Sjöfn fékk að fylgjast með fjölskyldunni við matargerð á líbönskum sælkeraréttum. Húsmóðirin Soffía er forstöðumaður menningarmála í Kópavogi og fjölskyldufaðirinn Gunnar er sérfræðingur hjá menntamálaráðuneytinu. Dæturnar stunda báðar háskólanám; Sunnefa er meistaranemi í arkitektúr í Delft, Hollandi og Júlía er sálfræðinemi við HÍ og starfar hjá Wasteland.

Menningarmálin í Kópavogi hafa verið á mikilli uppsiglingu undanfarin ár. Þar eru reknar fimm menningarstofnanir, Gerðarsafn, Salurinn, Bókasafn, Náttúrufræðistofa og Héraðsskjalasafn. Alþjóðlega menningarverkefnið Vatnsdropinn sem Kópavogsbær á frumkvæðið hefur hlotið tæplega sjötíu milljón króna styrki undanfarið og hefur verið í nógu að snúast hjá Soffíu og starfsfólki hennar vegna þess.

Menning, listir og matur skipa stóran sess á fallegu heimili Soffíu og Gunnars, og stór eyja í opnu rými hússins kallar á skapandi samstarf við matarundirbúninginn.

„Við erum mikið áhugafólk um matargerð og það að skipuleggja, undirbúa og borða góðan mat saman er eitt af því sem tengir okkur vel saman. Gunnar er aðalmatgæðingur heimilisins og óragur við að prófa nýja, framandi rétti sem annað heimilisfólk nýtur góðs af,“ segir Soffía og er stolt af sínum manni. Og þótt Gunnar vilji ekki viðurkenna það segir Soffía að á heimili þeirra sé oft á borðum matur sem hvaða fimm stjörnu veitingastaður getur verið stoltur af.

Fjölskyldan matreiddi líbanska veislu eins og hún gerist best. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN

Sumac kom þeim á bragðið

Segið okkur frá ástríðu ykkar á líbanskri matargerð? Hvernig kynntust þið henni?

„Við höfum gaman af því að ferðast til framandi staða og kynnast ólíkri matargerðarlist og hér á heimilinu er mikið rætt um mat og nýjar matarupplifanir. Árni, sonur okkar sem býr í Oxford, sagði okkur frá líbönskum stað sem hann og Nína kærastan hans hafa mikið dálæti á og við fengum strax áhuga á að kynnast líbanskri matargerðarlist betur,“ svarar Soffía.

„Við hjónin höfum sótt hinn frábæra veitingastað Sumac á Laugaveginum og komumst á bragðið þar. Áður en Árni kom heim um jólin fór hann í búð í nágrenninu og sankaði að sér kryddum og öðru góðgæti, og við ákváðum að um jólin skyldum við útbúa líbanskt veisluborð frá grunni. Yfirkokkur heimilisins, Gunnar, fékk svo tvær matreiðslubækur í jólagjöf sem eru helstu leiðarljósin okkar í líbönsku matargerðarlistinni; Mezze Cookbook (Phaidon) eftir Salma Hage og Sumac eftir Þráin Frey Vigfússon.“

Lambakjöt er áberandi í líbönskum mat. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN

Einstök og heillandi krydd einkenna bragð réttanna

Hvað er það sem heillar ykkur helst við líbanska matargerð?

„Fyrir utan hin einstöku krydd Za‘atar, Sumac, Ras el hanout og Berbere, sem einkennir bragð réttanna, eru í líbönskum mat notuð fersk hráefni og mikið grænmeti sem hentar vel þar sem dætur okkar Sunnefa og Júlía eru báðar vegan. Þá er einstaklega spennandi að útbúa líbanska veislu sem samanstendur af mörgum litlum réttum sem hægt er að deila. Ólíkar sósur og ídýfur með grillaða brauðinu er eitt af því sem gerir hlaðborðið og borðhaldið litríkt og skemmtilegt.“

Líbanskur matur er sannkallað konfekt fyrir augu, munn og maga. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN

Saltaðar sítrónur fyrirferðarmiklar í líbanskri matargerð

Þegar kemur að því að fá hráefni í líbönsku réttina hafa Soffía og Gunnar uppgötvað rétta staðinn sem hefur að geyma hinar ótrúlegustu kryddblöndur.

„Sumar kryddblöndurnar voru okkur framandi en nú er hægt að fá vel flest hér á landi. Við uppgötvuðum verslunina Instanbul Market á Grensásvegi sem er vel falið leyndarmál þegar kemur að framandi matargerð og þar höfum við verið tíðir gestir. Þar höfum við fundið öll krydd og hráefni sem þarf í matargerðina, meðal annars niðursoðnar grillaðar paprikur og saltaðar sítrónur, sem eru mjög fyrirferðarmiklar í líbanskri matargerð. Lambakjöt er áberandi í líbönskum mat og við höfum notað hægeldað, úrbeinað lambalæri og lambaprime, en einnig hentar kjúklingur vel, til dæmis úrbeinuð kjúklingalæri.“

Bragðgóð og framandi líbönsk krydd gera kartöflur að lostæti. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN

Meistarakokkur og handlangari

Mikla eldamennsku og umræðu um mat á heimilinu má mestmegnis rekja til ástar Gunnars á góðum mat og börnin hafa klárlega tileinkað sér þennan áhuga en dæturnar töfra iðulega fram ljúffenga veganrétti sem þær elda frá grunni.

„Hér er mjög lítið keypt af tilbúnum réttum og enginn sér eftir tímanum sem fer í matseldina,“ segir Soffía sem segist vera góður handlangari. Hún leggi á borð og gangi frá og svo falli brauðgerð og bakstur oft í hennar hlut. Um tíma átti afrískur matur hug fjölskyldunnar en þau hafa meðal annars ferðast saman til Marokkó og Tansaníu.

Bara til að gefa smjörþefinn af því sem getur verið á boðstólum eru hér nokkrir réttir sem allir eru vegan.

Grillað brauð með Za’atar kryddi og sesamfræjum er ómissandi meðlæti með líbönskum mat. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN

Grillað brauð með Za’atar-kryddi

Grillað brauð með Za’atar kryddi og sesamfræjum er ómissandi meðlæti. Za’atar er mild kryddblanda, gerð úr oregano og sesamfræjum. Nota má einfalda brauðblöndu úr durum-hveiti, salti, geri og vatni.

Látið deigið hefa sig og fletjið út í litlar flatkökur. Hendið þeim á grillið og dreypið hvítlauksolíu og stráið Za’atar og sesamfræjum yfir þegar tilbúið.

Grillað eggaldin með tahinisósu er í miklu dálæti hjá fjölskyldunni. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN

Grillað eggaldin með tahinisósu

Eggaldin er í sérstöku uppáhaldi hjá fjölskyldunni.

Skerið eggaldin í tvennt eftir endilöngu og kryddið sárið með salti, olífuolíu og góðri kryddblöndu, eins og til dæmis Berbere-blöndu sem er gerð úr chilli dufti, papriku, kóríander, túrmerik, svörtum pipar og kanil. Gott er að gera það með nokkrum fyrirvara svo eggaldinið geti drukkið í sig kryddin. Grillið þar til það er orðið vel mjúkt í gegn, og það má brenna aðeins að utan. Einnig er hægt að setja það í ofn á háum hita og grilla þar. Borið fram með tahini-jógúrtsósu og sítrónusafi kreistur yfir. Skreytið með klettasalati og granataeplafræjum, ef vill.

Tahini-sósa

Tahinisósa er sérlega ljúffengt meðlæti með líbönskum mat og myndar gott jafnvægi við bragðmiklar kryddblöndur. Tahini er þykkni úr sesamfræjum og gott að blanda ólífuolíu, sítrónusafa, hunangi og jógúrti saman við. Til að hafa sósuna vegan notum við vegan jógúrt. Allir þurfa að finna þá blöndu sem þeim finnst bragðast best. Ef tahini er mjög þykkt má blanda vatni saman við til að fá réttu áferðina. Svo má salta og krydda eftir smekk, okkur finnst kúmínduft passa vel við tahini- bragðið.

3 dl hafrajógúrt

3 dl tahini

Safi úr ½ sítrónu

½ tsk. salt

½ tsk. kúmín

2 msk. ólífuolía

1 tsk. af hunangi

Paprikuídýfa og Tahinisósa er meðal ljúffengs meðlætis með líbönskum mat. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN

Paprikuídýfa með hnetum er algjört lostæti

Til eru ýmsar útgáfur af þessu lostæti en stuðst er við frábæra uppskrift frá veitingastaðnum Sumac.

„Við höfum prófað að grilla papriku og líka keypt hana niðursoðna í Instanbul Market. Hvort tveggja var mjög gott. Ef paprikan er grilluð þarf hún að vera orðin vel mjúk og í lagi þótt hýðið brenni aðeins, en þá er auðveldara að taka af henni hýðið. Það sem gefur einstakt bragð er reykta paprikuduftið og hneturnar. Við setjum allt saman í matvinnsluvél og blöndum vel til að fá mjúka og kremaða áferð og þá getur verið gott að nota öflugan töfrasprota á blönduna. Paprikuídýfan er ljúffeng ein og sér með grilluðu brauði eða sem meðlæti með grilluðu kjöti.“

Paprikuídýfa með hnetum

250 g paprika (niðursoðin eða grilluð)

50 g ristaðar, hýðislausar hakkaðar heslihnetur

2 msk. púðursykur

1 msk. salt

100 ml. ólífuolía

1-2 hvítlauksrif

1/2 msk. salt

1 msk. eplaedik

1 msk. reykt paprikuduft

Setjið hráefnið í blandara. Til að ná léttri og sléttri áferð er gott að fínvinna ídýfuna með töfrasprota.

Tabbouleh er frískandi salatréttur með kúskús. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN

Tabbouleh – Sítrus-kúskús með ferskum kryddjurtum

Tabbouleh er léttur og frískandi salatréttur gerður úr kúskús eða búlgum með steinselju og öðru góðgæti

2 bollar af kúskús (má líka nota bulgur)

1/2 grænmetisteningur

3 stórir tómatar

1 rauðlaukur, fínlega saxaður

Vel útilátið af smátt söxuðum ferskum kryddjurtum aðallega steinselju en einnig má nota kóríander og mintu

100 g af blönduðum ristuðum fræjum; sólblómafræ, graskersfræ og sesamfræ

Dressing

3 msk. af ólífuolíu

börkur og safi af 1 appelsínu

börkur og safi af 1 sítrónu

1 tsk. Dijon sinnep

1 tsk. hunang

salt og pipar

Setjið kúskús í skál og hellið sjóðheitu soði með grænmetiskrafti þannig að fljóti vel yfir. Saxið dágóðan slatta af steinselju. Það má einnig blanda við öðrum kryddjurtum sem kunna að vera í kæliskápnum. Saxið rauðlauk smátt. Leggið tómata í sjóðandi vatn í smá stund og flettið skinninu af. Takið innan úr tómötunum og saxið vel. Ristið fræin á pönnu til að laða betur fram bragðið. Raspið börk utan af sítrónu og appelsínu og kreistið safann úr þeim.

Blandið saman við olífuolíu, smá slettu af Dijon sinnepi og dreypið hunangi yfir. Ekki gleyma að salta og pipra. Þegar kúskús hefur tekið sig, eftir 10 mínútur, skal færa það yfir í skál og hræra í því með gaffli þannig að það verði laust í sér. Blandið lauk, tómötum og steinselju saman við og hrærið vel saman. Að lokum er fræjunum dreift yfir, dressingunni hellt út á og öllu blandað varlega saman. Sítrus- og kryddjurtailmurinn af salatinu ómótstæðilegur.