Ég hef verið með þetta mál á heilanum í mörg ár og það var gott að losa það út í kosmósið. Tæma harða diskinn og búa til nýtt pláss,“ segir Ari Alexander Ergis Magnússon, leikstjóri myndarinnar Undir halastjörnu sem frumsýnd var í gær. Myndin er byggð á líkfundarmálinu sem skók þjóðina árið 2004. „Þetta er búið að vera rúmlega 14 ára meðganga. Þetta er búið að taka óvenju langan tíma. Við höfum margoft hætt við en alltaf byrjum við aftur. Það var einhver draugur í þessu ferli sem kallaði mig áfram,“ segir hann.

Ari segir að myndin sé skoðuð frá hlið gerenda í málinu og tekur hann skýrt fram að hann sé ekki að réttlæta eitt né neitt. „Glæpamenn í flestum lögregluþáttaröðum sem nú tröllríða öllu eru gerðir mjög sjúkir og veikir en ég er ekki alveg sammála því. En eitt leiðir af öðru í þessari atburðarás og augljóslega var ekki planið að drepa manninn. Þetta er einhver ólukka sem gerist undir halastjörnu sem hefur fylgt manninum frá upphafi. Hún merkir ógæfu og þeir finna stein sem þeir telja vera frá halastjörnu sem eltir þá í gegnum myndina. Það er nefnilega oft svo sannarlega misgefið í þessu spili sem við köllum lífið.“

Ari er á leiðinni til Varsjár á mánudag og þaðan til Tallinn í Eistlandi þar sem myndin verður sýnd. Hún verður reyndar sýnd víða. Í öllum Eystrasaltslöndunum, Noregi og víðar. Vinnan er því rétt að byrja. „Það er mikil eftirfylgni sem fylgir svona verkefni. Það er nefnilega ekki til nein uppskrift að útkomunni í kvikmyndagerð. Á þessum ferðalögum hittir maður líka fólk, sem er mjög skemmtilegt, er innan kvikmyndagerðarinnar og hefur einnig þessa áhættufíkn að gera kvikmynd.“