Bakstursáhugi Svandísar Nönnu Pétursdóttur kom að eigin sögn eins og þruma úr heiðskíru lofti. Hún hefur í skamman tíma haldið úti bakstursþáttum á Instagram undir heitinu Viltu með mér baka, en þar bakar hún kökur og annað góðgæti með þriggja og hálfs árs syni sínum, Mikael Leó.

„Ég hef alltaf haft áhuga á að borða annarra manna kökur en gat ekki fyrir mitt litla líf bakað annað en Betty Crocker-kökur. Þegar ég eignaðist eldri strákinn minn, Mikael Leó, þurfti ég að taka út allar mjólkurvörur á meðan hann var á brjósti. Ég var sjúk í kökur á þessum tíma en mátti varla borða neinar kökur því þær innihéldu flestar mjólkurvörur.“

Mikael Leó skreytir bollur fyrir bolludaginn og vandar sig mikið.

Fyrsta kakan tókst vel

Hún hóf því að horfa á kökumyndbönd og hugsaði með sér að þetta væri nú ekki svo flókið.

„Svo ég pantaði fullt af bakstursvörum á Amazon áður en ég hafði prófað að baka eina einustu köku. Næsta skref var að horfa á fullt af myndböndum og í fyrsta skipti sem ég skreytti köku kom það virkilega vel út, þó ég segi sjálf frá. Síðan varð ég ólétt að yngri stráknum mínum, Maroni Hersi, í fæðingarorlofinu og þá var lítið annað að gera en að baka. Í dag er ég í félagsráðgjöf í Háskóla Íslands og líkar virkilega vel við námið. Svo baka ég inni á milli skóla og lærdóms.“

Mikael er duglegur að læra. Verðandi bakarasveinn.

Flest allt fyndið

Hún var búin að velta fyrir sér hugmyndinni að matreiðsluþáttunum í smá tíma en fjölskyldunni hefur alltaf fundist gaman að fíflast saman og gera skemmtileg myndbönd.

„Mikael Leó er fullkominn bakstursfélagi. Hann er stórskemmtilegur karakter og er kominn á þann aldur að flest allt sem hann segir er fyndið þar sem hann er að uppgötva heiminn og pælir mikið í öllu. Svo finnst honum svo gaman að baka með mér að við ákváðum einn daginn að taka það upp, sem kom mjög skemmtilega út.“

Það kom henni á óvart hvað myndböndin hafa náð miklum vinsældum.

„Ég hélt að aðeins nánir ættingjar og vinir myndu hafa gaman af þeim en það er fullt af fólki sem horfir sem þekkir okkur ekki. Það kom mér skemmtilega á óvart og hvetur okkur til þess að halda áfram að baka saman.“

Glæsilegt bakkelsi hjá bakarameisturunum. Ekki amalegt að bera svona fallegar kökur á borð fyrir gesti.

Duglegur að smakka

Þættirnir eru um 3–5 mínútna langir og fylgja engu föstu formi.

„Kærastinn minn klippir þættina til þar sem baksturinn gengur yfirleitt ekki áfallalaust fyrir sig. Mikael er duglegur að smakka á hverju einasta hráefni sem fer í skálina, hvar sem er á ferlinu. Nýlega smakkaði hann til dæmis heila skeið af þurrum kanil sem endaði ekkert allt of vel. Yngri sonurinn, sem er að verða tveggja ára, er líka duglegur að kíkja á okkur og er mjög forvitinn um það sem er í gangi. Það endar þó yfirleitt með því að hann rústar öllum eldhússkápum á meðan og ruslar til.“

Það er alltaf líf og fjör í eldhúsinu.

Nóg að gera

Markmiðið er að senda frá sér nýjan þátt í hverri viku en það reynist oft snúið á fjörugu heimili, auk þess sem það er nóg að gera í náminu.

„En við ætlum að halda áfram að baka saman og birta myndböndin á Instagram reikningnum mínum, @svandisnp. Það er líka virkilega skemmtilegt að eiga þessi myndbönd í framtíðinni. Auk þess er ég með Facebook-síðuna Tækifærisbakstur Svandísar þar sem ég tek við pöntunum á ýmsum kökum við ólík tækifæri.“

Skemmtilegar stundir

Hún hefur engin sérstök framtíðarplön fyrir þáttinn enda er hann fyrst og fremst gerður til gamans fyrir þau tvö.

„Þannig náum við skemmtilegum stundum saman þar sem við fáum að tengjast enn betur í gegnum baksturinn. Eina markmið okkar er að skemmta okkur vel saman og vonandi skemmta einhverjum fleiri í leiðinni.“