Marg­lyttu­hópurinn svo­kallaði, hópur sex ís­lenskra kvenna, lauk nú fyrr í kvöld boð­sundi sínu yfir Ermar­sundið og er hópurinn nú kominn til hafnar í Cap Gris Nex í Frakk­landi.

Eins og Frétta­blaðið greindi frá lagði hópurinn af stað klukkan sex í morgun frá höfninni í Dover á Eng­landi. Mark­miðið með sundina eru að vekja at­hygli á plast­mengun í sjónum. Í til­kynningu Marg­lyttanna kemur fram að þær hafi fengið að bragða á sjónum á æfingum sínum undan­farið og hann sé mikið mengaður og að þær þurfi að synda gegnum olíu­flekki á leið sinni.

„Efst í huga okkar Marglyttanna eftir sundið er þakklæti fyir að hafa náð að synda yfir Ermarsundið og láta þannig drauma okkar rætast. Við erum ánægðar að hafa hreyft við umræðunni um alvarlegar afleiðingar plastmengunar í sjó og sérstaklega glaðar að safna styrkjum fyrir Bláa herinn,“ segja Marglytturnar, Silla Maja, Halldóra, Birna, Brynhildur, Sigrún og Þórey.

Það hefur sannarlega reynt á þrautseigju sundkvennanna sex í þessari þrekraun. Sundið byrjaði vel í þokkalega lygnum sjó og hlýju veðri. Um miðbik sundsins og þær komnar yfir í landhelgi Frakklands tók að bæta í vind og syntu þær lengi í miklum öldugangi. Kaflinn sem kallaður er grafreitur draumanna var sérstaklega erfiður og voru straumar þar mjög sterkir og mikil ölduhæð. Sundkonurnar urðu nær allar sjóveikar sem hægði á sundinu og gerði veruna um borð í bátnum erfiðari.

Ljóst er að þær stöllur syntu 34 kíló­metra yfir sundið sem tók fimm­tán klukku­stundir. Marg­lyttur eru sund­konurnar Sigur­laug María Jóns­dóttir, Sigrún Þ. Geirsdóttir (Ermar­sunds­kona), Hall­dóra Gyða Matthías­dóttir, Birna Braga­dóttir, Þór­ey Vil­hjálms­dóttir og Bryn­hildur Ólafsdóttir, auk skipu­leggj­endanna Grétu Ing­þórs­dóttur og Soffíu Sigur­geirs­dóttur.

Sigur­laug María Jóns­dóttir stökk fyrst í sjóinn í morgun, þar á eftir kom Sig­rún Þ. Geirs­dóttir og svo Hall­dóra Gyða Matthías­dóttir. Á eftir henni synti Birna Braga­dóttir, svo Þór­ey Vil­hjálms­dóttir og var Bryn­hildur Ólafs­dóttir síðust í röðinni. Þannig var jafn­framt önnur sund­lotan og þrjár fyrstu sund­konurnar í örðinni syntu þrisvar sinnum.

Boð­sundið hefur verið í undir­búningi síðast­liðnu tvö ár og hefur hópurinn æft nánast dag­lega til að takast á við þrek­raunina. Marg­lyttu­hópurinn heldur á­fram söfnuninni fyrir Bláa herinn og mun hún vera í gangi næstu daga.

Hægt er að styðja við boð­sundið, en öll á­heit renna ó­skipt til Bláa hersins. Það er hægt að gera í AUR appinu í síma 7889966 og með því að leggja inn á reikning 0537-14-650972, kt. 250766-5219 (í nafni Grétu Ing­þórs­dóttur).