Nýjustu tölur frá Íslandi benda til þess að 2,7% barna á Íslandi séu á einhverfurófi. Það bendir allt til þess að sama tala gildi yfir þjóðina alla,“ segir Evald Sæmundsen. Hann er doktor í sálfræði sem hefur starfað með einhverfum og stundað rannsóknir á einhverfu í rúma þrjá áratugi.

Einhverfa er algengari meðal karla en kvenna, yfir 4% karla eru á einhverfurófi. Það er þó margt sem bendir til þess að konur séu síður greindar með einhverfu. Konur eru frekar greindar með persónuleikaröskun og aðra geðsjúkdóma áður en þær eru greindar með einhverfu.

Evald, sem starfar hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, segir að fólk geti verið með einhver einkenni einhverfu án þess að þurfa að vera greint á einhverfurófi. „Þetta er spurning um styrkleika einkenna og hvort þau hamla eða ekki. Við höfum áhuga á að finna þá sem eru með einhver einkenni í tengslum við rannsóknir á erfðum einhverfu. Hver einkennin eru, hvernig þau dreifast milli kynja o.s.frv.“

Einhverfa einkennist af erfiðleikum með félagslegt samspil, tjáskipti og áráttutengda hegðun. Fordómar í garð einhverfra byggjast oft á aðstæðum einstaklinganna. „Við getum hugsað okkur konu á rófinu sem líður ekki vel í félagsskap annarra og býr yfir litlum sveigjanleika í mannlegum samskiptum ásamt því að vera með áráttuhegðun. Það getur samt verið manneskja í framvarðasveit í listum eða vísindum. Við erum að tala um breidd sem spannar allt frá því að vera alvarlega þroskahamlað yfir í fólk sem lifir góðu lífi.“

Árið 2005 voru 0,6% barna greind á einhverfurófinu, talan var komin upp í 1,2% árið 2009 og er nú í 2,7%. Einhverfum er ekki að fjölga heldur eru einfaldlega fleiri greindir, Evald útilokar ekki að hlutfallið hækki. „Við höfum engan áhuga á því að greina alla með einhverfu fyrir árið 2020, við viljum bara fá að vita hverjir það eru sem þarfnast hjálpar. Við þefum ekki bara upp einkenni, við viljum gera eitthvað fyrir einstaklinga sem eiga erfitt en við ætlum ekki að hlaupa um gangana í háskólanum og greina þar skrítið fólk sem gæti verið á einhverfurófi. Það eru margir sem hafa enga sérstaka þörf fyrir hjálp.“