Íbúum staðarins fannst ánægjulegt að sjá að gamla hótelið hefði fengið nýtt líf. Margir eiga góðar minningar úr þessu húsi en það var reist árið 1938 af fjölskyldu Lárusar Helgasonar og Elínar Sigurðardóttur á Klaustri. Hótelið þjónaði gestum allt til ársins 1994 en þá fluttist starfsemin á Hótel Klaustur. Frá árinu 1997 var Kirkjubæjarstofa með starfsemi í húsinu en flutti síðan á efri hæð heimavistarálmu Kirkjubæjarskóla á Síðu í febrúar 2021.

Eigendur Kjarrs eru þau Baldvin Lár Benediktsson, Lárus Hilmar Sigurðsson og Vigdís My Diem Vo. Strákarnir unnu lengi í Hörpunni, bæði á Kolabrautinni og í veitingaþjónustunni, og síðan störfuðu þeir á La Primavera, en síðustu tvö ár hefur Baldvin tekið þátt í ævintýri Sælkerabúðarinnar. Vigdís lærði konditor og bakara hjá Sandholts bakaríi og vann þar í mörg ár. Eftir meistaraskólann starfaði Vigdís hjá ísbúðinni Skúbb og var bakari og konditor á Edition hótelinu á Hafnartorgi. Þau hafa öll brennandi áhuga á matargerð og draumurinn er að reka eigin veitingastað. Þess má geta að Baldvin Lár og Lárus Hilmar eru afkomendur Siggeirs og Soffíu sem lengst af sáu um rekstur hótelsins á Klaustri en það var byggt af langafa þeirra.

Vissi ung hvað hún vildi gera

Vigdís var einungis 17 ára þegar hún hóf námið og hefur starfað sem bakari og konditor síðan. „Ég er með brennandi áhuga á kokteilum og matargerð. Ég sé um kokteilgerðina og barinn á Kjarri auk eftirréttanna. Mér finnst gaman að geta nýtt það hráefni sem er í nærumhverfinu og nota það gjarnan í kokteilana sem og í eftirréttina,“ segir Vigdís og nýtur sín í botn á Klaustri. „Eftir að ég útskrifaðist árið 2016 færði ég mig yfir á Marshall restaurant sem síðar varð La primavera. Ég fór svo aftur til Sandholt til að klára bakara- og meistaranámið.

Ég tók eitt sumar í Skúbb þar sem ég sá um vöruþróun og opnun á Skúbb á nýjum stað. Árið 2021 byrjaði ég að vinna hjá Reykjavik Edition, þar var ég yfir bakara- og pastry-deildinni, þar sá ég um allan brauðbakstur, bakkelsi og alveg út í konfektgerð. Ég hef tekið þátt í nokkrum keppnum, meðal annars um eftirrétt ársins og konfekt ársins.“

Vigdís varð í 3. sæti í keppninni um Eftirrétt ársins 2013, 3. sæti í Konfekti ársins 2019, 2. sæti í Konfekti ársins 2020 og tók 1. sætið í Konfekti ársins 2021.

„Matarástin kviknaði þegar ég fylgdist með og hjálpaði mömmu við eldamennsku þegar ég var yngri. Viðbrögðin sem ég fékk, hversu ánægt fólk var með það sem ég útbjó hvatti mig enn frekar til dáða, það er mjög gefandi tilfinning að sjá fólk njóta matarins,“ segir Vigdís og brosir.

Húsið var byggt árið 1938 og stendur á fallegum stað við Klaustur.

Unnu saman á La Primavera

Lárus Hilmar hefur starfað við eldamennsku í átta ár en fór í stálsmíði í tvö ár hjá vélsmiðjunni Stálvík í smá pásu 2020 til 2022 sem kom sér vel við uppsetningu á öllu stálinu í eldhúsinu á Kjarri og smíði á barnum. „Ég byrjaði að læra á Kolabrautinni árið 2014 ,tók síðan eitt sumar á Hótel Eddu árið 2017 og byrjaði svo eftir það sumar hjá La Primavera,“ segir Lárus Hilmar.

Þríeykið vinnur vel saman og skiptir með sér verkum þar sem hæfileikarnir nýtast best. „Við Lárus sjáum að mestu leyti um eldhúsið með aðstoð frá Vigdísi. Ég byrjaði að læra matreiðslu árið 2013 á Kolabrautinni í Hörpunni. Eftir að ég útskrifaðist árið 2016 vann ég nokkra mánuði á Kolabrautinni sem vaktstjóri og færði mig svo yfir á Marshall restaurant með Leifi Kolbeinssyni sem er meistari minn ,“ segir Lárus Hilmar.

Baldvin Lár vann einnig með Lárusi þar sem ítalska matargerðin heillaði. „Við Lárus unnum saman á La Primavera. Við tengdum vel við þá einföldu ítölsku matargerð sem var og er þar. Við erum því svolítið ítalskir í okkur og leitum í góð staðarhráefni. Síðustu tvö ár hef ég unnið í Sælkerabúðinni hjá Viktori og Hinriki Erni,“ segir Baldvin Lár og er afar ánægður með hve vel hefur tekist til við að flétta saman kunnáttu þeirra þriggja.

„Við erum öll frekar ung, Baldvin er 25 ára, Vigdís 26 ára og ég 25 ára,“ segir Lárus Hilmar.

„Baldvin og ég erum báðir frá Kirkjubæjarklaustri. Baldvin ólst upp á Klaustri áður en hann flutti suður. Okkur hefur lengi langað að opna stað og gera eitthvað sjálf. Svo kom tækifæri þegar Kirkjubæjarstofa fékk nýtt húsnæði og allt í einu var gamla gistihúsið laust. Það stóð autt í tvö ár meðan Covid gekk yfir og eigendur hússins hugsuðu um hvað þar skyldi verða, við vorum svo heppin að fá það í hendurnar og láta draum okkar rætast um opnun á veitingastað þar sem við gætum látið matarástina okkar blómstra.“

Kjarr nafn með rentu

Þegar kom að því að velja nafn á veitingastaðinn vildi þríeykið hafa það íslenskt og með skírskotun í svæðið. „Við vildum velja íslenskt nafn en samt nógu auðvelt fyrir ferðamenn að geta sagt og skrifað. Við vildum hafa eitthvað náttúrutengt, gaman er að geta þess að Jóhannes Sveinsson (Kjarval) er frá Kirkjubæjarklaustri.“

Húsinu sjálfu var mikið breytt að innan til að þjóna nýju hlutverki en að utan var ekki hróflað við neinu nema að timburpalli var bætt við vestan megin við húsið.

Mikill metnaður er í matargerðinni og eigendurnir leggja áherslu á að fá gott hráefni úr héraðinu. „Við bjóðum fyrst og fremst upp á heiðarlegan og góðan mat,“ segja þau. „Við fáum Klausturbleikjuna hinum megin við götuna, lengra þarf ekki að fara.

Rabbarbarinn kemur úr bakgarðinum og við notum hann bæði í kokteilana og í rabbarbarabökuna okkar. Við notum einungis hvannarlauf á rauðrófuréttinn okkar og stundum kerfil sem við tínum úti í skógi. Með haustinu er áætlað að nota bláber og krækiber. Síðan er stefnan sett á að vera enn meira með hráefni úr okkar nærumhverfi í framtíðinni. Einnig væri draumur að geta ræktað eitthvað sjálf, til dæmis kartöflur og gulrætur, mögulega fleiri tegundir af grænmeti.“

Stíllinn okkar

Innblásturinn í matargerðina hafa þau sótt á ferðalögum sínum. „Við höfum ferðast mikið um Ítalíu og Króatíu og það hefur heillað okkur hversu einföld matargerðin er á þessum slóðum. Við tókum stílinn sem var þarna úti og gerðum hann að okkar með íslensku hráefni í forgrunni. Okkar uppáhaldsréttur er sjávarréttapastað, einnig erum við hrifin af rabbarbarabökunni, hún minnir á baksturinn hennar ömmu þegar við vorum yngri,“ segir þríeykið að lokum, sem veit fátt skemmtilegra en að töfra fram sælkerakræsingar fyrir matargesti sína.