Nýjar rannsóknir gefa til kynna að mataræði þungaðra kvenna geti haft mótandi áhrif á geðheilsu barna þeirra og að Miðjarðarhafsmataræði og mataræði sem hefur lítið blóðsykursálag hafi jákvæð áhrif á geðheilsu barnanna. Þetta kemur fram í grein eftir Chris Palmer, geðlækni við Harvard-háskóla, sem birtist á vefsíðunni Psychology Today.

Við vitum öll að mataræðið hefur áhrif á heilsu á ótal vegu og þar sem andlega og líkamlega hliðin er í stöðugu samspili er engin furða að það séu sífellt að koma fram ný merki um að mataræði hafi áhrif á geðheilsuna líka. En það skiptir ekki bara máli hvað við borðum, heldur virðist líka skipta máli hvað mæður okkar borða á meðgöngu og mögulega vara þau áhrif alla ævi.

Það sem mæður borða á meðgöngu hefur áhrif á þroska heilans og getur breytt umframerfðum, sem stjórna því hvaða gen eru virk. Genin hafa svo áhrif á líkamlega heilsu allt lífið og geta einnig haft áhrif á andlega heilsu.

Fylgni milli góðs mataræðis og góðrar geðheilsu

Vísindamenn sem gerðu rannsókn á umframerfðum nýfæddra barna skoðuðu 325 pör mæðra og ungbarna til að reyna að komast að því hvort mataræði í kringum getnað hefði áhrif á skapgerð og andlega heilsu barnanna á milli eins og tveggja ára aldurs. Þeir skoðuðu sérstaklega áhrif Miðjarðarhafsmataræðis og blóðsykursálags.

Í annarri rannsókninni komust þeir að því að það að fylgja Miðjarðarhafsmataræði, þó ekki væri nema að hluta, minnkaði líkur á óvenjulegri hegðun, skorti á aðlögunarhæfni og einhverfu hjá börnum á aldrinum eins til tveggja ára. Konur sem fylgdu mataræðinu sem best áttu börn sem voru síður líkleg til að vera þunglynd eða kvíðin og líklegri til að hafa góða félagsfærni en börn kvenna sem fylgdu því ekki jafn vel.

Í annarri rannsókn var einblínt á blóðsykursálagið í mataræði kvennanna í kringum getnað. Blóðsykursálag vísar til þess hve hratt matur hækkar blóðsykur og hve mikið af kolvetnum er í honum. Konunum var skipt í þrjá hópa eftir blóðsykursálaginu og þær sem voru með mest blóðsykursálag voru mun líklegri til að að eiga börn sem sýndu merki geðrænna vandamála á aldrinum eins til tveggja ára. Almennt voru börnin líka fjórum sinnum líklegri til að vera kvíðin.

Það var einnig kynbundinn munur. Strákarnir voru fjórum til sjö sinnum líklegri til að vera kvíðnir, eiga erfitt með svefn, vera hvatvísir eða í vandræðum með samkennd og næstum tíu sinnum líklegri til að sýna skort á aðlögunarhæfni. Stelpurnar voru svo fimmtán sinnum líklegri til að sýna kvíðatengda hegðun. Þessi mikli munur gefur í skyn að mataræði mæðra hafi meiri áhrif á andlega heilsu barna en almennt hefur verið talið.

Hænan eða eggið

Augljósasta gagnrýnin á þetta er auðvitað að benda á að það sé erfitt að segja hvað er hænan og hvað er eggið. Er það ef til vill aukinn kvíði og þunglyndi sem leiðir til breytinga á mataræði, en ekki öfugt?

Það gæti verið að konur sem voru ekki með hollasta mataræðið hafi verið þunglyndar eða kvíðnar fyrir og þess vegna hafi þær borðað meira af ruslfæði. Það væri ekki skrítið að börnin þeirra séu líklegri til að vera þunglynd eða kvíðin en börn kvenna sem glíma ekki við þessi vandamál. Það eitt gæti skýrt þessa fylgni og þetta var ekki skoðað í þessum rannsóknum.

En það eru fleiri rannsóknir á þessu sviði sem gefa tilefni til að ætla að þetta sé ekki alveg svo einfalt. Við vitum að óheilbrigt mataræði hefur áhrif á bólgur, hormóna, svefngæði, umframerfðir og marga aðra þætti sem við vitum líka að hafa bæði áhrif á geðheilsu og á fósturþroska.

Heilnæmt mataræði borgar sig

Það eru tiltölulega ný fræði að horfa til mataræðis í tengslum við geðheilsu. Það hafa verið gerðar rannsóknir sem gefa til kynna að gott mataræði geti bætt andlega heilsu þeirra sem þjást af þunglyndi, en það er þörf á frekari rannsóknum til að greina þetta betur.

Það er því ekki hægt að segja neitt um hvaða áhrif það hefur ef þungaðar mæður breyta mataræðinu til hins betra. En það virðist rökrétt að hvetja þungaðar konur, rétt eins og alla aðra, til að borða náttúrulega og heilnæma fæðu og forðast mikið unninn mat.