Andrés og Auður búa á efstu hæðinni ásamt syni sínum, Ara, sem er 20 mánaða snáði. Veitingahúsið er margrómað fyrir ljúffengan mat og hlýlegt umhverfi, þar sem matarástin blómstrar og ástríða þeirra hjóna smitar út frá sér.

„Við höfum óbilandi ástríðu fyrir matargerð og menningu. Við elskum að búa á Hornafirði í yndislegu húsi og elda góðan mat fyrir heimamenn og gesti. Ég er reyndar listfræðingur og starfa í Svavarssafni á daginn, en það er opið hjá okkur á Otto alla daga fyrir kvöldverð,“ segir Auður og nýtur sín í störfum sínum.

Ást við fyrstu sýn

Hvað kom til að þið fluttuð úr borginni og yfir á Höfn í Hornafirði?

„Stutta útgáfan er húsið, þetta var ást við fyrstu sýn. En langa útgáfan er sú að okkur langaði til þess að koma á fót rekstri á eigin forsendum og þótti kannski landslagið í Reykjavík ekki hagstætt á þeim tíma. Við höfum búið í miðbænum í áratugi og gátum hvergi hugsað okkur að vera nema þar. En svo var ég í MBA-námi og fór í skiptinám til Sjanghæ og Andrés kom með. Í Kína rann upp fyrir okkur að það væri hugsanlega bara allt í lagi að prófa að búa annars staðar en í Grjótaþorpinu. Þá fórum við af stað í hugmyndavinnu um hvað við vildum gera og hvernig.

Andrés Bragason matreiðslumeistari rekur Otto ásamt konu sinni. MYND/AÐSEND

Raunar var grunnhugmyndin að opna vegan stað í Hveragerði, en okkur þótti líka mjög mikilvægt að komast fljótt og vel til Reykjavíkur. Við fórum svo vítt og breitt að skoða möguleika. Að lokum komumst við yfir þá hugarhindrun að finnast við þurfa að vera í námunda við Reykjavík og hér enduðum við alsæl í 6 klst. fjarlægð frá borginni. Það er svo skrýtið hvernig staður fangar hjarta manns en hér á Höfn er náttúran svo ægifögur með jöklana allt um kring og birtan sem skapast er engu lík. Hingað hafa listamenn sótt og reynt að fanga sjónarspilið öldum saman. Það eru sönn lífsforréttindi að búa við slíkar aðstæður.“

Heiðra minningu frumkvöðuls

Húsið er sögulegt og fangar augað. Það stendur nærri höfninni og er elsta íbúðarhúsið á Höfn. Margir hafa velt fyrir sér sögunni á bak við nafnið á staðnum. Húsið var reist af Otto Tulinius kaupmanni en hann bjó í húsinu með fjölskyldu sinni og rak verslun í næsta húsi. Húsið hefur verið gert upp að mestu leyti á upprunalegan máta og í því ríkir einstakur andi. Vinir okkar og fjölskylda segjast hvergi sofa betur og flest allir okkar viðskiptavinir nefna andrúmsloftið um leið og matinn og umhverfið. Auðvitað er það eitthvað sem skapast af því sem við setjum í það og líka frá gestunum sjálfum en einnig finnst okkur húsið gefa af sér. Í aðdragandanum veltum við ýmsum nöfnum fyrir okkur en Otto er einfalt, auðvelt og grípandi og heiðrar minningu frumkvöðuls sem reisti húsið af miklum myndarbrag fyrir rúmri öld,“ segir Auður.

Mikið er lagt í fallegan borðbúnað og að gestum líði vel.Serbl_Myndatexti:MYND/AÐSEND

Húsið fullkomin umgjörð

Þegar við fundum húsið sáum við möguleika á því að skapa lítinn en metnaðarfullan veitingastað eftir okkar höfði. Húsið var fullkomin umgjörð fyrir okkur, þar sem á efstu hæðinni er íbúð sem við höfum gert upp eftir okkar þörfum, á miðhæðinni notalegur veitingasalur og eldhús og í kjallaranum er eiginlega tilraunasvæði þar sem nú starfrækjum við konseptverslun. Við lögðum upp með ákveðnar hugmyndir en ferlið hefur einnig verið lífrænt og staðurinn þróast og þroskast. Við erum í mikilli nánd við gestina og skynjum strax hvað fellur í kramið og hvað hentar á hverjum tíma. Við erum líka óhrædd við að prófa nýja hluti en það er kannski það góða við að vera svona lítill að það er auðvelt að aðlaga sig og breyta sér,“ segja þau Auður og Andrés.

Frönsk súkkulaðikaka með Omnom ívafi sem vert er að prófa.? MYND/AÐSEND

Fjölbreytt flóra

Það fylgja ýmsar áskoranir því að vera með veitingarekstur á Höfn. „Hér er mikil samkeppni og sveiflur í fjölda ferðamanna. En fjöldi veitingastaða stuðlar einnig að fjölbreyttri flóru matarmenningar og orkar sem aðdráttarafl fyrir ferðamennsku. Það er auðvitað töluvert ólíkt að stunda veitingarekstur á Höfn í Hornafirði og í Reykjavík. Það er ótrúlega skemmtilegt að vera gæða veitingahús á svo afskekktum stað ef svo má kalla, því að hissa-gleði-faktorinn verður svo sterkur meðal gesta. Otto er líka látlaus og gefur sig ekki út fyrir að vera fínni en hann er. Okkar grunnhugmynd var að vera lókal veitingastaður, fyrst og fremst fyrir heimamenn. Við bökum súrdeigsbrauð daglega og við bökuðum kanilsnúða daglega fyrstu árin til að selja heimamönnum beint. En þetta er auðvitað lítill kaupstaður, hér eru margir veitingastaðir og svo sáum við það fljótt að hér erum við háð ferðamennsku. Á Höfn er langt í næstu byggðarlög og fólk er mikið að keyra í gegn, sem skapar ákveðna stemningu.“

Hefur margt breyst á þessum árum?

„Við höfum lært mikið á þessum tíma og þurft að margaðlaga okkar rekstur að markaðnum og umhverfinu. Við höfum verið með alls konar tilraunastarfsemi, eins og opinn bar í kjallaranum, bakstur alla daga, bröns um helgar, morgunverð, verslun í kjallaranum, pop-up heimsreisur og fleira og fleira. Stærsta áskorunin hefur auðvitað verið heimsfaraldur, en það hefur verið þungur róður að komast í gegnum þá mánuði á svo litlum stað með enga ferðamenn. Rekstrarumhverfið er auðvitað síbreytilegt og nú erum við að koma undan Covid þar sem við höfum verið starfandi í hálfgerðum neyðarfasa. Það verður spennandi að sjá hvernig þróunin verður á komandi mánuðum en allt horfir það nú til betri vegar og við finnum hvernig bærinn er að lifna við og ferðamenn koma í auknum mæli og glæða bæinn lífi.“

Súpa með humri sem gleður bragðlaukana er vinsæl á Hornafirði. MYND/AÐSEND

Handverk í eldhúsinu

Sérstaða staðarins er bæði umhverfið og maturinn. „Innréttingar eru að skandinavískri fyrirmynd, einfaldar og fallegar. Í eldhúsinu er allur matur lagaður frá grunni og öll matreiðsla og bakstur er handverk. Við bökum súrdeigsbrauð í steinofninum alla daga sem hefur vakið mikla eftirtekt. Við stöndum bæði vaktina alla daga vikunnar og höfum raunar gert frá byrjun, svo það má kannski kalla það heimilislegt og við erum auðvitað í mikilli nánd við okkar gesti. Við erum eini veitingastaðurinn á Höfn sem hefur leyfi til þess að taka nema á samning, svo hjá okkur er hægt að læra bæði matreiðslu og framreiðslu. Síðast en ekki síst höfum við verið með myndlistarsýningar síðan við opnuðum og sýnt fjölbreytt verk íslenskra myndlistarmanna. Það er með miklu stolti sem við sýnum pappírsþrykk Katrínar Sigurðardóttur í sumar, með styrk frá Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga. Sýningin samanstendur af verkum frá árunum 2018-–2021 sem aldrei hafa verið sýnd á Íslandi. Verkin eiga þó sterka rót hér á landi og ekki síst undir Vatnajökli.

Okkar áhersla í matargerðinni hefur verið íslensk og norræn en í fyrrasumar og í sumar höfum við verið með franskan brasserie-seðil sem hefur gefist vel svo þetta er kannski blanda af því má segja. En það eru mjög sterk höfundareinkenni á öllum réttum enda Andrés verið að matreiða og þróa sína eigin rétti og bragð síðan hann var krakki. Við erum með ótrúlega góða og vinsæla humarsúpu en við erum líka með andalæri, eldað í confit yfir nótt, reyktan þorskhnakka frá Sólskeri og krækling.“

Við, ásamt fleiri veitingahúsum á svæðinu, erum í samstarfi við Omnom og Visit Vatnajökull í sumar og því skemmtilegt að deila uppskrift að franskri súkkulaðiköku með Omnom Nicaragua 73% súkkulaði.

Frönsk súkkulaðikaka með Omnom ívafi

300 g Omnom Nicaragua 73%

300 g smjör

300 g sykur

30 g sterkt kaffi

20 g koníak

4 egg

Setjið allt nema egg saman í skál og bræðið yfir vatnsbaði við vægan hita.

Hrærið og bætið eggjunum út í og hrærið áfram þar til allt er komið saman. Hellið svo blöndunni í silikonform og komið fyrir í ofnskúffu. Komið fyrir í ofninum. Fyllið ofnskúffuna með heitu vatni upp að miðju formsins. Bakið við 160 °C í 40 mínútur.

Leyfið að standa í opnum ofninum í um það bil 10 mínútur. Látið kólna áfram á borðinu og komið svo í kæli. Þegar kakan er borin fram er best að hita beittan hníf til að ná fallegum skurði beint úr kælinum. Þeyttur rjómi og gott kaffi gera þetta svo að einni allsherjar sælu. ■

Fallegt afgreiðsluboð á Otto.