„Við fórum saman tæplega tuttugu manns frá Breiðabliki, en það voru alveg hátt í hundrað Íslendingar skráðir í þetta hlaup,“ segir Hafþór. Sjálfur var Hafþór að hlaupa sitt áttunda maraþon. „Ég hef hlaupið fjögur heil maraþon og svo fjórum sinnum þreytt Iron man-þríþraut.“

Hljóp með ananas á höfðinu

Það var gríðarleg stemning í hópnum að sögn Hafþórs og kláruðu allir í hópnum sitt hlaup. „Sumir skráðu sig í heilt maraþon, aðrir í hálft og sumir tíu kílómetra. Flestir voru að fara sitt fyrsta maraþon fyrir utan mig. Það tóku allir keppendur þetta á sínum hraða og voru menn að klára heilmaraþonið á allt frá þremur tímum upp í fimm og hálfan. Sumir hlupu með símann og tóku myndir og myndbönd fyrir samfélagsmiðla á meðan aðrir voru bara í sóninu og einbeittu sér að malbikinu. Við hlupum í miðborg Kaupmannahafnar. Það var rosa stemning, fólk á hverju horni að hvetja, tónlist og sápukúlur. Það var einn, ekki úr okkar hóp, sem hljóp maraþonið með alvöru ananas á höfðinu og var sérstakt takmark okkar Blika að vera á undan ananasmanninum,“ segir Hafþór og hlær.

Hafþór segir það afar gefandi að þjálfa hlaupahóp Breiðabliks.
Mynd/Aðsend.

Klofuðu skafla í vetur

„Við hófum æfingar fyrir hálfu ári síðan og gerðum plan strax eftir skráningu sem var í desember í fyrra. Þetta var ansi snjóþungur vetur og við hlupum í alls konar veðrum. Eitt skiptið lentum við í að þurfa að klofa hnéháa skafla í 30 kílómetra hlaupi. Þetta tók á og tók sinn tíma en við náðum þó að taka nánast allar æfingar úti. Örsjaldan æfðum við inni á bretti eða á hlaupabraut.

Svona aðstæður eru náttúrulega gjörólíkar þeim sem voru svo í Kaupmannahöfn. Dagurinn byrjaði í sól og heiðskíru veðri með 14-15°C. Í lokin var komið upp í 18-19°C sem á íslenskan mælikvarða er ansi heitt að vori til. En maður er í staðinn bara duglegur að kæla sig og skvetta á sig vatni.“

Svaf yfir sig á keppnisdegi

„Í raun skiptir litlu máli hversu mikið maður reynir að skipuleggja allt í þaula, það er aldrei hægt að gera ráð fyrir öllu sem getur komið upp. Við hófum daginn öll saman eldsnemma í morgunmat klukkan hálf sjö en keppnin byrjaði hálf tíu. Eftir morgunmat hittust allir í anddyri hótelsins, komnir í hlaupagallann og stuðið og einhver spyr hvort það séu ekki allir á staðnum. Þá kemur í ljós að það vantar einn. Ég hringi í hann og hann svarar óttalega rámur í röddinni. Þá hafði hann sofið yfir sig af því hann hafði gleymt að stilla símann á danskan tíma, en Daninn er tveimur klukkutímum á undan Íslandi núna. Hann var ekkert að setja þetta óhapp fyrir sig enda alvanur því heima að skella í sig banana og lýsi og fara beint út að hlaupa. Ekta íslenskur sjómaður. Og það var það sem hann gerði. Hann tók í kjölfarið sitt fyrsta maraþon á þremur og hálfum tíma.

Sjálfur var ég að reyna við að ná ákveðnum tíma, þremur klukkustundum og fimm mínútum eða tíu mínútum. Eftir 28-30 kílómetra er klassískt að menn byrji að þreytast og það hægðist aðeins á mér. Sérstök blaðra sem menn nota til að stjórna hraðanum fór fram úr mér, en sú blaðra samsvaraði þriggja klukkustunda og tíu mínútna tímanum, sem er lágmark í Boston-maraþonið. Ég þurfti því að grafa ansi djúpt til að ná mínu takmarki. Það náðist blessunarlega og ég kom í mark á tímanum þrjár klukkustundir, níu mínútur og 25 sekúndur, sem vonandi skilar mér í Boston-lágmarkið. Ég er því mjög sáttur við minn tíma.“

Það fæðist enginn maraþonhlaupari

Hafþór mælir hiklaust með að fólk sem er að hlaupa á annað borð setji sér þetta markmið, að hlaupa maraþon. „Þó þetta hljómi óyfirstíganlegt þá geta flestir þjálfað sig upp í það. Flestir í hópnum sem fór með mér út mættu í byrjendanámskeið hjá Breiðabliki fyrir um tveimur árum. Þá voru margir að byrja að hlaupa þrjá eða fimm kílómetra. Svo stigmagnast þetta hjá manni. Það fæðist enginn maraþonhlaupari en það geta flestir æft sig upp í að hlaupa maraþon ef þeir hafa áhuga á því.“

Ítalía næst á döfinni

Breiðablik er alltaf með byrjendanámskeið á bæði vorin og haustin. „Þetta er alltaf fjölbreyttur hópur og það eru allir velkomnir til okkar. Við æfum öll saman, byrjendur sem lengra komnir, því það geta allir æft saman, þó svo hópurinn tvístrist aðeins. Þetta eru oft um 20-30 manns á hverju námskeiði fyrir sig og er hópurinn alltaf mjög samheldinn. Við höldum úti hlaupahópum allt árið um kring og ef fólk hefur áhuga, þá getur það alltaf mætt til okkar, þó svo það sé ekki byrjendanámskeið í gangi.

Eftir svona hlaupaferðir er svo haldin árshátíð. Síðasta föstudag hittumst við hópurinn, sem fór til Kaupmannahafnar, á árshátíð og slettum ærlega úr klaufunum. Planið er svo að fara til Ítalíu í haust eða haustið 2023, en sú ferð hefur verið á döfinni síðustu tvö faraldursár.“