Sumrin eru háannatími hjá Sigríði en hún ákvað þó að gefa sér stutta stund og gefa okkur innsýn í hennar vikumatseðil og segja verkefnunum sem hún er að fást við þessa dagana.

„Sumarið er tíminn eins og segir í góðu lagi. Því miður er ég ekki svo heppin að geta tekið frí á sumrin því mannvirkjaiðnaðurinn sem ég sinni er á hraðferð frá byrjun apríl til byrjun nóvember án afláts og samt nóg að gera hina 4 mánuði ársins. „Sumar“-frí er því óþekkt hugtak í mínum huga. Fjölskyldan nýtir helgar og góðviðrisdaga afar vel og við stundum útiveru og samveru af kappi. Við erum afar heimakær og eldum gjarnan góðan mat og tökum tíma í að njóta bæði undirbúnings, matargerðar og borðhalds. Heilbrigður lífsstíll er hluti af mér og ég sinni mér til jafns af líkama, anda og sál allan ársins hring. Mataræði er alger kjarni og grunnur í daglegu lífi.“ Segir Sigríður Hrund.

„Það er gott að borða í takt við árstíðir og á sumrin verður fæðið markvisst léttara. Salat af öllum tegundum dettur í gírinn og grillið er miskunnarlaust notað til að leika sér með næringuna. „Koldskål“ er arfleifð frá Danmörku en þá skerum við niður ávexti, setjum yfir gríska jógúrt eða létt AB mjólk og dökkur eðal súkkulaðispænir á það til að detta yfir skálina sem og kjarngott musli. Gott í morgunmat, hádeginu eða í eftirmat – alla vega segir enginn Nei við uppástungunni heima hjá mér. Við sukkum mest í þessum rétti enda lítið mál að skera niður margvíslega ávexti til að fylla skál.“

„Ég nærist 5-2 í hverri viku, þ.e. 5 dagar venjulegir, 2 dagar léttir og jafnvel aðeins djús eða vatnsdagur þessa tvo daga. Ég fasta frá klukkan 20.00 til klukkan 10.00 alla jafna allt árið og tek nokkrar lengri föstur á hverju ári, það er nauðsynlegt fyrir meltingar- og taugakerfið mitt að hvílast og slaka á. Þú ert það sem þú borðar er svo sannarlega satt,“ segir Sigríður Hrund og brosir.

Matseðill vikunnar öllu jafna væri um það bil svona hjá Sigríði Hrund:

- Fiskur tvisvar í viku

- Pasta tvisvar í viku

- Kjöt tvisvar í viku

- Eldað úr skápunum eða frystinum einu sinni í viku

„Á mínu heimili er ekki drukkið gos, við kaupum ekki nammi og það er alltaf grænmeti með kvöldmat. Ég sker allan mat niður og ber fallega fram. Það er ávallt lagt fallega á borð og gefinn tími fyrir mat. Þar sem ég er með stóra fjölskyldu á mismunandi aldri náum við ekki sameiginlegu borðhaldi alla daga en að lágmarki einu sinni í viku eru allir þvingaðir til sætis. Algerlega nauðsynleg samverustund og bestar eru þær í sunnudagshádegi með sterku kaffi, hollur fjölbreyttur bröns með sætu ívafi helmingurinn af fjölskyldunni er þó geispandi og vart viðræðuhæfur. Það er mjög fín blanda.“

Mánudagur - Parmaskinkan gerir alla daga betri

„Þar sem ég er afar óhefðbundin þá er minn matseðill óhefðbundinn og alls ekki negldur niður á daga vo hér er maturinn minn í flæði hversdagsins. Tvennt sem gerir flest alla rétti góða; parmesan og parmaskinka. Parmesan er í ísskápnum allan ársins hring og notaður í sósur, salöt, beint á rétti og auðvitað eðalstykki sem ekki fást í hefðbundnum matvöruverslunum. Parmaskinka væri á borðum 1-2svar í mánuði og stíft yfir sumarið það fylgir hreinlega.“

Screenshot 2022-07-18 at 13.22.04.png

Guðdómlega ljúffeng parmaskinka í salatið

Þriðjudagur - Maísinn er fullkominn á grillið

„Grænmeti er númer 1, 2 og 18 í matinn og á grillið og við erum svo heppin að eiga nóg af því á Íslandi. Ég grilla allt sem mögulega hægt er að grilla og set gæðaolíu á, hægan hita og flögusalt, kannski smá pipar.“

Screenshot 2022-07-18 at 13.22.54.png

Hollur og góður maís á grillið

Miðvikudagur - Avókadóið er hæfileikaríkt

„Avókadó er til alla daga í ísskápnum og notast eiginlega allan sólarhringinn. Best finnst okkur þroskað avókadó með góðri hráolíu og flögusalti hreint, með eggjaböku, ofan á ristað brauð eða hent í guacamole sem hliðardisk.“

Screenshot 2022-07-18 at 13.25.38.png

Guacamole sem bráðnar í munni

Fimmtudagur - Beikongleðin við völd

„Þar sem ég er lítil kjötkona og borða helst aðeins hreint lambakjöt þá get ég ekki gefið mörg ráð hér. En beikon er eitt af frábærum afurðum sem heimilið elskar, við verslum iðulega í Pylsumeistaranum til að fá sem hreinasta vöru, en reyndar er hægt að fá ansi gott hreint beikon í helstu matvöruverslunum.“

Beikon

Góð ráð fyrir eldun á beikoni

Föstudagur - Hreint íslenskt lamb

„Ef ég væri með lamb í matinn væri það alltaf sem hreinast kjöt og einfalt meðlæti. Það hentar mér best og leyfir mér að stýra hvað ég er að borða hverju sinni.“

Lambið

Ljúffengt lambaprime

Helgargóðgætið - Grillaður bjúgaldin með súkkulaði

„Alla daga væru grillaðir bananar með ís, rjóma og súkkulaði í eftirrétt samkvæmt börnunum þannig rúllum við í lífinu.“

Grillaðir bjúgaldin banani

Bjúgaldin grillað á besta mátann