Marta María Jónasdóttir, betur þekkt sem Marta Smarta, og Páll Winkel, fangelsismálastjóri, hafa gert tilboð í glæsilega eign á Tjarnarbrekku á Álftanesi. Húsið er staðsett í nágrenni við Bessastaði og útsýnið er vægast sagt stórfenglegt.
Páll snýr því aftur á Álftanesið eftir tveggja ára fjarveru en parið seldi íbúð sína á Fossvoginum í síðasta mánuði.
Húsið á Álftanesinu er hannað af Hildigunni Haraldsdóttur arkitekt, sem bjó sjálf í húsinu um tíma, og Sveini Ásgeirssyni, vöruhönnuði. Allar einingar eru sérhannaðar og miða við auðvelda umgengni.

Besta útsýnið í bænum
Í húsinu er mikil áhersla lögð á að setja útsýnið í fyrsta sæti og er hægt að njóta fjallasýnar til Bláfjalla og Keilis í stofunni og úr eldhúsinu. Tengsl við varpsvæði fugla og hross á beit í nágrenninu gerir það að verkum að þar má njóta kyrrðar sveitarinnar, þrátt fyrir nálægð við höfuðborgarsvæðið.
Byggingin er tvískipt, inngangur er í glerskála sem tengir húsin. Annars vegar er steinhús með eldhúsi og stofum, hjónaherbergi með fataherbergi og baði, forstofuherbergi með snyrtingu/baði og bifreiðageymsla. Í hjónaherbergi er steypt rúm með hitalögn. Hins vegar er timburhús sem má nota á margvíslegan hátt í tengslum við aðalhús eða sem sjálfstæða einingu.
Húsið umlykur góða verönd sunnan húss, þar er steyptur heitur pottur og vaðlaug. Vatnið myndar lygnan "foss" frá pottinum, kólnar og er hæfilega volgt fyrir börnin í vaðlauginni.






