Þegar ég fíraði upp í PlaySta­tion 4 tölvunni til þess að spila A­ven­gers tölvu­leikinn bjóst ég satt best að segja við því að mér yrði ekki komið á ó­vart. Ekki mis­skilja mig, ég bjóst að sjálf­sögðu við því að leikurinn yrði hin fínasta af­þreying. En ég hélt hins­vegar að sögu­þráðurinn yrði hefð­bundnari.

Ég hélt að ein­hver sam­nefnari Loka eða Thanos yrði vondi kallinn og að sögu­þráðurinn væri eitt­hvað á sömu leið og í A­ven­gers kvik­myndunum. Sem hann vissu­lega er að ein­hverju leyti, en þó tölu­vert myrkari heldur en kvik­myndirnar. Ég fíraði eins og áður segir upp í PlaySta­tion tölvunni. Áður en fyrr varði var ég kominn í hlut­verk lítillar stelpu, ráfandi um ein­hvers­konar ofur­hetju­há­tíð í San Francisco að leita að teikni­mynda­sögum.

„Hvað í ó­sköpunum er ég að gera við líf mitt?“ hugsaði ég með mér þegar ég hafði safnað þriðju mynda­sögunni af þremur, hitt Þór og sjálfan Kaptein Ameríku. Fyrr en varði kom þó í ljós að stúlkan var engin önnur en Kamala Khan, sem er víst engin önnur en ofur­hetjan Miss Mar­vel.

Til þess að spilla ekki frekar segi ég ekki meira um sögu­þráðinn, annað en að við tekur spennandi leit að Hefn­endunum þar sem manni gefst kostur á að leika ofur­hetjurnar sem við þekkjum öll, auk okkar eigin Kamölu Khan. Við tekur bar­áttan gegn hinu illa stór­fyrir­tæki AIM og fautunum sem því stýra.

Spila­mennskan í leiknum er nokkuð venju­bundin. Þeir sem spilað hafa Spi­der­man tölvu­leikinn á PS4 munu ef­laust kannast vel við sig hér. Við ýtum á mis­munandi takka til að geta lumbrað á vondu köllunum og getum spilað sem okkar eigin Miss Mar­vel, Iron Man, Hulk, Thor, Captain America og Black Widow.

Sumir, líkt og Iron Man og Thor geta flogið. Aðrir eins og Miss Mar­vel og Black Widow geta sveiflað sér um. Ég vek at­hygli á því að sjálfur er ég ekki búinn með leikinn. Enn sem komið er er ég ekki orðinn þreyttur á þessu formati, að berja kalla fram og til baka en ég get þó í­myndað mér að þetta bar­daga­kerfi geti orðið þreytt á endanum.

Kamala Khan er persóna sem margir kannast ekki við og kom mér mjög mikið á óvart.
Fréttablaðið/Skjáskot

Sjálfur get ég ó­mögu­lega haft hlutina í erfiðasta erfið­leika­stigi og er því með þetta stillt á miðlungs­erfitt. Það kemur þó ekki í veg fyrir það að ég taki á­kvarðanir í fljót­færni, líkt og í lífinu sjálfu, og endi á að hoppa með per­sónuna mína fram af kletti. Þá tekur við nýr skjár þar sem allur leikurinn þarf að hlaðast aftur inn. Þetta er ó­þolandi fyrir klaufa eins og sjálfan mig.

Annar hluti af spila­mennskunni sem ég skil ekki í leiknum eru allir hlutirnir sem hægt er að safna í honum. Maður getur fundið mis­munandi vesti, arm­bönd og annað þess háttar til að bæta per­sónuna sína. Svo safnar maður reynslu­stigum, til þess að læra ný brögð. Ég kannast við hið síðar­nefnda úr Spi­der­man tölvu­leiknum og hef ekki margt út á það að setja.

Bardagakerfi leiksins er skemmtilegt en verður þó fljótt eflaust þreytt.
Fréttablaðið/Skjáskot

Þetta með að safna dóti skil ég þó mjög lítið. Þetta kerfi heillar að minnsta kosti ekki spilara eins og mig sem vilja bara spila leikinn í gegn á auð­veldu erfið­leika­stigi, til þess að geta gleypt í sig söguna.

Ef til vill tengist þetta fjöl­spilunar­hluta leiksins, sem á ein­hvern ó­út­skýran­legan hátt virðist vera stór hluti leiksins. Ég er al­mennt hrifinn af fjöl­spilun, þó aðal­lega ef það er Call of Duty eða eitt­hvað þess háttar. Hér skil ég ekki neitt.

Niður­staða:

A­ven­gers tölvu­leikurinn er stór­skemmti­legur og munu að­dá­endur Mar­vel mynda­sagnanna geta gleypt gripinn í sig eins og um væri að ræða guða­veigar Þórs sjálfs. Fyrir aðra gæti leikurinn þó verið frekar beisik, bar­daga­kerfið endur­tekningar­samt og fjöl­spilunin undar­leg.