Marrið í stiganum eftir Evu Björgu Ægisdóttur er ein af fimm bestu glæpasögum októbermánaðar í Bretlandi að mati The Times. „Þessi framúrskarandi fyrsta skáldsaga Evu Bjargar er ekki aðeins safarík ráðgáta heldur líka hrollvekjandi lýsing á því hvernig skrímsli verða til. Ef það er einhver boðskapur í sögunni þá er hann sá að alvöru illska leynist „ekki í myrkum hornum heldur í manninum sjálfum. Hið hrjóstruga landslag og óseðjandi marflær, válynd veður og fögur náttúruviðundur, virðast gera það alveg helvítlegt að búa á Íslandi. Engin furða að glæpasögurnar sem spretta þaðan eru þær myrkustu af öllum myrkum.“

Gagnrýnandi Financial Times skrifaði á dögunum: „Við erum vön því að íslenskir rithöfundar skapi hroll – í fleiri en einum skilningi – og Eva Björg Ægisdóttir sýnir hér og sannar að hún er jafn mikill snillingur í þessari kuldalegu list og starfsbræður (og -systur) hennar. Elma er ógleymanleg og flókin persóna.“

Eva Björg hlaut fyrst allra glæpasagnaverðlaunin Svartfuglinn fyrir Marrið í stiganum en það eru Yrsa Sigurðardóttir og Ragnar Jónasson sem standa að þeim í samvinnu við útgefanda sinn Veröld.

Marrið í stiganum er tilnefnt sem besta frumraunin og besta sjálfstæða röddin í Bretlandi árið 2020 en það eru útgáfuhluti Amazon-samsteypunnar og Capital Crime-glæpasagnahátíðin í London sem standa að verðlaununum. Marrið er eina þýdda glæpasagan í flokkinum frumraun ársins. Þá er Mistur eftir Ragnar tilnefnd sem glæpasaga ársins. Lesendur hafa síðasta orðið um það hver hlýtur verðlaunin í einstökum flokkum.