Banda­ríska leik­konan Eva LaRu­e getur loksins andað léttar eftir að elti­hrellir, sem gerði henni lífið leitt í heil tólf ár, var dæmdur í fangelsi.

„Við vitum loksins hver hann er,“ sagði Eva við NBC News en Eva er þekktust fyrir leik sinn í þáttunum All My Children og CSI: Miami.

Elti­hrellirinn, hinn 58 ára gamli James David Rogers, var á föstu­dag dæmdur í þriggja ára og fjögurra mánaða fangelsi, meðal annars fyrir hótanir og á­reitni, og þá verður hann á skil­orði í þrjú ár eftir að af­plánun í fangelsi lýkur.

Kvittaði undir með nafninu Freddie Krueger

Á­reitnin hófst árið 2007 þegar Evu og þá fimm ára dóttur hennar bárust hroll­vekjandi bréf í pósti. Sagðist sendandinn ætla að elta þær á röndum allt til dauða­dags. Undir bréfið var svo ritað nafnið Freddi­e Kru­eger sem er vísun í aðal­sögu­hetjuna í hryllings­myndunum Night­mare on Elm Street.

Bréfin héldu svo á­fram að koma til ársins 2015 þar sem sendandinn hótaði að nauðga, pynta og myrða þær mæðgur. Á­reitið á­gerðist og árið 2019 byrjaði James að hringja í skólann þar sem dóttir Evu stundaði nám og þóttist vera faðir hennar.

Rörið kom upp um hann

Eva reyndi hvað hún gat að forðast á­reiti mannsins, hún flutti á milli staða og fór um tíma til Ítalíu. Alltaf fann elti­hrellirinn þær mæðgur og voru þær á­vallt við­búnar hinu versta. Þær sváfu með vopn sér við hlið og voru alltaf með síma ná­lægt sér.

Banda­rísku al­ríkis­lög­reglunni tókst loksins að finna James með því að finna DNA-erfða­efni hans á bréfi sem hann sendi mæðgunum. Tókst rann­sak­endum að þrengja hringinn veru­lega og var James hand­tekinn eftir að DNA-erfða­efnið kom heim og saman við erfða­efni á röri sem hann hafði notað á veitinga­stað í Ohio.

Rogers var hand­tekinn í nóvember 2019 og hann játaði sök í málinu í apríl síðast­liðnum. Fangelsis­dómurinn var svo kveðinn upp á föstu­dag. Í fréttum banda­rískra fjöl­miðla kemur fram að Rogers hafi beðið Evu og nú tví­tuga dóttur hennar af­sökunar á hegðun sinni. Hann hefði verið lagður í ein­elti í æsku og verið beittur of­beldi.

Eva er sögð hafa tekið af­sökunar­beiðni hans góða og gilda en viðrað á­hyggjur sínar af því hvað myndi gerast þegar Rogers losnar úr fangelsi.