Marie Kondo mætti í gær til spjalþáttastjórnandans Jimmy Kimmel þar sem hún aðstoðaði Kimmel við að taka til á skrifstofunni sinni, í vægast sagt fyndnu myndbandi. 

Kondo kannast eflaust flestir við úr Netflix þáttunum Tidying Up With Marie Kondo þar sem hún aðstoðar fólk við að taka til og eiga í heilbrigðara sambandi við föggur sínar.

„Ég neyði aldrei neinn til þess að henda neinu,“ byrjar Kondo á að segja við Kimmel sem grínast þá með að verkinu sé þá lokið. Þá hefjast þau handa og líkt og í þáttunum byrja þau á því að þakka fyrir skrifstofuna sína.

Það er magnað að sjá hve mikið dót sjónvarpsmaðurinn hefur á skrifstofunni sem hann hefur safnað síðastliðin sextán ár en allt fer þó nokkurn veginn vel að lokum.