Eydís Blöndal hefur sent frá sér þriðju ljóðabók sína, Ég brotna 100% niður.

Spurð hvort titillinn sé lýsandi fyrir tóninn í bókinni svarar Eydís: „Ég sá þessa setningu einhvern tíma á maíspoka og tengdi mikið við hana. Mér fannst ég og pokinn eiga þetta sameiginlegt; að eiga eftir að brotna niður. Þaðan kom hugmyndin að titlinum. Bókin átti upprunalega að snúast aðallega um loftslagsmál en þegar ég kafaði dýpra í það viðfangsefni varð umfangið alltaf stærra. Þannig að titillinn er margræður eins og niðurstaða bókarinnar – að loftslagsváin sé víðfeðmur vandi sem skýtur niður rótum víða í mannlegri tilvist.“

Ýmis ljóð í bókinni fjalla um samfélagsleg efni en önnur eru mjög persónuleg. „Ég fjalla til dæmis um samskipti við pabba minn sem dó árið 2015 en einnig um það samfélag sem við lifum og hrærumst í og firringuna sem þar býr.“

Rót vandans

Eydís, sem var á tímabili varaþingmaður Vinstri grænna en sagði sig síðan úr flokknum, hefur brennandi áhuga á umhverfismálum. „Niðurstaða mín þegar ég fjalla um umhverfismál, hvort sem það er í ljóðum eða á pólitískum vettvangi, er sú að þau snúist um heimsmynd okkar frekar en koltvísýring og útblástur. Rót vandans liggur í mannsandanum sem ég segi í þessari bók að við séum búin að brjóta niður, og er grunnurinn að því sem knýr áfram neysluhegðun sem er að valda þessum mikla skaða. Þetta er í raun hringavitleysa sem viðheldur sjálfri sér.“

Fyrsta ljóðabók Eydísar, Tíst og bast, innihélt ljóð sem höfðu fyrst birst á Twitter-síðu hennar. „Fólk hvatti mig til að gefa ljóðin út og ég ákvað að kýla á það, fannst það spennandi,“ segir hún. Ljóðabók númer tvö, Án tillits, var tilnefnd til Maístjörnunnar. Ljóð hennar hafa því fengið ljómandi góðar viðtökur. „Það er mjög gefandi að koma frá sér hugsunum á jafn áþreifanlegan hátt og bókarformið er. Jákvæð viðbrögð eru síðan algjör plús.“

Stærri hugarheimur

Spurð hvort hún verði vör við mikinn ljóðaáhuga fólks segir hún: „Sumir hafa aldrei lesið ljóð og aðrir lifa og hrærast í þeim alla ævi. Sjálf les ég ekki mikið af ljóðum en mér finnst gott að tjá mig í þessu formi.“

Ætlar hún að halda sig við ljóðagerð? „Kannski fer ég að færa mig yfir í esseiur. Í fyrri ljóðabókum mínum var stíllinn mjög knappur, ljóðin í þessari bók eru lengri. Nú er ég farin að segja frá og byggja stærri hugarheim.“