„Ég hef aldrei drepið svona mikið af fólki eins og við gerum í þessari seríu af Svörtu söndum,“ segir Baldvin Z, sem er leikstjóri glæpaþáttanna Svörtu sanda, en hann skrifar einnig handritið ásamt aðalleikkonunni Aldísi Amah Hamilton og lögreglumanninum Ragnari Jónssyni.

„Þrátt fyrir það var tökutímabilið eitt það ljúfasta og yndislegasta sem ég hef tekið þátt í. Þegar maður vinnur með svona ótrúlega hæfileikaríku og skemmtilegu fólki sem leggur allt að veði, verður útkoman sturluð,“ segir Baldvin um þættina sem hefja göngu sína á Stöð 2 á jóladag.

Aldís Amah er bæði einn handritshöfundanna og fer með aðalhlutverkið.
Mynd/Juliette Rowland

Aldís Amah leikur Anítu, þrítuga lögreglukonu, sem hrekst til starfa á æskuslóðunum eftir að hafa verið neydd til að segja upp starfi sínu í Reykjavík.

Kolbeinn Arnbjörnsson leikur þorpslækninn Salomon sem kemur að rannsókn líkfundarmálsins sem á eftir að ganga mjög nærri Anítu.
Mynd/Juliette Rowland

Hún hefur ekki komið í þorpið, sem er orðið túristagildra, umkringd svörtum söndum, í fjórtán ár, en eftir að lík ungrar konu finnst á svæðinu, kemst hún að raun um að óumflýjanlegt uppgjör við móður hennar er síður en svo það versta sem býður hennar, þegar eltingaleikur við mögulegan raðmorðingja sogar hana ofan í myrkan hyl fortíðar.

Þór Tulinius er reffilegur sem lögreglustjórinn Ragnar.
Mynd/Juliette Rowland

Líkfundurinn virðist í fyrstu ekki tengjast neinu saknæmu, en þegar vinkona hinnar látnu finnst, hrakin og alblóðug í kjölfarið, tekur rannsókn Anítu, lögreglustjórans Ragnars, þorpslæknisins Salomons og lögregluteymisins á staðnum, aðra stefnu.

Ævar Þór Benediktsson leikur lögreglumanninn Gústa.

Á meðan rannsóknin vindur upp á sig endar Aníta í miðju eldheits ástarþríhyrnings og í ljós kemur að lögreglan á staðnum hefur ekki sinnt rannsóknum sem skyldi og málið tengist hugsanlega eldri málum og mögulegum fjöldamorðingja, þannig að fortíðaruppgjör Anítu breytist í martröð.

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir í hlutverki Elínar, móðurinnar sem Aníta getur ekki komið sér hjá því að gera fortíðina upp við.
Mynd/Juliette Rowland

Stöð 2 sendir fyrsta þáttinn, eins og áður segir, út á jóladag, en annar þáttur fylgir í kjölfarið strax á öðrum degi jóla.Auk Anítu eru Þór Tulinius, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, Ævar Þór Benediktsson og Kolbeinn Arnbjörnsson í helstu hlutverkum.

Þegar svartir sandarnir umhverfis æskuslóðir Anítu verða vettvangur glæps mögulegs raðmorðingja, snýst fortíðaruppgjör lögreglukonunnar upp í martröð.
Mynd/Juliette Rowland
Aníta og Ragnar gætu mögulega verið að eiga við raðmorðingja í Svörtum söndum.
Mynd/Juliette Rowland
Rannsókn morðmálsins vindur fljótt upp á sig og leiðir Anítu á háskalegar slóðir.
Mynd/Juliette Rowland