Með tilkomu Covid hafa spil í auknum mæli færst inn í tölvur og á netið og „fjarspil“ orðið veruleiki líkt og „fjarfundir“ í atvinnulífinu. Eitt breytist þó seint. Jólin eru mikill spilatími.

Stefán Jónsson kallar sig spilanörd. Hann hefur verið mikill spilamaður frá því að hann man eftir sér. Hann þykir einn helsti spilasérfræðingur landsins og hefur undanfarin ár starfað sem sölumaður og spilakennari í hlutastarfi hjá Spilavinum.

„Ég hef alltaf spilað mikið. Ég er úr Borgarfirðinum og þar spiluðum við mikið. Heima við spiluðum við bræðurnir mikið Kana, Manna og önnur klassísk stokkaspil, auk þess sem ýmis borðspil rötuðu inn á heimilið, en þau höfðu flest mun takmarkaðri líftíma en spilastokkurinn. Svo var félagsvistin alltaf vinsæl, og er enn,“ segir Stefán.

„Ég var kominn um eða yfir tvítugt þegar ég fór að spila borðspil og þess háttar að einhverju ráði. Þegar ég flutti til Reykjavíkur varð ég svo bara eins og húsgagn hjá Spilavinum. Spilavinir eru í grunninn verslun í Bláu húsunum, sem oftast eru kennd við Faxafen en tilheyra Suðurlandsbraut. En í raun og veru eru Spilavinir eins konar spilasamfélag. Eigendurnir, Svanhildur og Linda, hafa skapað mjög gott samfélag í kringum það allt saman.“

Stefán segir raunveruleg íslensk spil vera mjög fá. „Við erum með mörg spil sem hafa verið þýdd á íslensku og staðfærð en það er aðallega bara á síðustu árum sem komið hafa út íslensk spil, sem eru hönnuð og unnin hér á landi fyrir Ísland. Þau eru flest spurningaspil. Hér má nefna spilið Ísland og nýlega kom út spilið Evrópa. Þetta eru spurningaspil eftir Stefán Pálsson, sagnfræðing og spurningagúrú. Svo eru mörg íslensk partí-spil.“

Mikið spilað í Borgarfirði

Stefán Jónsson segir spil vera stóran hluta af jólunum og jólastemningunni, ekki síst hjá Borgfirðingum. „Í Borgarfirðinum spilum við félagsvist um hátíðarnar. Það er bæði jólavist og nýársvist. Þetta er mjög skemmtileg hefð. Í félagsvistinni kynnist maður fólki úr öllu héraðinu, fólki á öllum aldri. Hér áður fyrr kynntist fólk í héraðsskólanum eða sláturhúsinu, þessum stóru stöðum sem allir fóru á einhvern tíma. Nú er það allt búið. Núna er það helst í félagsvistinni sem kynslóðirnar hittast. Félagsvist snýst um svo margt annað en spilin, þetta er vettvangur þar sem fólk hvaðanæva úr héraði hittist og spjallar, og svo eru kaffið og kökurnar nauðsynleg.“

Stefán segir félagsstarf fyrir börn og ungmenni mun öflugra í dag en áður fyrr. Krakkar kynnist í skólanum og kominn sé menntaskóli á svæðið. Félagsvistin haldi hins vegar alltaf sínu og sé spiluð á nokkuð mörgum stöðum. Ekki megi heldur gleyma stærsta bridge-kvöldi ársins, Jólasveinatvímenningnum í Logalandi, sem sé samkomustaður Borgfirðinga. „Flest jól fengum við bræðurnir svo einhver spil í jólagjöf. Þetta voru iðulega þýdd spil á borð við Trivial Pursuit, Skrafl og Matador og Pictionary, en inn á milli leyndust þó íslensk spil eins og Ljóma Rallýspilið og New world, viðskiptaspilið.“

Stefán segir tímana breytta. „Þegar við vorum krakkar voru það börnin sem spiluðu, en í dag er þetta orðin miklu meiri fjölskyldustund. Í dag kemur fólk til að kaupa spil fyrir fjölskylduna vegna þess að hún vill spila saman. Þá þurfum við að spá í því hvernig fjölskyldumynstrið er. Er þetta pabbi, mamma og eitt barn? Eða eru þetta kannski 15 manns, fullt af börnum og barnabörnum? Erum við að velja spil sem krefst mikilla samskipta milli þátttakenda eða viljum við spil sem krefst mikillar hugsunar og strategíu?“

Ekki bundin við spilaborðið

Stefán segir frá því að í upphafi Covid hafi maður komið í Spilavini í leit að Monopoloy, en ætlað frá að hverfa þar sem það var uppselt. „Ég spurði hann eftir hverju hann væri að sækjast, hvað honum þætti skemmtilegast við Monopoly. Var það að kaupa og selja eða samskiptin við hina, viðskiptin við þá? Hjá honum voru það samskiptin við aðra þátttakendur í spilinu, að versla við þá með eignir. Þá gat ég bent honum á Bohnanza, sem snýst um ræktun og viðskipti með baunir. Þar eru spilarar sífellt að versla við hina, endalaus samskipti, mismunandi baunir eru misverðmætar. Svo opnar reglubók spilsins á að samningaviðræðurnar séu ekki bundnar við spilið. Það er til dæmis ekkert að því að endurgjaldið fyrir tiltekna baun sé að sjá um uppvaskið það kvöldið. Það eru þessi samskipti sem gera Bohnanza að einu af uppáhaldsspilunum mínum.

Þessi markaður er síbreytilegur. Spilanördar eru mjög nýjungagjarnir og vilja alltaf eitthvað nýtt. Spilin sjálf hafa breyst þannig að meira er lagt í þau og íhlutina. Í dag getur enginn gefið út spil á 120 gramma pappír. Það er liðin tíð. Spilin eru orðin litríkari, það eru plast- og tréhlutir, þykkur pappír. Spil eru orðin alvöru framleiðsluvara. Þau höfða til stærri hóps en áður enda setjast allir saman niður til að spila núna, en áður voru það bara börnin sem spiluðu á meðan fullorðna fólkið gerði eitthvað annað.“

Covid breytti hlutunum

Mikil þróun hefur orðið síðustu tvö árin í þá átt að spil hafa færst af borðinu og inn í tölvur og á vefinn. „Það eru aðallega fjögur svæði sem er verið að spila á netinu. Eitt er kennt við Steam þar sem borðspil og tölvuleikir eru mikið spilaðir á milli hvers kyns tölva. Þetta er svona eins konar „fjarspil“, svipað og „fjarfundur“. Önnur leið er þannig að tölvuskjárinn þinn er spilaborðið. Þetta getur bæði verið þannig að allir eru að spila saman í rauntíma eða þannig að einn spilari leikur sinn leik og staðan er vistuð og mótspilari getur komið inn seinna og leikið sinn leik. Svona spil getur tekið marga daga.“

Sýndarveruleiki í spilaheimi

Stefán segir þrívíddarsvæði vera til á netinu fyrir fólk að spila á. „Þarna er borð og spilið er á borðinu. Svæðið „kann ekki“ spilið þannig að spilararnir þurfa að spila sjálfir, þetta er eins konar sýndarveruleiki sem fólk spilar í. Þetta hefur færst mjög í aukana í kófinu og núna eru tvö svæði sem bjóða upp á svona.“

Stefán nefnir til sögunnar spilið Pandemic sem gekk í endurnýjun lífdaga í Covid. Það gengur út á að bjarga mannkyninu frá fjórum farsóttum. Þetta 10-12 ára gamla spil hafi fengið nýtt líf í faraldrinum.

Stefán er staðráðinn í að taka í spil um jólin. „Ég reyni að missa ekki af félagsvistinni í Borgarfirði og svo er alltaf gaman að spila með fjölskyldunni. Spilastundin er samverustund fyrir alla fjölskylduna. Fjölbreytileiki í gangverki, regluverki og þema spila gerir það að verkum að það er hægt að finna spil fyrir alla. En svo er líka ein tegund spila sem gleymist oft eða fólk hreinlega veit ekki að er til – það eru einmenningar. Samfélagsaðstæður síðustu tveggja ára hafa leitt til þess að sífellt fleiri spilaútgefendur leggja áherslu á að spilin þeirra séu hönnuð þannig að hægt sé að njóta þeirra jafnvel án þess að hafa spilafélaga,“ segir Stefán Jónsson spilanörd að lokum.