Í dag verða haldnar SumarMatStöður, þar sem Vínstúkan, Sumac og Public house halda veislu á langborði á Laugavegi. Búist er við fjölda fólks sem mun sitja þétt.
SumarMatStöðu-verkefninu var hrundið af stað fyrsta Covid-sumarið með styrk frá Sumarborginni, sem hefur síðan þá haldið stuðningi sínum áfram.
„Síðustu tvö ár var fullsetið allan tímann, frá klukkan tvö til tíu, en nú getum við setið enn þéttar,“ segir Charlotta Rós, vínþjónn á Vínstúkunni. „Sumarborgin hvatti til samstarfsverkefna, svo við horfðum í kringum okkur og ákváðum að gera þessa veislu með Public House og Sumac.“
Charlotta bendir á að viðburður eins og þessi sé gott dæmi um þá samstöðu og samkennd sem henni finnst einkenna íslenskan veitingageira. „Við erum öll í þessu saman. Við erum dugleg að borða og drekka hvert hjá öðru og samheldnin hefur verið svona lengi. Þetta er mjög dýrmætt.“
Þétt setið með sól í hjarta
Charlotta segir fólk ekki þurfa að hafa áhyggjur af veðrinu enda mætt á svona viðburð með sól í hjarta. „Spáin er líka góð. Við kunnum nú að klæða okkur eftir veðri og getum setið þétt. Svo er bara að borða og hlæja sér til hita og endilega skilja bílinn eftir heima.“
Á fyrri viðburðum hafa gestir ítrekað spurt af hverju þetta sé ekki haldið oftar. „Galdurinn er að hafa þetta einu sinni hvert sumar,“ segir Charlotta, „Ef þetta er oftar hugsum við oft: Æ, ég mæti bara næst, og svo missum við af öllum viðburðunum.“

Karnival-götubiti
Matsalan undanfarin ár bendir til þess að um þúsund manns hafi mætt í hvort skipti. „En við eigum von á fleirum í ár og erum undir það búin.“ Fjöldi fólks leggur leið sína í miðbæinn sérstaklega til að taka þátt í veislunni, en aðrir detta inn óvænt. „Já, fólk ætlar að skreppa í Brynju að kaupa skóflu og skrúfur en er svo allt í einu mætt í heljarinnar veislu!“
Maturinn verður í anda þeirra staða sem standa að viðburðinum. „Þetta verður karnival-götubiti. Allir sem hafa farið á þessa staði vita að það fer ekkert út úr eldhúsinu án þess að það sé geggjað,“ segir Charlotta og sleikir út um áður en hún heldur áfram: „Sumac verður með miðausturlenska lamba- og blómkálsvefju og Public House verður með asíska grænmetissmárétti. Við á Vínstúkunni munum svo sjá um drykkina, og verður slagorðið okkar í hávegum haft: Þyrstur kemur, þyrstur fær.“
Nóg um að vera
Síðar í sumar mun Vínstúkan svo standa fyrir uppsprettuviðburðum á fimmtudögum klukkan hálf fimm í samstarfi við húðflúrstofuna Örlög sem er í sama húsi að Laugavegi 27.
Á laugardaginn verður ýmislegt í gangi í nágrenni langborðsins. Á Hjartatorgi bjóða Sumarborgin og Kramhúsið í krakka-breikdanstíma klukkan eitt og um kvöldið er Ari Eldjárn með uppistand í Tjarnarbíói.