem mér finnst algjör snilld, svínarifjur og fleira, smá svona „country style“ fílingur í mér þessa dagana.“
Viktor deilir hér með lesendum uppskriftum að öllum réttunum sem hann eldaði í þættinum Matur og heimili á dögunum, lambarifjum með mintu-kúskús, apríkósu-lauksultu, mintu-hasselback-kartöflum og bökuðum kirsuberjatómötum.

Mintu-kúskús
Kúskús
5 stönglar minta
3 chili, kjarnhreinsuð
2 stönglar steinselja
250 g vatn
2-4 g salt og pipar, eða eftir smekk
10 g ólífuolía
Kúskús og vatn sett í pott með smá salti og pipar (Hlutföll: 1 kúskús/1 vatn) Hægt er að steikja kúskúsið á undan suðu fyrir dýpra bragð. Einnig er hægt að sjóða með soðvatni, til dæmis grænmetissoði eða nautasoði. Soðið í 10 mínútur eða þangað til kúskúsið hefur drukkið í sig vatnið. Skerið mintu, chili og steinselju í smátt og hrærið saman með ólífuolíu. Smakkið til með salti og pipar.
Lambarifjur
6-12 stk. lambarifjur / kótilettur
Lambablanda frá Mabrúka eftir smekk
Salt og pipar frá Mabrúka eftir smekk
Ólífuolía, kaldpressuð, eftir smekk
Penslið lambarifjurnar vel með ólífuolíu. Kryddið þær með Lambablöndu kryddinu frá Mabrúka, salti og pipar. Steikið rifjurnar á rjúkandi heitri pönnu í fimm mínútur á hvorri hlið (fer eftir bitum). Einnig er mjög gott að grilla eða setja í ofn í tíu mínútur á 180°C hita. Leyfið kjötinu að standa í fimm til tíu mínútur til að það taki sig (gott er að undirbúa meðlætið og svo bera kjötið fram).
Apríkósu-lauksulta
1 sítróna
10-15 þurrkaðar apríkósur
3 laukar
30 g edik
Graslaukur eftir smekk
2 msk. hvítlauksolía
Skerið lauk niður í smáa strimla. Setjið lauk og hvítlauksolíu í pott á lágum hita og leyfið lauknum að svitna (passa að laukurinn verði ekki brúnaður). Skerið apríkósurnar á meðan laukurinn svitnar. Setið edik og sítrónusafa út í og eldið áfram á lágum hita í tíu til fimmtán mínútur (eða þangað til laukurinn er orðinn mjúkur og sultaður). Blandið apríkósum við, slökkvið á hitanum leyfið apríkósunum að liggja í lauknum í smá stund. Skerið graslauk og blandið honum saman við.
Kirsuberjatómatar
Þurrkaður sítrónubörkur frá Mabrúka eftir smekk
Salt og pipar eftir smekk
50 g ólífuolía
50 g hunang
1 askja kirsuberjatómatar
Hitið ofninn í 200°C. Blandið tómötunum saman við ólífuolíu, hunang, þurrkaðan sítrónubörkinn frá Mabrúka, eða ferskum, salti og pipar. Setjið tómatana inn í ofn og bakið í um það bil tíu mínútur.
Mintu hasselback-kartöflur
4- 6 bökunarkartöflur
Best á grænmetið kryddið frá Mabrúka
Zaatar/minta eftir smekk
Saltflögur eftir smekk
Graslaukur eftir smekk
Hvítlauksolía eftir smekk
Hitið ofninn í 200°C. Skerið kartöflurnar í tvennt og skerið síðan smá rendur niður helminginn á hverri kartöflu. Smyrjið hvítlauksolíu á kartöflurnar. Stráið zaatar/mintu, Best á grænmetið kryddunum frá Mabrúka yfir kartöflurnar ásamt saltflögum. Síðan eru kartöflurnar bakaðar í ofninum í 30-40 mínútur eða þar til þær verða gullinbrúnar.