Myndasögurisinn Marvel byggði stórsókn sína inn á kvikmyndamarkaðinn á minna þekktum eða hálfgleymdum ofurhetjum úr persónugalleríi sínu, með mögnuðum árangri.

Iron Man hafði þannig ekki þótt líklegur til stórræðanna þangað til Marvel veðjaði á hann með samnefndri mynd 2008 þegar ballið byrjaði. Þrettán árum síðar er Marvel enn að tefla fram persónum úr B-flokki með undraverðum árangri.

Þannig hefur bardagalistamaðurinn Shang-Chi hingað til ekki verið meðal nafntoguðustu hasarhetjanna á síðum Marvel-blaðanna, en hefur gert stormandi lukku og slegið met í allar áttir frá frumsýningu í Bandaríkjunum á föstudaginn.

Járnið hamrað

Marvel-hraðlestin hefur verið á óslitinni sigurgöngu síðan kvikmyndarmur myndasögurisans teygði sig á hvíta tjaldið með Iron Man og í kjölfarið röðuðust rykfallin hugarfóstur hasarblaðahugmyndafræðingsins Stan Lee í bíó.

Ýmist í eigin myndum: Captain America, The Hulk, Thor, The Black Panther, Ant-Man, Doctor Strange, eða sameinuð undir merkjum Guardians of the Galaxy og síðast en alls ekki síst The Avengers, sem unnu sig beint upp í úrvalsdeild þar sem liðið lauk keppni 2019 með Avengers: Endgame.

Þá var allt klárt fyrir fjórða fasa heimsyfirráða Marvel og þegar Covid-þokunni slotaði aðeins fyrr í sumar reið Scarlett Johansson á vaðið, þegar hún endurtók rullu sína sem Black Widow enn eina ferðina, þegar persónan fékk loks að njóta sín í sinni eigin mynd.

Hvítu karlarnir á bekknum

Með Black Widow braut vopnfimi leigumorðinginn og Hefnandinn Natasha Romanoff hnausþykkt glerþak hjá Marvel, þar sem myndin var sú fyrsta sem hverfðist um og hvíldi á herðum kvenhetju. Og nú kemur Shang-Chi and the Legend of the Ten Rings lóðbeint í kjölfarið og markar þau tímamót að með henni er asísk ofurhetja í forgrunni í fyrsta skipti.


En tæpast það síðasta þar sem sláandi vinsældir Shang-Chi eru líklegar til þess að opna augu Disney fyrir því að fleiri en hvítir karlar dugi til þess að halda fokdýrum hasarmyndum gangandi. Jafnvel þótt þessi bransi þjáist enn af þröngsýni er engin hætta á öðru en að Marvel og Disney fagni fjölbreytninni og kjósi jafnrétti með buddunni.

Bjargvættur bíóanna

Marvel er einn angi Disney-veldisins sem í sóttkvíðakasti ákvað að frumsýna Black Widow samtímis í kvikmyndahúsum og í streymi á Disney+ gegn tæplega 4.000 króna, eða 30 dollara, aðgangseyri. Ákvörðun sem ætlar að draga ýmsa dilka á eftir sér. Ekki síst í harðvítugri kjaradeilu við aðalstjörnuna, Scarlett Johansson.

Þá hafa kvikmyndahúsaeigendur lýst megnri óánægju með tilraunir framleiðanda með frumsýningar samtímis í bíó og streymi, enda framtíð kvikmyndahúsa í uppnámi eftir faraldurinn, þannig að þau mega ekki við frekari búsifjum.

Shang-Chi er enn sem komið er aðeins sýnd í kvikmyndahúsum og þaðan er horft til myndarinnar vonaraugum eftir að hún fór langt fram úr væntingum og rakaði saman 83,5 milljónum dollara á fjögurra daga frumsýningarhelginni.

Innkoma Shang-Chi fyrstu þrjá bíódagana kom henni í þriðja sæti tekjuhæstu bíómynda faraldursins, þar sem hún er rétt á hæla Black Widow sem vitaskuld fékk netaðsóknina í forgjöf.

Slagkrafturinn í Shang-Chi er þannig talinn geta orðið til þess að Disney láti streymistilraunum sínum lokið með Black Widow og næsta Marvel-myndin, The Eternals, muni feta einstefnubraut Shang-Chi í bíó.

Fjandskapast við Fu Manchu

Shang-Chi and the Legend of the Ten Rings segir frá ævintýrum og hremmingum uppgjafa leigumorðingjans Shang-Chi, sem neyðist til þess að gera upp við arfleið sína, illan föður og umfangsmikil glæpasamtök hans.

Persónan er hugarfóstur myndasöguhöfundarins Steve Englehart og teiknarans Jim Starlin og birtist fyrst í myndasögublaðinu Marvel Special Edition #15 í desember 1973.

Shang-Chi skaut upp kollinum af og til í Marvel-blöðum í framhaldinu og endaði með að fá sína eigin myndasöguseríu, þar sem hann sýndi lygilega færni sína í alls kyns asískum bardagalistum þar sem hann djöflaðist ýmist tómhentur eða vopnaður í hasarblöðum sem kennd voru við Master of Kung Fu.

Ættbogi Shang-Chi er goðsagnakenndur, en hann var í upphafi óþekktur sonur meistarakrimmans Dr. Fu Manchu og saga hans spunnin út frá bókum rithöfundarins Sax Rohmer um doktorinn illa. Seinna meir tónaði Marvel þessi ættartengsl niður, eftir að fyrirtækið missti útgáfuréttinn á myndasögunum um Dr. Fu Manchu, þannig að faðir Sang-Chi varð að lokum Zheng Zu.

Föðurómyndinni Zheng Zu hefur síðan verið skipt út fyrir Xu Wenwu, sjálfan Mandaríninn, í bíómyndinni þar sem þessi sígildi Marvel-skúrkur og fjandvinur Iron Man, velgir Sang-Chi undir uggum.

Brakandi fersk

Kínversk-kanadíski leikarinn Simu Liu leikur Shang-Chi og Tony Leung túlkar Xu Wenwu. Þá láta Awkwafina, Ben Kingsley og Michelle Yeoh einnig að sér kveða í myndinni sem Destin Daniel Cretton leikstýrir, en hann er þekktastur fyrir Just Mercy með Michael B. Jordan og Jamie Foxx í aðalhlutverkum.

Þessi vaski hópur má vel við una því eins og staðan er viku eftir frumsýningu er Shang-Chi and the Legend of the Ten Rings besta myndasögubíómynd allra tíma, samkvæmt dómasafni vefsins Rotten Tomatoes.com.

Þar þykir Shang-Chi brakandi fersk með 98% og toppar jafnvel hápunkt Batman þríleiks Christophers Nolan, The Dark Knight, sem komst í 94%. Áhorfendaeinkunn Shang-Chi er örlítið lægri þar sem hún stendur í 92% á meðan til dæmis Black Panther rokkar í 96% og fyrsta Iron Man myndin nær 94%.

Þessum tölum er vitaskuld slengt fram með þeim fyrirvara að þær geta breyst eftir því sem dómum um myndina fjölgar og fleiri áhorfendur láta álit sitt í ljós. Það breytir því ekki að Shang-Chi fer af stað með látum og svo miklum glæsibrag að ný rís sól í austri yfir kvikmyndahúsum víða um lönd.

Marvel stökk á bardagalistaæðið sem gaus upp í Bandaríkjunum upp úr 1970 með Sang-Chi og skyldleiki persónunnar við leikarann og karategoðsögnina Bruce Lee dylst fáum. Mynd/Marvel