Sigga Dögg kynfræðingur er hluti af teyminu en hún sinnir kynfræðslu vítt og breitt um landið og er orðin ansi vel kunnug því sem unglingar upplifa og velta fyrir sér. Hún segir að þar spili netið og samfélagsmiðlarnir stóra rullu.

„Það er á allra vörum að sífelldur samanburður á samfélagsmiðlum getur haft neikvæð og skaðleg áhrif fyrir sjálfsmyndina, sérstaklega hjá ungu fólki,“ segir hún og bætir við að þetta efni hafi einmitt verið mörgum íslenskum háskólanemum hugleikið og til séu þó nokkur lokaverkefni þar sem þessi málefni eru könnuð. Niðurstöðurnar segir hún vera allt annað en jákvæðar. „Auðvitað er margt frábært við samfélagsmiðla og sítenginguna, eins og flestir þekkja, en dökku hliðarnar eru til staðar og þær þarf að tækla og því ætlum við af stað með þetta verkefni.

Við erum að útbúa fræðslu um sjálfsmynd, birtingarmynd kynjanna, sexting, klám, kynlíf, stafrænt kynferðisofbeldi og netið fyrir foreldra, og námsefni fyrir nemendur, en bæði foreldrar og kennarar hafa kallað eftir slíku efni. Markmið okkar er að vera ákveðið mótvægi við raunveruleikann eins og hann blasir við unglingum í dag, og reyna að styrkja sjálfsmynd þeirra og gefa þeim verkfæri til að takast á við sjálfa sig og aðra í netheimum. Það þarf að skerpa á samskiptareglum og þessi vinna hefur svo víðtæk áhrif á annað sem þau eru að glíma við, hér erum við að vinna í grunninum.“

Fræðsluefni til foreldra verður dreift í alla grunnskóla landsins og það gert aðgengilegt á netinu. Námsefni fyrir nemendur verður sömuleiðis dreift í grunnskóla landsins, annars vegar sem sérhannaðri námseiningu, ásamt leiðbeiningum fyrir kennara, og hins vegar sem hluta af fræðsluerindi SAFT, sem ferðast um landið ár hvert og flytur erindi um jákvæða og uppbyggilega netnotkun. Verkefnið hlaut styrk frá Lýðheilsusjóði. Þetta er stórt og mikið verkefni sem tekur til margra þátta sem oft hafa verið í umræðunni, líkt og klám.

„Klám á netinu er eitt af þessum stóru áhyggjuefnum foreldra, og réttilega, það er mikið framboð af klámi á netinu, og það þarf að brýna fyrir börnum og unglingum að klám og kynlíf eiga illa saman. Eina leiðin til að gera það er með því að rífa klám í sundur og kenna þeim hvað felst í raunverulegu kynlífi með sjálfum sér og annarri manneskju og það gerum við einna helst með því að kenna á samþykki og að setja mörk, og virða mörk, bæði sín og annarra,“ segir Sigga Dögg.

Greinin birtist fyrst í sérblaði Heimili og skóla sem fylgdi Fréttablaðinu 13. september 2018.