Streymis­þættirnir Rauð­vín og klakar með Stein­þóri Hróar i Stein­þórs­syni, einnig þekktum sem Steinda Jr., og fé­lögum hans, þar sem þeir streyma tölvu­leikja­spili sínu í beinni, hefja göngu sína í kvöld.

„Öll mið­viku­dags­kvöld mun ég, á­samt góðum fé­lögum, streyma okkur að spila tölvu­leiki í beinni. Mark­miðið er að skemmta nördum þjóðarinnar. Í stuttu máli þá höfum við allir spilað tölvu­leiki frá því við vorum krakkar. Við erum allir enn þá að spila tölvu­leiki. Það er smá gaman að segja frá því að ég er 35 ára og er yngstur í hópnum,“ segir Steindi og hlær.

„Það er svo sem lítið að marka þar sem Ólafur Þór Jóhanns­son er elsti nú­lifandi Ís­lendingurinn. Hann er eldri en tíminn. Hann er búinn að vera í þessum geira frá því þeir yngstu voru að leira,“ bætir Steindi við.

Skemmti­legur vett­vangur

Þegar fyrri bylgja CO­VID skall á tók Steindi sig til og fékk fé­laga sína með í að streyma spilinu á Twitch, sem er vef­síða þar sem tölvu­leikja­spilarar gera fólki kleift að fylgjast með fram­göngu sinni.

„Á þessum tíma var smá­drungi og al­menn leiðindi í þjóð­fé­laginu. Ég var mikið heima að spila tölvu­leiki og drekka rauð­vín. Þannig að ég á­kvað að spila Call of Duty og Warzone í beinni. Ég fann gamla PlaySta­tion-mynda­vél og henti mér í þetta. Þetta er svo ó­trú­lega skemmti­legur vett­vangur, allt öðru­vísi en allt sem ég hef verið að gera áður,“ segir Steindi.

Hann segir það ein­kenna sér­stak­lega streymi­formið að maður fái frelsi til að vera maður sjálfur.

„Það er enginn rembingur í þessu. Við spjöllum jafn­óðum við á­horf­endur, þetta er eins per­sónu­legt og þetta verður. Þá eru á­horf­endur kannski að hjálpa okkur að ná sigri í leiknum og svo er baunað á okkur ef við stöndum okkur illa,“ segir hann.
Þegar hug­myndin kom fyrst, var hann ein­mitt að drekka það sem hann kallar sinn ein­kennis­drykk, rauð­vín með klökum.

„Smá svona eins og James Bond er með hristan en ekki hrærðan martíní, þá er ég með rauð­vín með klökum.“

Hann segist ekki vera mikið snobbaður þegar kemur að því að velja vínið.

„Ég vel nú yfir­leitt bara f löskur á á­gætis verði. Ég drekk eigin­lega bara allt rauð­vín, hvort sem það er í fínni kantinum eða í belju. Ég á nokkrar upp­á­halds­tegundir en það er ein­mitt eitt­hvað sem ég stefni á að gera, ég ætla að smakka mis­munandi tegundir og gefa þeim dóma.“

Kynnast á­horf­endum

Steindi segist hafa kynnst mörgum af góðum vinum sínum í gegnum tölvu­leikja­spil.

„Ég spilaði með tveimur fé­lögum mínum, sem ég kynntist í gegnum PlaySta­tion, í heilt ár áður en ég hitti þá. Maður kynnist svo fjöl­breyttum hópi af fólki í gegnum þetta. Annar þeirra er golf­kennari og hinn er bif­véla­virki. Við vorum orðnir vinir á Face­book og þannig. Síðan var ég að frum­sýna seríu af Draumnum og ég bauð þeim að koma. Ég var spenntari að hitta þá en að sjá þættina,“ segir hann hlæjandi.

Hann segir megin­til­gang þáttanna vera að hafa gaman.

„Ég geri mér grein fyrir því að fáir stilli inn til að fylgjast með ein­hverjum gæða­spilurum. Þetta snýst meira um að hafa nota­lega kvöld­stund þar sem stór hópur kemur saman, spjallar og spilar tölvu­leiki. Okkur langar að hafa þetta smá per­sónu­legt og til að kynnast á­horf­endum. Það væri gaman ef það myndaðist ein­hver kjarni sem fylgdist með í hverri viku. Þetta þarf ekki að verða vin­sælasti þáttur landsins, við viljum bara endi­lega fá góðan hóp. Og svo er um að gera, fyrir þá sem eru komnir með aldur til, að opna eina rauða og fá sér með okkur. Ekki spurning,“ segir Steindi.

Þættirnir hefjast í kvöld klukkan 21.00. MYND/GABRÍEL BACHMAN