Um þessar mundir leita aðstandendur alþjóðlega rannsóknarverkefnisins Svefnbyltingin að þátttakendum á aldrinum 18 til 40 ára í lífsstílsrannsókn sem miðar að því að finna nýja nálgun til að meðhöndla hrotur og vægan kæfisvefn með breytingum á lífsstíl.
Svefnbyltingin er alþjóðlegt rannsóknarverkefni sem hlaut Horizon 2020 styrk frá Evrópusambandinu en um er að ræða fjögurra ára rannsóknarverkefni sem hófst á síðasta ári, segir Katrín Ýr Friðgeirsdóttir, doktorsnemi við íþróttafræðideild Háskólans í Reykjavík (HR) og þátttakandi í Svefnbyltingunni sem hefur höfuðstöðvar í HR.

„Rannsóknarverkefnið hefur það að markmiði að umbylta greiningaraðferðum og meðferðarúrræðum við kæfisvefni og öðrum svefnháðum öndunar­trufl­unum. Umbyltingin felur meðal annars í sér að gera greininguna og meðferðina notendavænni og persónulegri, en einnig er stefnt að því að greiningarferlið verði ódýrara fyrir heilbrigðiskerfið og að stytta biðtíma sjúklinga eftir greiningu og meðferð,“ segir Katrín sem jafnframt er fyrsti doktorsneminn við íþróttafræðideild HR.

Vilja finna nýja nálgun

Hópurinn leitar að fólki á aldrinum 18 til 40 ára af öllum kynjum til að taka þátt í lífsstílsrannsókninni, segir Katrín. „Inntökuskilyrðin eru að viðkomandi sé með líkamsþyngdarstuðul (BMI) yfir 25, stundi ekki reglulega hreyfingu, hrjóti eða sé með sterkan grun um kæfisvefn. Þeim sem hafa áhuga á að taka þátt í rannsókninni er bent á vefsíðu Svefnseturs Háskólans í Reykjavík, svefnsetrid.ru.is.

Katrín segir lífsstílsrannsóknina hafa það að markmiði að finna nýja nálgun til að meðhöndla hrotur og vægan kæfisvefn með breytingum á lífsstíl. „Meðferðarmöguleikar við vægum kæfisvefni eru takmarkaðir. Meðferðin felur oftast í sér almennar ráðleggingar, svo sem að léttast eða hætta að reykja, en þessar ráðleggingar eru ekki staðlaðar. Markmiðið er því að þróa staðlaða lífsstílsáætlun til að minnka einkenni hrota/vægs kæfisvefns og þar með bæta heilsufar og auka lífsgæði einstaklinga.“

Rannsóknir sýna að um fjórðungur fullorðinna Íslendinga sofi of lítið eða sex klukkustundir eða minna á nóttu. FRÉTTABLAÐIÐ/GETTY

Tekur tólf vikur

Þátttaka í rannsókninni felur í sér nokkrar heimsóknir í HR yfir tólf vikna tímabil, þar sem hluti gagnaöflunar fer fram. „Í HR eru gerð taugasálfræðileg verkefni, mælingar á líkamssamsetningu og líkamlegu atgervi ásamt uppsetningu á snjallúri og rafrænni svefndagbók.

Þátttakendur sofa heima með svefnbúnað, svara svefndagbók og spurningalistum, gera taugasálfræðileg verkefni í símanum og í tölvu auk þess að ganga með snjallúr í tólf vikur. Í þátttöku felst því ástandsskoðun á svefni og líkamlegum og hugrænum þáttum sem þátttakendur fá aðgang að í lok rannsóknar.“

Margir sofa of lítið

Of lítill svefn hrjáir of margar Íslendinga, segir Katrín. „Flestir fullorðnir einstaklingar þurfa að sofa á bilinu 7 til 9 klukkustundir. Rannsóknir sýna að um fjórðungur fullorðinna Íslendinga sofi of lítið, eða sex klukkustundir eða minna á nóttu. Þegar við berum okkur saman við löndin í kringum okkur eru ekki vísbendingar um að Íslendingar sofi minna en aðrar þjóðir. Hins vegar eru vísbendingar um það að svefntími Íslendinga sé seinni en hjá fólki í löndunum í kringum okkur. Líkleg skýring er staðsetning Íslands og misræmi milli staðartíma og sólartíma og mögulegir menningarþættir.“

Stefnt er að því að kynna niðurstöður rannsóknarinnar innan rannsóknartímabilsins, eða fyrir lok árs 2025.