Móðurmál hefur boðið upp á móðurmálskennslu í fleiri en tuttugu tungumálum fyrir fjöltyngd börn síðan 1994. Sjálfboðaliðar og foreldrar hafa unnið stærstan hluta af þeirri dýrmætu vinnu sem samtökin standa fyrir,“ segir Jurgita Milleriene, varaformaður Móðurmáls, en markmið samtakanna er að þróa faglega móðurmálskennslu með tungumálanámskrá og skýrum markmiðum.

„Að læra nýtt tungumál er ekki það sama og að læra sitt eigið móðurmál. Börn þurfa að hafa grunn í sínu móðurmáli til að geta byggt þar ofan á önnur tungumál. Ef þessi grunnur er ekki til staðar reynist erfitt að læra annað tungumál,“ segir Jurgita.

Móðurmál er góðu í samstarfi við SAMFOK og Heimili og skóla og segir Jurgita það mjög dýrmætt. „Við viljum að samtökin heyrist og sjáist. Við viljum ekki vera lokaður hópur heldur starfa með foreldrum, kennurum, skólum, öðrum samtökum og menntamálaráðuneytinu. Þá er hlutverk heimilanna þegar kemur að móðurmálskennslu mjög mikilvægt. Það eru þau sem þurfa að taka afstöðu til þess hvernig þau vilja viðhalda móðurmáli erlendra barna sem búa á Íslandi. Kennarar spila einnig stórt hlutverk og geta leiðbeint foreldrum og börnum,“ segir Jurgita, sem stofnaði Litháíska móðurmálsskólann árið 2004.

„Ég á þrjú börn sem hafa öll fengið markvissa kennslu í litháísku, sínu móðurmáli, og þau hafa einnig náð mjög góðum tökum á íslensku og hlotið verðlaun fyrir. Það er ekki nóg að tala tungumálið heima fyrir heldur verður að kenna börnum það markvisst, bæði með því að kenna þeim málfræði og auðga orðaforða þeirra,“ segir Jurg­ita en hún er grunnskólakennari við Háaleitisskóla við Ásbrú.

Hún segist almennt vilja sjá meiri stuðning við börn sem hafa annað móðurmál en íslensku. „Á hinum Norðurlöndunum er farandkennari sem fer á milli skóla og kennir börnum þeirra móðurmál. Það hefur gefist mjög vel og ég myndi vilja sjá slíkt starf hérlendis líka.“

Nánari upplýsingar má sjá á heimasíðunni www.modurmal.com

Greinin birtist fyrst í sérblaði Heimili og skóla sem fylgdi Fréttablaðinu 13. september 2018.