María Birta vinnur mikið um jólin og er að sýna milli jóla og nýárs, svo það er ekki tækifæri á að koma til Íslands yfir hátíðirnar.

„Í staðinn kemur pabbi hingað þann 20. desember og verður yfir áramótin sem er náttúrulega æði. Hann er algjör jólasveinn,“ segir María Birta.

Aðspurð segir María hugsunina til jólanna þó vera öðruvísi eftir að dóttir hennar kom til sögunnar. „Mig langar mikið að starta okkar eigin hefðum, en að sjálfsögðu snúast jólin bara um að litla stelpan okkar hafi gaman og við njótum öll saman yfir hátíðirnar,“ segir María sem er búin að setja skóinn hennar út í gluggann svo að íslensku jólasveinarnir munu kíkja við ásamt þeim ameríska.

„Ég er búin að bóka jólamyndatöku fyrir alla fjölskylduna og svo verðum við að fara að fá mynd með jólasveininum. Ég er eiginlega spenntust fyrir því,“ segir hún.

Eitt jólatré á hverri hæð

Að sögn Maríu eru jólin í Las vegas yndisleg þar sem mikið er lagt í upplifanir allan mánuðinn.

Það er mjög mikið skreytt alls staðar og svo er alveg risa stór úti-jólabær fyrir utan eitt hótelið hérna sem við ætlum að kíkja á í vikunni. Svo er hægt að fara að skauta og fá heitt kakó á öðrum stað,“ segir María.

Hvernig er að undirbúa jólin með lítið barn?

„Ég er alveg ofboðslega afslöppuð með þetta allt saman. Það þarf ekkert allt að vera Instagram fullkomið, alveg langt því frá. En ég skreytti tréð í nóvember með snúlluna mína hangandi framan á mér svo það var mjög gaman og svo er ég búin að skreyta arininn og hengja upp jólasokkana, ekta amerískt.“

„Vinkonur mínar eru búnar að gera smá grín að mér því ég er búin að setja upp tvö jólatré, sem er auðvitað frekar amerískt líka, eitt tré á hverri hæð, en aðaltréð er upp í stofunni. Pakkarnir eru þar og svo er minna tréð í neðri stofunni. Núna á ég bara eftir að hengja upp ljósin úti og setja enn eitt tréð við útidyrahurðina og þá fer allt að smella því kransinn er kominn á sinn stað og jóla útidyramottan einnig.“

Fjölskyldan er búsett í Las Vegas þar sem María Birta starfar sem leikkona.
Fréttablaðið/Aðsend

Eins lengi sem það verður stöppuð sætkartafla á boðstólunum þá verð ég glöð

Vegan-veisla ala pabbi

Spurð hvað þau elda á aðfangadag segir María Ella vanalega töfra fram vegan veislu fyrir þau.

„Honum langar að slappa af í þetta skiptið og leyfa pabba mínum að taka yfir,“ segir María Birta: „Ég er alveg hræðileg í eldhúsinu svo ég kem ekki nálægt því.“

„Eins lengi og það verður stöppuð sætkartafla á boðstólnum þá verð ég glöð. Pabbi minn er einn besti kokkur sem ég þekki og hann er búin að vera að æfa sig mikið að elda vegan mat síðasta árið svo ég held þetta verði algjör veisla. Ég er allavega mjög spennt að smakka allt sem hann mun töfra fram, en ætli ég sé ekki spenntust að smakka risalamande sem pabbi segist vera búin að fullkomna vegan uppskrift að,“ segir hún glöð.

En pabbi Maríu hefur verið með þeim á Skype á jólunum síðastliðin ár og er hún því án efa alsæl að fá hann til sín.

Aldrei verið jafn spennt fyrir jólunum

„Ég er búin að hlusta stanslaust á jólalög síðan í byrjun nóvember svo ég er í alveg svaðalegum jólagír. Ég held ég hafi eiginlega aldrei verið svona spennt fyrir jólunum áður,“ segir María sem hlustar á George Winston yfir jólamatnum. „Það bara má ekki klikka.“

En María hefur ekki verið mikið jólabarn fram til þessa. „Ég hef vanalega ekki haft mikinn tíma til að njóta, en núna hef ég mikinn frítíma og er að njóta jólanna í botn,“ segir hún.

Hvað er eftirminnilegasta jólagjöfin sem þér hefur verið gefin?

„Elli gaf mér ofboðslega falleg málverk í fyrra og svo ferð til Taílands árið áður. þessar tvær gjafir eru án efa á toppnum.“