Fram að 20. öldinni var hettan fyrst og fremst hluti af kuflum. Dæmi eru um notkun hettunnar frá Rómaveldi og tengja margir hettuna við miðaldir og ákveðna þjóðfélagshópa, eins og munka og nunnur.

Myrku hliðar hettunnar

Þrátt fyrir að það sé, og hafi verið, allur gangur á því, þá hefur hettan líka oft verið talin eða túlkuð sem hluti af búningum böðla. Sennilega var og er þó algengara að böðlar hylji andlit sitt alveg, ef þeir gera það á annað borð.

Þá hefur hettan verið notuð af mannræningjum á fórnarlömb eða jafnvel við pyntingar eða yfirheyrslur en í báðum tilfellum hylur hún gjarnan að auki augun, í það minnsta. Lambhúshettan, sem hylur allt nema munninn, er svo önnur gerð hetta sem vekur upp mikinn óhug en hún er, í hugum fólks, nátengd ímyndinni af innbrotsþjófum, mannræningjum, hryðjuverkamönnum og morðingjum, svo eitthvað sé nefnt.

Ævintýrið um Rauðhettu er sígilt.

ettan getur þannig verið ansi hrollvekjandi og er hún einnig samofin hinni sígildu en óhugnanlegu táknmynd af manninum með ljáinn. Ein þekktasta kvenpersóna úr heimi ævintýranna er svo vitaskuld Rauðhetta sem, eðli málsins samkvæmt, notaði sannarlega hettu.

Uppruni hettupeysunnar

Undanfarna áratugi er hettan þó í hugum flestra, ekki síst á Vesturlöndum, einna helst tengd hettupeysunni. Bandaríska fatamerkið Champion er talið hafa framleitt fyrstu eiginlegu hettupeysuna á fjórða áratugnum og var hún upphaflega hugsuð fyrir og notuð af verkamönnum sem unnu utandyra eða í köldum vöruhúsum í New York. Hettupeysan náði fljótt vinsældum meðal íþróttamanna og meira að segja við þjálfun hermanna.

Á áttunda áratugnum var hettupeysan svo gerð ódauðleg í myndunum um hnefaleikakappann Rocky. Þá hefur hún einnig lengi notið vinsælda í hjólabrettaheiminum, hjá breikdönsurum og hjá veggjalistamönnum.

Maðurinn með ljáinn klæðist kufli með hettu.

Hettupeysan var líka og er mikið notuð innan ýmissa tónlistar- og menningarsena á borð við hipphopp, pönk og harðkjarnatónlist. Hettupeysan er að mati margra auk þess táknræn fyrir tölvuhakkara og mótmælendur. Þá kannast ýmsir líka við hinn hettpeysuklædda Kenny úr teiknimyndaþáttunum South Park.

Það kemur því varla á óvart að hettupeysan sjáist reglulega á tískupöllunum, enda löngu orðin að sígildum og órjúfanlegum hluta ótalmargra menningarkima.

Handhægur griðastaður

Hettupeysunni getur fylgt ákveðin öryggiskennd. Hettan hylur stóran hluta höfuðsins og veitir notandanum vissa vernd eða skjól gegn umheiminum ef svo má komast að orði. Notkun hettupeysa er því gjarnan algeng meðal þeirra sem þjást af kvíða og þá helst unglinga.

Hettupeysan er meðal annars táknræn fyrir hakkara.

Þá getur hettupeysan verið einstaklega gagnleg þegar napurt er í veðri og viðkomandi kannski ekki með húfu eða annan höfuðbúnað. Það sem gerir hettuna svo enn betri en annan höfuðbúnað er sú staðreynd að hún er iðulega föst við peysuna eða yfirhöfnina og því þarf ekki að bera hana og hægt er að setja hana upp og taka niður á fljótan hátt án mikillar fyrirhafnar.

Það eru þó ekki allir jafn hrifnir af hettunni. Til dæmis eru kennarar almennt ekki miklir aðdáendur hettunnar, né lögreglu- eða afgreiðslufólk og eru dæmi um að notkun hettupeysa hafi verið bönnuð í verslunarmiðstöðvum og skólum.

Hettan og hleypidómar

Myrkustu hliðar hettupeysunnar tengjast þó eflaust þeim fordómum og tortryggni sem ungir, iðulega hörundsdökkir, menn mæta. Hettupeysan hefur af sumum verið talin merki um uppreisnargjarna vandræðaunglinga og getur tortryggni af því tagi haft í för með sér skelfilegar afleiðingar.

Hettupeysan varð að sameiningartákni í morðmáli Trayvon Martin í Bandaríkjunum árið 2010.

Þetta var einmitt eitt af því sem margir töldu hafa spilað inn í þegar hinn 17 ára Trayvon Martin var skotinn til bana árið 2010. Martin virtist ekkert hafa til saka unnið annað en að klæðast hettupeysu með poka af Skittles í vasanum. Fréttamaðurinn Geraldo Riviera hélt því fram að hettupeysan hefði átt stóran þátt í morðinu og hvatti foreldra afrísk- og rómansk-amerískra unglinga til að sjá til þess að börn þeirra klæddust ekki peysum af þessu tagi.

Hettupeysan varð í því tilfelli að eins konar sameiningartákni meðal mótmælenda sem kröfðust svara og viðeigandi refsingar morðingja hans. Fjöldi fólks kom saman, íklætt hettupeysum, til stuðnings baráttu sem virðist því miður ekki enn sjá fyrir endann á.