Þær stöllur ætla að standa fyrir Heilsustefnumóti sem er nýjung og hefst það föstudaginn 19.nóvember næstkomandi á Hótel Volcano í Grindavík. Frá árinu 2006 hefur Herborg haft mikinn áhuga á heilsusamlegu mataræði, þá sérstaklega þegar kemur að mataræði barna. Herborg er fyrrverandi rekstrarsérfræðingur skólamötuneyta Reykjavíkurborgar þar sem hún var hluti af teymi sem innleyddi næringarútreiknaða matseðla í leik- og grunnskólum. Eftir að hafa unnið hjá Reykjavíkurborg þá fór Herborg í samstarf með Sölufélagi Garðyrkjumanna þar sem að hennar draumur var að tryggja að börn í leik- og grunnskólum væri boðin besta mögulega fæðan með að auka hlut íslenskra afurða á borðum íslenskra barna, með áherslu á íslenskt grænmeti, einnig var stór hluti af verkefninu að minnka matarsóun og fækka kolefnisfótsporum. „Það skiptir svo miklu máli að nálgast heilsusamlegt mataræði á jákvæðan hátt, því jú það er gaman að borða góðan mat - hvað þá hollan mat sem gerir okkur gott,“segir Herborg en hún deilir þessu áhugamáli með Guðrúnu Margréti vinkonu sinni sem var ein af stofnendum Maður lifandi. Hún kynnti hana fyrir Margréti Leifsdóttur sem er sú færasta þegar kemur að hollu mataræði án allra öfga og sem er auðvelt að tileinka sér. 

Hreint fæði í 10 daga

Margrét hefur haldið námskeið í 10 daga hreinu mataræði nokkrum sinnum á ári í um 10 ár. Þátttakendur eru orðnir á bilinu 1500 - 2000 manns og árangurssögur um bætta heilsu og betri venjur óteljandi. „En það sem er nýtt á þessu námskeiði er að við ætlum að byrja á að taka fyrstu tvo dagana saman á Hótel Volcano í Grindavík. Með því er hægt að veita meiri stuðning og skapa meiri stemningu og samkennd á námskeiðinu,“segir Margrét. Margrét brennur fyrir heildrænni heilsu og það er ekki bara næring í formi fæðu sem skiptir máli heldur líka önnur næring eins og samskipti, svefn, hreyfing og fl. „Á heilsustefnumótinu ætlum við að skoða alla þessa þætti og hjálpast að við að ná árangri. Því í raun vita allir hvað þeir þurfa að gera til að bæta heilsuna en vantar kannski hvetjandi umgjörð til að taka fyrstu skrefin. Þessa umgjörð veitum við á heilsustefnumótinu.“

Ekki mergunarkúr heldur æfingabúðir í heilsusamlegum lífsstíl

Segi okkur aðeins frá Heilsustefnumótinu sem þið eruð að bjóða á hótel Volcano í Grindavík og hugmyndafræðinni bak við það? „Hugmyndin að Heilsustefnumótinu vaknaði þegar við heyrðum úr ýmsum áttum að fólk var að óska þess að það væri auðveldara að breyta um lífsstíl og borða hollan mat. Mörgum finnst fyrstu skrefin erfið og eftir margra mánaða vinnu heima, þá erum margir búnir að koma sér upp slæmum venjum sem erfitt er að breyta. Okkur langaði að hjálpa þessum hópi að koma sér af stað með því að fara út úr sínu venjulega umhverfi og amstri dagsins, læra að meðhöndla og elda litríkan og fjölbreyttan mat, og ekki síst að hitta annað fólk sem hefur líka áhuga á að breyta venjum sínum og búa til stuðningshóp. Á 10 dögum upplifa þátttakendur hvaða áhrif heilsusamlegt mataræði hefur á heilsuna en auk þess fá þeir tæki og tól til að nota áfram. Námskeiðið er ekki megrunarkúr, heldur frekar æfingabúðir í heilsusamlegum lífsstíl þar sem áhersla er lögð á að allir séu saddir og sælir. Grindavík hentar mjög vel fyrir svona námskeið, fagurt umhverfi og stutt að koma frá höfuðborgarsvæðinu.“ 

FBL hafragrautur.jpg

Girnilegur og heilsusamlegur hafragrautur./Ljósmynd aðsend

Kvöldverður í kósífötum

Hvernig fer námskeiðið fram í grófum dráttum? „Námskeiðið byrjar um leið og þátttakandinn skráir sig og því er best að gera það sem fyrst. Allir þátttakendur fá undirbúningspakka með upplýsingum um námskeiðið, hvernig á að trappa sig niður sig fyrir heilsustefnumótið og hvað skiptir máli til að árangur náist á þessum 10 dögum. Föstudaginn 19. nóvember hittumst við á hótel Volcano, borðum saman kvöldmat og Margrét Leifs heldur upphafspeppfund fyrir námskeiðið, hópurinn kynnist og við förum saman í gegnum dagskrá helgarinnar. Þar sem þetta er 10 daga ferðalag þá leggjum við áherslu á að við förum þetta saman,“segir Herborg. Á laugardeginum og sunnudeginum er matreiðslunámskeið sem hefst eftir að allir hafa fengið morgunverð samkvæmt matarplaninu. „Við munum skipta í hópa og allir taka þátt í að elda mat sem við borðum síðan saman. Við leggjum áherslu á að það er einfalt að breyta um líffstíl án allra öfga og að það sé spennandi að læra að elda rétti úr nýstárlegu hráefni. Á laugardagskvöldinu verður kvöldverður í kósífötunum en lögð verður áhersla á vellíðan í alla staði. Líkamsvitund, slökun og hugleiðsla verður því líka hluti af námskeiðinu, við munum fara í stutta göngu og þau sem vilja geta farið í sund. Við þurfum að næra hugann ekki síður en líkamann. Áður en allir fara heim á sunnudeginum munum við fara saman í Nettó þar sem farið verður yfir innkaupalistann og þátttakendur fá aðstoð við innkaup ef þeir óska þess,“segja þær stöllur Herborg og Margrét. Fá þátttakendur allt hráefni hjá ykkur fyrir matreiðslunámskeiðið? „Námskeiðið er 10 dagar en allur matur á heilsustefnumótinu sem fram fer um helgina er innifalinn í námskeiðsgjaldinu. Eftir helgina kaupa þátttakendur sjálfir það sem þarf fyrir þá 8 dagana sem eftir eru.“

heilsusafar.jpg

Uppbyggilegt heilsupartý

Markmiðið með heilustefnumótinu er skýrt. „Að þátttakendur fari fullir af góðri orku, gleði og vellíðan inn í desember mánuð með verkfæri sem nýtast þeim til framtíðar. Auka meðvitund og gera þátttakendum það auðvelt að lifa heilsusamlegu lífi. Það er gott að núllstilla líkamann og læra hvaða matur gerir manni gott. Þegar þátttakendur hafa upplifað betri líðan þá er alltaf líklegra í að þeir sæki í hana aftur. En mikilvægast af öllu er að hafa gaman og dekra aðeins við okkur á heilsusamlegan hátt í góðum hópi. Við getum kallað þetta jákvætt og uppbyggilegt heilsupartý þar sem við rífum upp orkuna og gleðina.“ Skiptir umhverfið máli þegar við förum á svona námskeið eins og þetta? „Nærandi umhverfi skiptir miklu máli þegar maður ætlar að gefa sér tíma fyrir heilsustefnumót með sjálfum sér. Bæði erum við í fögru umhverfi í Grindavík og í góðum félagsskap. Þetta er umhverfi sem hvetur til slökunar og dregur okkur út úr okkar daglega amstri. Reykjanesið er magnað svæði og þar er mikil orka í kringum nýafstaðið eldgos.“

Við erum það sem við borðum

Er hægt að breyta um lífsstíl til hins breyta með því að huga að mataræðinu? Við erum það sem við borðum! Matur tengist okkur á svo margan hátt tilfinningalega og við þurfum að læra hvernig við hugsum um hann. Til að ná langtímaárangri í bættri heilsu þá er mataræði og grunnnæringin, hvernig við tölum við okkur sjálf, lykillinn. Þetta er það sem okkur langar að skoða með þátttakendum og hvernig við búum til nýjar venjur,“segir Margrét sem hefur áralanga reynslu af námskeiðum sem þessum. Skiptir hreyfing máli samhliða því að breyta mataræðinu? „Hreyfing skiptir alltaf miklu máli, hún eykur dópamín framleiðslu í líkamanum og eykur gleði. Þegar við erum glöð þá verða allar breytingar auðveldari.“

Hver ykkar reynsla að því að vera á hreinu fæði, fyrir líkama og sál? „Okkar reynsla er sú að það að gefa líkamanum besta mögulega bensín þá geta gerst undursamlegir hlutir eins og; minni bólgur, minni verkir, betri svefn, meiri orka, betri einbeiting, fallegri húð, betri melting, betri andleg líðan og svo mætti lengi telja. Það er í raun alveg magnað langflestir finni jákvæðan mun á heilsunni á einungis 10 dögum á hreinu mataræði. Auðvitað er það mismikið og fer eftir einstaklingnum en allir finna eitthvað. Sumir finna út að þeir þola ekki mat sem þeir hafa alltaf borðað.“ 

Er auðvelt að nálgast hráefni til að stuðla að heilbrigðu líferni og vera á hreinu fæði? „Á síðustu árum hefur framboð og góðu hráefni aukist og flestar verslanir bjóða í dag upp á frekar gott úrval af hreinu fæði. Maður þarf að læra að lesa innihaldslýsingar og það sem maður kann er auðvelt! Þess vegna er svo gott að byrja þessa 10 daga saman þar sem við erum á rólegan og yfirvegaðan hátt að læra saman, búa til ljúffenga rétti, slökum á og skemmtum okkur í leiðinni.“

Það eru örugglega margir sem hugsa að það sé gott að byrja svona námskeið í janúar, en þær Herborg og Margrét segja að nú er rétti tíminn. „Með því að taka sig í gegn fyrir desember þá fer maður í gír sem hjálpar manni að sökkva ekki eins djúpt í sukkið í desember. Með því að vera meðvitaðri um mataræðið í desember þá verður janúar mánuður miklu léttari og auðveldara að koma sér í heilsugírinn aftur.“