Margrét Einarsdóttir, búningahönnuður, hefur veriðtilnefnd til Guldbaggen verðlaunanna. Þau eru veitt ár hvert af sænsku kvikmyndaakademíunni og er Margrét tilnefnd fyrir búninga sína í kvikmyndinni Eld & lågor eftir Måns Mårlind og Björn Stein.

Myndin Eld & lågor er einnig tilnefnd fyrir bestu kvikmyndatöku ársins, bestu förðun/gervi ársins, tónlist ársins, leikmynd ársins og brellur ársins.

Margrét hefur m.a. unnið til nokkurra Edduverðlauna fyrir búninga ársins eins og í kvikmyndunum Hrútar, Vonarstræti og Á annan veg. Guldbaggen verðlaunin verða veitt þann 20. janúar næstkomandi.

Þá hefur Kristín Júlla Kristjánsdóttir, förðunarmeistari, verið tilnefnd til Robert verðlaunanna, sem Danska kvikmyndaakademían veitir ár hvert, fyrir besta gervi og förðun í hinni dönsku/íslensku kvikmynd Goðheimar eftir Fenar Ahmad. Kristín er tilnefnd ásamt Salla Yli-Luopa og verðlaunaafhendingin fer fram þann 26. janúar næstkomandi í Kaupmannahöfn.

Goðheimar er fantasíu- og ævintýramynd sem byggir á samnefndum teiknimyndasögum og Norrænni goðafræði og var Grímar Jónsson, leikstjóri Hrúta og Héraðsins, meðframleiðandi myndarinnar. Þess má geta að Margrét Einarsdóttir vann einnig að búningahönnun við myndina.